Fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum

Fimmtudaginn 20. nóvember 2008, kl. 16:24:44 (1277)


136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[16:24]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég sakna þess að hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar skuli flognir úr þinginu og það er dálítið magnað að sjá að áhorfandinn á pöllunum skuli vera um það bil 20% af þeim mannfjölda sem situr í salnum núna. En krafa almennings á Íslandi er umbylting í stjórnmálum. Fólk kemur saman svo þúsundum skiptir til að mótmæla því leynilega ráðabruggi sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa bruggað að undanförnu. Þingmennirnir sjálfir eru farnir að mótmæla gamaldags vinnubrögðum sem skilað hafa þjóðinni rýrri uppskeru. Fólk vill réttlæti, sanngirni, heiðarleika og umfram allt að vera upplýst um atriði sem því kemur við. Það vill ekki lengur búa við baktjaldamakk, feluleiki og ósannindi eins og því hefur verið boðið upp á undanfarnar vikur og mánuði. Fólk flykkist í bæinn oft í viku til að mótmæla framferði ráðamanna og slær skjaldborg utan um Alþingishúsið sem tákni um að það vilji vernda lýðræði sem lengi hefur verið fótum troðið af framkvæmdarvaldinu.

Þingsályktunin sem hér er á borð borin í dag er vitnisburður um þau aumu vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið. Ekki svo að skilja að samningur ríkustu og bestu þjóða heims við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sé ekki nauðsynlegur við núverandi kringumstæður. Það eru hins vegar vinnubrögð ríkisstjórnarinnar sem beygt hafa fólk í duftið þar sem menn hafa leyft sér að spila verulega djarft með orðspor þjóðarinnar og þessi vinnubrögð hafa tekið allt of langan tíma. Ef marka má orð hv. þm. Árna Páls Árnasonar sem talaði fyrr í dag þá tók þetta svo langan tíma vegna þess að við vorum lengi að átta okkur. Er það svo? Getur verið að yfirlætislegar hótanir um mismunun innstæðueigenda á Icesave-reikningum Landsbankans eftir þjóðerni hafi haft þar eitthvað að segja? Hvað er það sem seðlabankastjóri hefur að fela um ástæður þess að Bretar beittu hryðjuverkalöggjöf á íslenska banka í Bretlandi? Hvort hleypti illu blóði í Breta, það að ráðamenn gátu ekki neitað sér um að grobba sig af því að ætla að brjóta mannréttindasáttmála Evrópu, EES-samkomulagið og stjórnarskrána, allt á einu bretti, eða loforð hæstv. forsætisráðherra um eitthvað sem hæstv. fjármálaráðherra varð svo að bera til baka í frægu símtali sem lak á netið, eins og svo margt annað frá ríkisstjórn sem lætur ýmsa miðla bera þjóðinni skilaboð í stað þess að flytja þau sjálf? Er það boðlegt, svo vitnað sé í þingsályktunina sem til umræðu er í dag, þegar þjóðarbúskapur Íslendinga stendur frammi fyrir svo alvarlegri fjármálakreppu að slíks eru fá dæmi? Hefðum við hugsanlega verið í annarri samningsstöðu ef menn hefðu neitað sér um loforð og hótanir á víxl? Hefði mátt koma í veg fyrir þær ömurlegu afleiðingar sem sex vikna bið eftir láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefur haft í för með sér? Ekki svo að skilja að ég sé með þessu að réttlæta gjörðir Breta en ríkisstjórnin, sem hélt hún gæti rætt við alþjóðasamfélagið með því að skella hurðum í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötuna, er ekki saklaus í málinu.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði fyrr í dag að mikilvægt væri að vita hvenær maður ætti að bíta frá sér og hvenær ekki. Það er gott ef hann er búinn að átta sig á því núna en það er of seint. Óvissan sem almenningur hefur búið við undanfarnar vikur er óþolandi og þrátt fyrir það að hér sé til umræðu nauðasamningur — sem birtur var í heild sinni í DV fyrir þremur dögum síðan en kom fyrir augu þingmanna löngu síðar — þá er enn langt í land.

Virðulegi forseti. Fróðlegt væri að vita á þessum degi hvað Samfylkingin ætlar lengi að láta bjóða sér það að fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins sitji í hennar skjóli á stóli seðlabankastjóra og hreyti pólitískum ónotum í allt og alla um leið og hann hvítskúrar sjálfan sig. Eru Borgarnesræður formanns Samfylkingarinnar týndar og tröllum gefnar, virðulegi forseti? Hvar eru samræðurnar milli stjórnvalda og samfélags óbreyttra borgara?

Virðulegi forseti. Samfylkingin er orðinn hluti af þeim stjórnvöldum sem deila og drottna, umbuna og refsa og ráða örlögum fólks svo vitnað sé orðrétt í Borgarnesræðu formanns Samfylkingarinnar. Hún sagði enn fremur að hún hefði það á stefnuskrá sinni að hafna stjórnlyndi Sjálfstæðisflokksins sem hefur það stefnumið eitt, að hennar mati, að halda völdum? Hvar var Samfylkingin á meðan hér glumdu viðvörunarbjöllur fjármálakerfisins? Hvar var Samfylkingin þegar jarðskjálftamælar fjármálakerfisins fóru af stað sl. vetur? Hún var auðvitað upptekin við að halda völdum, virðulegi forseti. Formaður Samfylkingarinnar sagði líka í Borgarnesræðu, með leyfi forseta:

„Margir eiga svo mikið undir valdinu, við skulum ekki gleyma því.“

Nú er það fólkið í landinu sem á allt sitt undir valdinu, opinberu valdi sem m.a. Samfylkingunni hefur verið trúað fyrir og nú má þjóðin súpa seyðið af því hvort sem henni líkar betur eða verr að valdið sat að huggulegri tedrykkju í stað þess að bregðast við hættumerkjunum sem menn keppast nú við að hreykja sér af að hafa komið auga á langt á undan öllum öðrum. Nauðasamningur sá sem ræddur er í dag boðar þjóðarsátt í skugga laskaðra lífeyrissjóða, ónýtrar peningamálastefnu, langra atvinnuleysisskráa, verðtryggingar sem hleðst upp, 18% stýrivaxta, mikillar skattbyrði til langs tíma að ekki sé talað um mikla óvissu m.a. vegna þess að við vitum ekki enn þá hvaða kjör við fáum á þetta lán.

Virðulegi forseti. Ég sé svo heldur ekki betur en að samkomulagið sem gert hefur verið, annars vegar á milli tveggja sjálfstæðismanna og hins vegar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sé í raun og veru — þetta er plagg sem er samkomulag á milli tveggja sjálfstæðismanna annars vegar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hins vegar. Ég minnist þess ekki, virðulegi forseti, að þingmenn hafi haft tækifæri til að koma með nokkrum hætti að þeirri stefnumótun sem liggur hér að baki. Hér eru ráðherrar ríkisstjórnarinnar ekki viðstaddir í dag og aðrir stjórnarliðar eru mjög fáir í salnum til að ræða þetta mikilvæga mál. Ef þetta er samkomulag sem gert hefur verið á milli tveggja sjálfstæðismanna annars vegar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hins vegar og þingmenn hafa ekki haft nein tækifæri til að koma að stefnumótun í þessu máli en eiga samt að samþykkja það, eigum við þá að ræða það eitthvað frekar?