Fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum

Fimmtudaginn 20. nóvember 2008, kl. 18:10:32 (1304)


136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[18:10]
Horfa

Ármann Kr. Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held ég geti alveg fullyrt að ég hafi ekki sagt að Framsóknarflokkurinn væri sá eini sem ætti að bera ábyrgð. Ég held að ég hafi frekar verið að segja að Framsóknarflokkurinn er ekki alveg án ábyrgðar í þessu máli og ég ætla að standa við það. Hins vegar er svo langt því frá, og undirstrika það, að ég tel alls ekki að Framsóknarflokkurinn beri bara ábyrgð á þessu, alls ekki. Hafi hv. þingmaður skilið mig þannig þá hef ég orðað þetta eitthvað undarlega. Ég þarf þá að lesa ræðuna yfir aftur. Ég trúi því ekki að ég hafi orðað það þannig að Framsóknarflokkurinn ætti bara að bera ábyrgð.

Það er rétt að bönkunum var ekki bjargað í þeim skilningi að sömu bankarnir héldu áfram starfsemi sinni. Það hefði verið nær að segja að bankakerfinu hafi verið bjargað að því leytinu til að þær aðgerðir sem var farið í urðu þó til þess að það var ekki „run“ eða ráðist og hlaupið á íslenska bankakerfið. Greiðslumiðlun hélt áfram alveg ótrúlega óhindrað miðað við það sem gekk á þannig að að því leytinu til varð því bjargað. En því miður voru ekki forsendur til að bjarga bönkunum. Ég spyr mig líka að því, og það á eftir að koma í ljós, hvort það hafi verið rétt að ráðast í að dæla öllu því fjármagni inn í bankakerfið erlendis sem raun varð á. Ég ætla þó ekki að gera lítið úr því. Við sáum náttúrlega strax hvað gerðist þegar Lehman fór á hausinn. Það eru þessi dómínóáhrif sem eru svo hættuleg og erfið þannig að þær aðgerðir eru í sjálfu sér skiljanlegar. En íslenska ríkið hafði ekki bolmagn til þess, því miður. Talandi um að það hafi verið búið að benda á það, jú, það var búið að benda á það, en bankarnir líka vissu það. Þeir voru að starfa í þessu umhverfi. Þetta var akkúrat umhverfið sem þeir voru að starfa í, þ.e. þessi litla þjóð með þessa krónu. En samt gerðu þeir allt það sem þeir gerðu.