Fjárlög 2008

Föstudaginn 30. nóvember 2007, kl. 18:22:25 (2430)


135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[18:22]
Hlusta

Dýrleif Skjóldal (Vg):

Frú forseti. Hana bar frekar brátt að komu mína hingað á Alþingi Íslendinga. Ekki það að ég hefði ekki mátt búast við því að einhvern tímann kæmi kallið en það kom og nú er ég komin í 2. umr. um fjárlög.

Í tvo daga hef ég setið hér, samviskan uppmáluð, og hlustað á málflutning stjórnar og stjórnarandstöðu og báðir hafa mikið til síns máls. Fólkið sem hér vinnur hefur lagt sig fram um að koma á dagskrá þessum fjárlögum.

Það eina sem veldur mér sorgum er að mér finnst þessi fjárlög ekki alveg nógu góð. Þau eru ekki alveg í samræmi við það sem fólkið í landinu vill. Fólkið í landinu, fólk eins og ég, með 100–200 þús. kr. á mánuði, getur ekki tekið á sig öllu meira. Það getur ekki sparað af því það á varla fyrir því sem það þarf. En fólkið eins og ég, með 100–200 þús. kr. á mánuði, vill alveg borga skatta. Það vill bara að þeir sem hafa meiri tekjur og fá meiri laun borgi meiri skatta af því að við viljum hafa almennilegt heilbrigðiskerfi í þessu landi.

Fólkið sem vinnur við heilbrigðisþjónustuna, hjá sjúkrahúsunum, er orðið langþreytt á endalausum sparnaðaraðgerðum, manneklu og vinnutíma sem slær starfstíma þingmanna út. Ég spyr mig: Er það virkilega svo í þessu siðmenntaða landi, þessu besta landi heimsins sem við búum í, að betla þurfi og nauða um peninga ár eftir ár fyrir sjúkrastofnanir landsins? Ég spyr mig: Hvernig getur meiri hluti þingsins afgreitt framlög sem vitað er að engan veginn nægja til reksturs þessara stofnana?

Við hjá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum gengist glöð við þeirri ábyrgð og skyldu okkar að standa vörð um heilbrigðismálin. Við leggjum til breytingartillögu á þingskjali 356 þar sem kveðið er á um aukið fé til heilbrigðismála. Yfir þau mál fór Ögmundur Jónasson mjög snöggum orðum hér, svo snöggum að það kom þingsal og þingheimi verulega á óvart. En ég ætla ekki að endurtaka þau orð.

Ég ætla hins vegar að mæla fyrir tillögu sem kostar ekki mikið en er til mikilla bóta fyrir fólk norður í landi og þá sérstaklega börn, börn sem eiga svo erfitt að þau geta ekki verið í venjulegu skólakerfi og foreldrar þeirra og fjölskyldur eru að gefast upp. Ég vil nota tækifærið og tala fyrir breytingartillögu vegna frumvarps til fjárlaga. Þessi tillaga er þess efnis að Hlíðarskóla á Akureyri verði veitt 8,7 millj. kr. framlag eins og Gaulverjaskóla, vegna þeirrar meðferðarstarfsemi sem fer fram í Hlíðarskóla. Starfsemin í Hlíðarskóla er fyrirmynd Gaulverjaskóla og það er fínt að fleiri sveitarfélög taka upp þá stefnu að hjálpa þeim sem minnst mega sín og finna fyrir þá úrræði.

Í Hlíðarskóla eru 16 pláss fyrir drengi og 8 pláss fyrir stúlkur sem eiga við hegðunar-, aðlögunar- og samskiptaröskun að stríða. Auk þess eru 5 pláss ætluð börnum með geð- og þroskaraskanir í deild sem starfrækt er við skólann. Akureyrarbær hefur staðið straum af þessu úrræði og komið þessu á fót. Skólinn leggur mikla áherslu á meðferðarvinnu og er ávallt lagt af stað með það að markmiði að nemendur hans séu ekki í skólanum nema takmarkaðan tíma og eigi í flestum tilfellum aftur möguleika á námi í sínum heimaskóla.

En úrræði sem þessi eru dýr. Þau eru algjörlega sambærileg við úrræði Gaulverjaskóla því eins og ég áður sagði hefur hann sótt í smiðju Hlíðarskóla. Því tel ég nauðsynlegt að Hlíðarskóla verði veitt sama fjárhæð og Gaulverjaskóla vegna meðferðarstarfsemi sinnar.

Ég vil jafnframt þakka fyrir alla þá vinnu sem lögð hefur verið í þessi fjárlög. Það er margt gott í þeim. Það er margt slæmt í þeim. Í öll þau ár sem ég man eftir mér þá man ég bara eftir því að fyrri hluta ævi minnar var erfið hagstjórn. Hún var erfið af því að það var svo mikið harðæri. En síðastliðin sex eða sjö ár hefur hagstjórnin verið enn þá erfiðari af því nú er svo mikið góðæri. Það getur verið fyrir almennilegt fólk dálítið erfitt að skilja þetta. Það er bara svoleiðis.

Almenningur í þessu landi vill fá úrbætur. Það er ekki hægt að segja, þegar kjarasamningar nálgast, að það sé svo erfið hagstjórn af því við eigum svo mikla peninga að það megi alls ekki skipta þeim. Það er heldur ekki hægt að segja að við höfum það svo andskoti gott af því hagstjórnin sé svo góð.

Ég er ekki viss um að fólkinu sem býr í tjaldi niðri í Laugardal líði afskaplega vel í góðærinu. Ég er alls ekki viss um að fjölskyldunum, börnunum, eldra fólkinu og þeim sem búa við kröppust kjör líði svo ofboðslega vel í góðærinu. Nú nálgast sá tími að biðraðirnar fara að lengjast hjá Mæðrastyrksnefnd og við, þetta almennilega fólk sem er svo vel haldið að það getur enn þá fitnað, klórum okkur í höfðinu og spyrjum okkur: Hvernig getur þetta gerst í góðæri Íslands, í sex ára góðæri? Hvernig sem á það er litið, fyrir venjulegt fólk í þessu landi, er vitlaust gefið í þessum spilaleik.

Venjulegt fólk hefur ekki færi á því að vinna þennan spilaleik. Þegar þeir sem gefa standa að svindli líka, ef svo má að orði komast, þá er ekki von að vel fari. Ráðdeild og sparsemi eru orð sem oft hefur borið á góma tvo síðastliðna daga. Ríkisstjórnin þarf að sýna það. Ég er sammála þeim enda höfum við í vinstri grænum lagt til að þeir geti bara sópað öllum þeim peningum sem þeir ætla að eyða í NATO, hernaðarmál, varnarmál og guð má vita hvað þeir kalla það, í varnir gegn þessum hættulega, stórhættulega óvini sem enginn veit hver er eða hvaðan kemur, og nota þá til að verjast óvinum sem ráðast að lokum á okkur öll, sjúkdóma, slys og elli. Það er óvinurinn sem stendur fyrir framan fólkið í dag.

Sem betur fer hefur Ísland grætt það mikið og eytt það miklum peningum í heilbrigðiskerfið sitt að við stöndum uppi sem sigurvegarar í þeim leik, að eiga besta heilbrigðiskerfi heimsins, heilbrigðiskerfi sem ekki á að einkavæða, heilbrigðiskerfi sem við, venjulegt fólk og venjulegir skattborgarar, erum stolt af að borga okkar skatta til. Við viljum að börnin okkar fái þá þjónustu sem þau þurfa þegar þau veikjast. Við viljum ekki horfa upp á vaxandi ungbarnadauða, dauða hjá litlum börnum vegna botnlangabólgu eða þaðan af auðveldari aðgerða vegna þess að foreldrarnir eigi ekki peninga. Það getur vel verið að þetta þyki flott í Bandaríkjunum en mér finnst það skömm. Ef það vantar krónu þá skal ég glöð borga hana með meiri sköttum til að heilbrigðiskerfið verði á þeirri siglingu sem það er. Þar er fólk sem vinnur af kærleika, áhuga og eljusemi en það er að bugast. Það er að gefast upp. Það er nokkuð sem við á Alþingi verðum að hlusta eftir.

Það er vitlaust gefið í þessu spili. Meiri hluti fjárlaganefndar og ríkisstjórnin öll hefur fengið að heyra mörgum sinnum í dag hvað við í stjórnarandstöðunni viljum, að það verði breytt um áherslur og það er von mín að þeir taki tillit til þess. Það þarf að breyta áherslunum.