Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu o.fl.

Þriðjudaginn 15. apríl 2008, kl. 19:08:02 (6462)


135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu o.fl.

553. mál
[19:08]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vek athygli hæstv. ráðherra á að ekki er búið að lögfesta allar þrjár stoðir Árósasáttmálans. Það er ekki búið að lögfesta á þessu landi ákvæði um réttláta málsmeðferð og um aðild félagasamtaka og einstaklinga að kæruferli og ákvörðunum um umhverfismál, enda þótt upplýsingahluti samningsins hafi verið settur í lög.

Ef hæstv. ráðherra meinar eitthvað með því að þeir sem telja á sér brotið með útgáfu leyfa til rannsókna eða nýtingar eða virkjunarleyfa eigi að hafa leið innan kerfisins til að kæra og fá aðild að ákvörðunarferlinu þá á hæstv. ráðherra að beita sér fyrir lögfestingu Árósasáttmálans, fyrr en síðar. Um það hefur flokkur hans nokkrum sinnum talað á þingi. En eins og í öðru fer stefnan eftir því hvaðan vindurinn blæs.

Ef ráðherra tekur pólitíska afstöðu þá tekur hann á sig pólitíska ábyrgð. Ég held því fram að til að hægt sé að fylgja pólitískri stefnu og til að hægt sé að kalla menn til ábyrgðar verði þeir að hafa valdið í sínum höndum.

Ég tel að hæstv. umhverfisráðherra, af því að Helguvíkurmálið hefur borið á góma, hafi ekki tekið þá pólitísku ábyrgð sem ráðherranum bar. Ég er þeirrar skoðunar að þar hafi verið full efni til efnislegs úrskurðar og einnig að það beri, samkvæmt Evrópurétti, (Forseti hringir.) að láta fara fram heildstætt umhverfismat bæði varðandi Helguvík og ekki síður á Bakka.