Fjáraukalög 2007

Þriðjudaginn 20. nóvember 2007, kl. 16:05:43 (1922)


135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[16:05]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég minnist þess að hafa oft áður heyrt umræðu um svokallaðan skuldahala Landspítalans. Ég minni hv. þingmann á að áður hefur verið tekið á fjárhagsvanda hans. Hann hefur sennilega verið núllstilltur, eins og kallað er, tvisvar ef ekki þrisvar áður. Vel gæti verið að einhverjir fleiri pólitískir flokkar hafi komið að því en Sjálfstæðisflokkurinn.

Ég tek undir þá skoðun hv. þingmanns að þetta er sameiginlegt verkefni. Ríkisstjórnin ber vitni um þær áherslur sem hún vill hafa í heilbrigðisgeiranum eins og við sjáum í frumvarpi til fjáraukalaga. Þar er gert gríðarlegt átak í að núllstilla þessar stofnanir, hvaða skoðun svo sem við kunnum að hafa á því. Grundvallaratriðið í þeim efnum er þá komið yfir til þingsins að því leyti til að við hljótum að gera ríka kröfu til þess að þær stofnanir sem fá þannig afgreiðslu safni ekki upp slíkum halla. Grundvallarspurningin væri kannski fremur sú hvers vegna slíkur halli safnast upp.

Ég lofaði því að svara varðandi framhaldsskólann, hvernig stæði á fjárveitingu upp á 150 millj. kr. Það er að frumkvæði mínu eftir samræður við menntamálaráðherra. Hv. þm. Bjarni Harðarson nefndi hér áðan að frumkvæði þingsins án atbeina ráðuneyta væri nánast óhugsandi í þessum efnum, en ég er ekki sammála því. Stundum þurfum við að sýna ákveðið frumkvæði, þingmenn, og náðist ágæt samstaða um þetta í meiri hluta fjárlaganefndar. Þetta endurspeglar raunar þær áherslur sem oft hafa komið fram í umræðum þar.

Varðandi þjóðlendumálin ætti nú síst að standa á þeim sem hér stendur að berjast fyrir auknu fé í þann málaflokk. Ég hef svo sem verið andvígur framgangi og framkvæmd þeirra mála en á bls. 9 í meirihlutaáliti um fjáraukalög koma fram þær skýringar sem um er að ræða. Grunnatriði er að lagt hefur verið í kostnað sem ekki hefur verið komist hjá að inna af hendi.