Skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál

Þriðjudaginn 02. september 2008, kl. 18:48:45 (8719)


135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[18:48]
Hlusta

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með umræðunum í dag og auðvitað sýnist sitt hverjum hvernig rétt er að bregðast við ástandinu en mér sýnist að enginn af þeim sem hér hafa talað haldi því fram að til séu einhverjar patentlausnir á þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir. Eftir sumarið er hollt og gott fyrir þingmenn að takast nokkuð á og ég býst við að sjaldan hafi jafnmikið legið á hjarta margs þingmanns og nú.

Hv. þm. Guðni Ágústsson kom reiður til þings í dag eftir að hafa gert mikla för um landið og haldið marga fundi og komist að því að ekki sé búið að sökkva Íslandi og fjöllin standa enn en jafnframt hefur hann komist að því að allur sá vandi sem blasir við okkur er Sjálfstæðisflokknum að kenna. Honum finnst ríkisstjórnin ekki hafa gert neitt og framsóknarhagfræðin kennir okkur að það þurfi a.m.k. að gera eitthvað allt annað en við erum að gera. Hann vill fá þjóðstjórn. Hann talaði um eitt og annað en það var dálítið skemmtilegt að hann passaði sig sérstaklega á því að ræða ekki Evrópumál. Framsóknarflokkurinn hefur sem sagt ákveðið að láta af þeirri Evrópuumræðu sem hann hóf í vor og ég býst við því að þegar formaður Frjálslynda flokksins fór af stað um landið hafi hann komist að því að Íslendingar eru ekki á þeirri skoðun að upptaka evru muni bjarga því ástandi sem við blasir nú.

En förum aðeins yfir það sem hefur komið fram í dag. Hv. þm. Ögmundur Jónasson er ánægður með þá yfirlýsingu hæstv. forsætisráðherra að mikilvægt sé að atvinna sé í landinu, að halda uppi atvinnustigi í landinu. Hæstv. forsætisráðherra tók mjög sterkt til orða þegar hann lýsti því að það væri grundvallarsjónarmið ríkisstjórnarinnar að halda uppi framleiðslustigi í landinu. Hann sagði: Framleiða, framleiða, framleiða. Það er akkúrat þannig sem við vinnum bug á þeim erfiðleikum sem við erum í núna væntanlega, það er að halda áfram að vinna, halda áfram að skapa verðmæti í landinu og hv. þm. Ögmundur Jónasson var ánægður með þá yfirlýsingu en hann sagði leiðirnar vera margvíslegar. Ég get tekið undir það með honum. Hann nefndi olíuhreinsunarstöð, hann nefndi gróðurhúsarækt, ylrækt, hann nefndi umönnunarstéttir, orkuframleiðslu og ýmislegt fleira. Ég er ötull talsmaður þess að innviðir landsins þurfa að vera sterkir og við Ögmundur erum væntanlega sammála um það. Ég er afskaplega stolt af því hvað við höfum eflt menntakerfið á undanförnum árum og hve rannsóknarsjóðirnir hafa verið efldir. Ég held að á grunni menntunar munum við auka hagvöxt í landinu og á því munum við byggja framtíðina, framtíðina sem við verðum að horfa til vegna þess að við verðum alltaf vera með það í huga hvernig land við viljum að Ísland sé. Ég bind líka miklar vonir við að heilbrigðiskerfið muni dafna. Ég get hins vegar ekki tekið undir það með hv. þm. Ögmundi Jónassyni að í þeim þrengingum sem nú eru til staðar sé ráðlegt að auka ríkisafskipti.

Ég hef efasemdir um að það sé heppilegt við þessar aðstæður að stofna hér sérstakt efnahagsráðuneyti eins og þingflokkur vinstri grænna hefur velt fyrir sér. Ég held að þegar við tölum um hversu mikilvægt það er að ríkið standi fyrir framkvæmdum við skilyrði sem þessi þá erum við ekki að tala um rekstrarverkefni. Við hljótum við þessar aðstæður að hugsa til þess að ríkisreksturinn sé skikkanlegur. Hins vegar gegnir allt öðru máli um framkvæmdir sem eru meira á sviði samgöngumála, framkvæmdir þar sem er um tímabundið verkefni að ræða þar sem ríkið geti komið af krafti inn og skiptir verulegu máli við að koma hjólunum aftur af stað. Það er gríðarlegur munur á því hvernig verkefni eiga að vera valin.

Ég held að þetta aðgerðaleysi sem ég ætla ekki að dvelja mikið við eða aðgerðir sem menn hafa verið að gagnrýna í dag ég sé ekki ástæðu til að staldra mikið við það að öðru leyti en því að þetta haust í efnahagslífinu sem formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs orðar svo gefur líka tilefni til þess að það vori aftur, að eftir haustið kemur raunar veturinn en svo kemur vorið og sumarið. Ég held að það borgi sig ekki fyrir okkur að horfa öðruvísi á hlutina heldur en akkúrat þannig að við erum í ákveðnum þrengingum, við munum vinna okkur út úr þeim með skynsamlegum hætti. Það er verið að stíga ákveðin skref, það hafa verið stigin mjög ákveðin skref. Fréttirnar sem hæstv. forsætisráðherra færði okkur í morgun um eflingu gjaldeyrisforðans eru afskaplega mikilvægar á þessu stigi og það er náttúrlega einstakur árangur að hann skyldi hafa verið fjölfaldaður á svo skömmum tíma sem raun er. En í mínum huga gildir núna fyrir stjórnmálamenn að stappa stálinu í þjóðina og muna að við munum komast upp úr þessari lægð, við munum komast yfir þetta. Þetta er ekki heimatilbúinn vandi.

Við vissum mjög vel að það mundi draga úr hagvexti um þessar mundir. Það hefur verið gert ráð fyrir því árum saman. Menn hafa spáð því og menn hafa reynt að búa sig undir það. Stjórnvöld áttu von á þessu. En þau áttu ekki von á þeim umhleypingum sem eru á erlendum mörkuðum. Þau áttu ekki von á þeim miklu olíuverðshækkunum sem hafa orðið. Þau áttu ekki von á þeirri lánsfjárkreppu sem við stöndum frammi fyrir. Við vissum ekki að hrávöruverðið mundi hækka eins og það hefur gert. Við gátum ekki búið okkur undir hluti sem við vissum ekki að yrðu. Ég veit ekki hvaða spádómsgáfum sumir þingmenn eru gæddir þar sem þeir segjast hafa séð þetta allt saman fyrir í fyrra en þá gera þeir mun betur en allir þeir spekingar sem eru úti um víða veröld og eru í nákvæmlega sama vanda og við, t.d. Spánverjar, Ítalir eða Portúgalar. Þetta eru allt saman Evrópusambandsþjóðir sem eiga við gríðarlegan vanda að stríða, vegna þess að evran fylgir ekki hagsveiflunni í heimalandinu. Það er ekki þannig að þetta sé eitthvað sem við höfum fundið upp hér á Íslandi.

Við vitum að ástandið er erfitt núna. En við vitum líka að það er tímabundið og við munum ná tökum á verðbólgunni og við trúum því að kaupmáttarminnkunin muni stoppa og það muni birta til. Þegar þær aðstæður skapast þá skapast líka ný tækifæri, það skapast ný tækifæri í viðskiptalífinu úti um allt land vegna þess að við svona los eins og nú er, þá vitum við að þegar hjólin fara aftur að snúast, sagan hefur sagt okkur það, þá skapast ný tækifæri.

Það má spyrja sig að því hver staðan væri núna ef ekki hefði orðið sú gerbylting í útflutningsverðmætum þjóðarinnar eins og hefur orðið á síðustu mánuðum og missirum. Hvernig skyldi staða gjaldeyrismála hafa orðið þá ef við hefðum ekki aukið útflutning svo umtalsvert eins og við höfum gert að undanförnu? Hún væri miklu verri, hún væri alls ekki góð. Margt hefur verið gert vel. Sumt hefur ekki gengið alveg jafn vel. Við vitum það og við lærum af þeim mistökum sem við gerum og við horfum fram á veginn. En aðalatriðið er þetta: Mér finnst að hlutverk allra stjórnmálamanna hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu sé að segja þjóðinni að við munum komast út úr þessum þrengingum og það verður bjartari tíð. Það verður erfitt og það tekur tíma en það gerist.