Fjáraukalög 2007

Þriðjudaginn 20. nóvember 2007, kl. 18:58:02 (1961)


135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[18:58]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Herra forseti. Rétt er að fram komi í andsvari við svari hv. þm. Þuríðar Backman að atvinnuástand er nú með þeim hætti að í tilteknum stéttum er mikil hætta á launaskriði. Áætlanir ríkisins fyrir næsta ár benda til að atvinnuleysi aukist og þar af leiðandi ætti spennunni að létta. Þann fyrirvara verður að hafa á að erfitt er að spá fyrir með þessum hætti um launaþróun með mikilli vissu.

Fram kom í máli hv. þingmanns áðan að óeðlilegt væri að afgreiða fjáraukalaögin með öllum þeim tilfærslum eða viðbótum við fjárlög ársins 2007. Ég vil þá benda á að fjárlagagerðin hefur verið með þessum hætti undanfarin ár. Fjárlög ársins hafa verið sett og síðan hafa stofnanir ríkisins og ráðuneyti hálfpartinn gert ráð fyrir að til viðbótar fjárlögum ársins kæmu fjáraukalög undir lok árs. Þannig hefur verið unnið en vilji stendur til að breyta því.

Hv. þingmaður spurði hvort útbúa yrði fjáraukalög vegna rekstrar Landspítalans á næsta ári. Ég vil sérstaklega taka fram og undirstrika það sem kom fram í ræðu áðan að óþolandi væri að standa í þeim sporum þegar teljum okkur vera búin að núllstilla þá ágætu stofnun, að við stæðum frammi fyrir því (Forseti hringir.) aftur ári síðar að þurfa að (Forseti hringir.) leiðrétta hana.