Skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál

Þriðjudaginn 02. september 2008, kl. 17:12:44 (8690)


135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[17:12]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er sjónarmið út af fyrir sig að einn af kostum þess að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil og sjálfstæða peningamálastefnu er að aðlögun geti þá að einhverju leyti átt sér stað í gegnum þær breytur og forðað öðru verra, t.d. fjöldaatvinnuleysi. Það skyldi nú ekki vera kannski að Ögmundur Jónasson hafi verið með einhverjar slíkar hugleiðingar sem hv. þingmaður kýs að túlka og nota svona smekklega eða hitt þó heldur, að kjaraskerðingin sé markmið í sjálfu sér hjá Ögmundi Jónassyni. Ég segi bara: Verði hv. þingmanni að góðu að reyna t.d. að sannfæra félagsmenn í BSRB um það sama.

Herkostnaðurinn af krónunni og gjaldeyrisvarnir, hvers vegna skyldu þær nú vera hjá bönkunum eins og þær eru nema vegna þess að Seðlabankinn og ríkisstjórn, bæði fyrrverandi og núverandi, vanræktu að byggja upp gjaldeyrisvarasjóð? Hvað gerðu þá bankarnir? Þeir gerðu það í staðinn. Þeir byggðu upp sinn eigin gjaldeyrisvarasjóð, tóku stöðu gegn krónunni og hanga á henni enn þá. Það er af þeim sökum sem staðan er eins og hún er.