Loftferðir

Fimmtudaginn 04. desember 2008, kl. 11:44:42 (1741)


136. löggjafarþing — 42. fundur,  4. des. 2008.

loftferðir.

196. mál
[11:44]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um loftferðir, nr. 60 frá 1998, með síðari breytingum.

Um nokkurt skeið hefur staðið fyrir dyrum heildarendurskoðun laga um loftferðir í samgönguráðuneytinu. Þar sem sú vinna er skammt á veg komin þykir brýnt að koma að breytingum á lögunum, ekki síst með tilliti til þeirra stjórnskipulegu fyrirvara sem gerðir hafa verið, vegna innleiðingar nokkurra gerða Evrópubandalagsins í íslenskan rétt. Verði frumvarpið að lögum verður unnt að aflétta þeim fyrirvörum og innleiða viðkomandi gerðir án frekari tafa. Í öðrum tilvikum þykir mikilvægt að styrkja og bæta lagastoð fyrir setningu reglugerða á tilteknum sviðum.

Frumvarpið er samið í samgönguráðuneytinu og var sent út til umsagnar flugráðs og hagsmunaaðila auk þess sem einstök ákvæði voru unnin í samráði við ráðuneyti dómsmála, fjármála, viðskipta og heilbrigðismála.

Með frumvarpi þessu eru gerðar tillögur til breytinga á nokkrum ákvæðum laganna. Um er að ræða breytingar af margvíslegum toga.

Umfangsmestu breytingar frumvarpsins lúta að flugvernd og gjaldtöku vegna hennar. Kveðið er á um skýrari lagastoð til setningar reglugerða á sviði flugverndar. Þá er lagt til að sá skattur, sem gildandi lög ákveða vegna flugverndar verði afnuminn og í staðinn verði rekstraraðila flugvallar veitt heimild til gjaldtöku. Jafnframt eru í frumvarpinu nýmæli er kveða á um gagnsæi gjalda. Lagt er til að komið verði á notendanefnd sem verði vettvangur skoðanaskipta hagsmunaaðila varðandi þjónustu og aðstöðu á flugvelli, þar með talið um gjaldtöku.

Aðrar breytingar lúta m.a. að því að bæta og styrkja lagastoð fyrir setningu reglugerða og innleiðingu gerða á nokkrum sviðum vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og ég hef þegar sagt.

Virðulegur forseti. Ég vík nú að afhugasemdum við helstu greinar frumvarpsins.

Í 1. gr. frumvarpsins er lagt er til að Flugmálastjórn Íslands verði heimilt að fela viðurkenndum aðilum skrásetningu og eftirlit með starfrækslu og lofthæfi loftfara af tiltekinni tegund eða flokki. Er þar leitast við að styrkja og bæta heimildir núgildandi laga. Um nokkurt skeið hefur Flugmálastjórn Íslands falið viðurkenndu fisfélagi skráningu og eftirlit slíkra þátta og hefur það fyrirkomulag gefist vel en í ljósi athugasemda, m.a. frá umboðsmanni Alþingis, þykir nauðsynlegt að kveða skýrar á um þessa heimild. Í a-lið 2 gr. er nánari útfærsla á beitingu heimildar skv. 1. gr. frumvarpsins auk þess sem kveðið er á um heimild ráðherra til að setja reglugerð um framkvæmdina.

Í b-lið 2. gr. er lagt til að sett verði almennt ákvæði um vottun eða viðurkenningu aðila sem fara með verklega eða bóklega kennslu, þjálfun eða prófun á sviði loftferða. Slíkt ákvæði er ekki að finna í gildandi lögum. Nauðsynlegt er að tryggja frekari lagastoð fyrir innleiðingu fjölmargra EES-gerða sem væntanlegar eru á sviðinu.

Í c-lið 2. gr. er fjallað um fluglækna og fluglæknasetur en ákvæði í reglugerð um heilbrigði flugliða og flugumferðarstjóra hafa verið í gildi hér á landi um langt skeið. Loftferðalögin hafa hingað til ekki kveðið á um starfsemi fluglæknasetra. Nauðsynlegt er að styrkja frekari lagastoð til innleiðingar á EES-gerðum þar að lútandi sem eru væntanlegar.

Í e- og f-lið 2. gr. er að finna heimildir til setningar reglugerða vegna starfrækslu almannaflugs og verkflugs sem skort hefur á slíkar heimildir.

Í 3. gr. er bætt við efnisheimildum vegna setningar reglugerða um vakt- og vinnutíma og skráningar hans.

Í 4. gr. er kveðið á um víðtækari aðgang að upplýsingum úr gagnagrunni um tilkynnt flug- og flugumferðaratvik. Opnað er fyrir aðgang aðila að upplýsingum úr gagnagrunni um tilkynnt atvik þannig að hagsmunaaðilar sem eru í þeirri stöðu að geta unnið að bættu flugöryggi hafi þar aðgang. Rík áhersla er lögð á að hagsmunaaðilar noti þær upplýsingar sem þeim berast á grundvelli þessarar heimildar sem trúnaðargögn og að upplýsingarnar verði eingöngu notaðar í mjög afmörkuðum tilgangi.

Í 6. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á skilgreiningu hugtaka vegna flugleiðsöguþjónustu til samræmis við þá hugtakanotkun sem tíðkast í EES-gerðum. Ráðherra er í frumvarpinu veitt heimild til að setja reglugerð um framkvæmd, starfrækslu og eftirlit með flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnun flugumferðar. Fyrirsjáanlegt er að á næsta ári muni verkefni þessu tengd flytjast til Flugöryggisstofnunar Evrópu og gerðum Evrópubandalagsins á þessu sviði fjölga verulega. Nauðsynlegt er að skýr lagaheimild sé til staðar til innleiðingar þeirra.

Í 7 gr. frumvarpsins eru nýmæli er lúta að flugafgreiðslu þar sem áréttað er að rekstraraðili flugvallar geti afmarkað fjölda þeirra aðila, sem mega veita flugafgreiðslu á viðkomandi flugvelli. Skilyrði þessa eru þau að flugvöllurinn sé opinn fyrir flugumferð í atvinnuskyni og undir viðmiðunarmörkum hvað varðar fjölda farþega og magn farms. Þá er lagt til að ráðherra geti í reglugerð kveðið á um eftirlit með þeim sem sinna flugafgreiðslu. Rekstraraðila flugvallar er veitt heimild til að afhenda þriðja aðila stjórn sérstakra mannvirkja til flugafgreiðslu.

Í 9. gr. frumvarpsins eru ítarleg ákvæði er varða flugvernd, eins og áður hefur komið fram.

Frá því að núgildandi 70. gr. laga um loftferðir var sett, í kjölfar atburðanna 11. september 2001 í Bandaríkjunum, hefur umhverfi flugverndarmála í heiminum tekið nokkrum breytingum. Fyrir dyrum stendur nú innleiðing nýrra reglugerða Evrópubandalagsins á sviði flugverndar. Hluti þessarar innleiðingar lýtur að ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar sem hefur að geyma viðkvæmt efni og lýsingu á verklagi sem flokkað er sem leynilegt og verður einungis birt takmörkuðum hópi.

Er af því tilefni lagt til að lögfest verði sérstök heimild ráðherra til að birta aðeins að hluta eða öllu leyti efni verklagsreglna þeim einstaklingum sem starfs síns vegna þurfa að hafa vitneskju um efni hennar. Áskilið er að efnið varði beina flugverndarhagsmuni og öryggi og leynd leiði af þjóðréttarlegum skuldbindingum á sviði flugverndar. Um er að ræða leynilegar reglur um verklag sem fjölmargir aðilar sem hafa með starfsemi á flugvöllum að gera. Aðgerðir þessar og verklag sæta eftirliti Flugmálastjórnar Íslands.

Ljóst er að séu verklagsreglurnar birtar og aðgengilegar almenningi, þar á meðal þeim sem hyggja á ólögmætar aðgerðir gegn flugstarfsemi, eru minni líkur á að reglurnar nái markmiði sínu. Aðeins kröfur er lúta að verklagi og starfrækslu flugverndar verða háðar leynd.

Í 11. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um heimild til niðurfellingar skattheimtu sem er að finna í 71. gr. loftferðalaganna en í staðinn kemur almenn heimild rekstraraðila til gjaldtöku. Með breytingunni er formi gjaldtökunnar breytt frá skattheimtu yfir í kostnaðartengda gjaldheimtu. Breytingin er m.a. liður í heildarendurskoðun skattheimtu á Keflavíkurflugvelli í kjölfar stofnunar Keflavíkurflugvallar ohf. Nauðsynlegt þykir að breyta formi gjaldtökunnar nú m.a. í ljósi hins breytta rekstrarforms. Breyting sú sem hér er lögð til mun væntanlega leiða til lækkunar gjalda á flugfarþega í millilandaflugi en um leið er gert ráð fyrir heimild fyrir nýrri gjaldtöku vegna farms, pósts og aðfanga.

Í 12. gr. frumvarpsins er nýmæli þar sem rekstraraðila flugvallar eða flugvallarkerfis yfir ákveðinni stærð er skylt að setja á stofn svokallaða notendanefnd. Með því er komið á vettvangi fyrir skoðanaskipti milli rekstraraðila og notenda flugvallar, um málefni sem varða rekstur flugvallarins. Það er m.a. gert sem liður í að auka gagnsæi í rekstri og gjaldtöku á flugvöllum sem eru oft í einokunaraðstöðu gagnvart notendum. Með þessu er aðkoma notenda að rekstri flugvalla aukin og þeim veitt tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en ákvarðanir er varða mikilvæga hagsmuni þeirra eru teknar.

Virðulegi forseti. Þá er í 13. gr. frumvarpsins að finna nýmæli um gagnsæi gjaldtöku á flugvöllum. Lögð er sú skylda á rekstraraðila flugvallar að leggja fram sundurliðun kostnaðar sem lagður er til grundvallar gjaldtöku, eigi sjaldnar en árlega. Þá er kveðið á um skyldu þeirra sem nýta aðstöðu flugvalla til að upplýsa rekstraraðila flugvallar um áætlanir sínar varðandi ýmsa þætti sem áhrif geta haft á rekstur flugvallar, þar með talið umfang þjónustu, aðstöðu og uppbyggingu innviða á flugvelli.

Í 14. gr. er lögð til breyting á skilyrðum fyrir vopnaða verði um borð í íslenskum loftförum í almenningsflugi. Lagt er til að áskilnaður núgildandi laga um að beiðni hafi borist frá flugrekanda að kröfu erlends ríkis verði felldur niður. Þessi krafa er talin of takmarkandi í ljósi breytinga á EES-gerðum þar sem það bindur hendur ríkisvaldsins til sjálfstæðrar ákvörðunartöku. Í ákvæðinu er miðað við að skapist slíkt ástand sem byggist á mjög brýnum ástæðum þar sem til athugunar er hvort setja eigi vopnaða verði um borð í íslenskt loftfar verði samgönguráðherra að ráðfæra sig við dómsmála- og utanríkisráðherra áður en ákvörðun er tekin. Ljóst er af framangreindu að ætlast er til þess að heimildinni verði beitt í algerum undantekningartilvikum. Þá er í 16. gr. frumvarpsins kveðið á heimild ríkisstjórnar Íslands til samningagerðar og hún útvíkkuð frekar til samninga á sviði flugverndar.

Þá er að lokum í 17. gr. frumvarpsins lagt til að lagastoð fyrir starfrækslu tölvuskráningarkerfa verði styrkt og að kveðið verði á um skýra heimild til setningar reglugerðar um starfrækslu slíkra kerfa. Tryggja þarf að slík kerfi hindri ekki eðlilega samkeppni, tryggja bann við misnotkun eða mismunun og vernda hagsmuni neytenda.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar.