Veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald

Föstudaginn 13. nóvember 2009, kl. 14:15:58 (0)


138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

21. mál
[14:15]
Horfa

Anna Pála Sverrisdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil lýsa yfir eindregnum stuðningi við þetta góða mál og þakka hv. flutningsmanni Siv Friðleifsdóttur, sem og öllum meðflutningsmönnum og vissulega, eins og fram hefur komið, Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir hennar góða starf í þessum málaflokki öllum sem snertir kvenfrelsi. Það er ánægjulegt að sjá þverpólitíska samstöðu, hæstv. forseti, í þessu máli og ég sé ekki ástæðu til annars en með orðalagi flutningsmanns að hægt sé að skvera þessu í gegn sem allra fyrst. Hér hefur hugtakið „pólitískur vilji“ borið á góma og það er einmitt það sem mér finnst þetta snúast um í grundvallaratriðum. Pólitískur vilji, viljum við nógu mikið vernda konur gegn kynbundinni kúgun? Eins og hv. þm. Atli Gíslason kom svo ágætlega inn á þá eru órjúfanleg tengsl á milli nektardansstaða og vændis, mansals og klámvæðingar. Allt helst þetta í hendur við að halda konum niðri á öllum sviðum þjóðfélagsins.

Aðgerðaáætlun gegn mansali lyfti vissulega og mun, ætti ég kannski heldur að segja, lyfta grettistaki í þessum málum. Það er líka mikilvægt að henni verði fylgt eftir, kné látið fylgja kviði og þetta er einn af þeim þáttum sem getur stuðlað að því að það verði gert. Ég legg hins vegar áherslu á að við sýnum heildræna nálgun, setjum ekki bara fín orð á blað heldur fylgjum málum eftir og sjáum t.d. til þess fram að því að þetta góða frumvarp verður samþykkt, sem vonandi verður, að vel sé fylgst með starfsemi nektardansstaða.

Ég held að ég hafi ekki fleiri orð um þetta mál enda hefur nú þegar verið gerð afar góð grein fyrir því. Ég ítreka að mér finnst frábært að hér skuli ríkja, að því er virðist, breið þverpólitísk samstaða um þetta mál sem samt hefur verið að veltast um í kerfinu mjög lengi og óþarflega lengi. Ég vil að Ísland taki forustu og sýni forustu í kvenfrelsismálum á heimsvísu enn þá lengra, m.a. með því að setja á þetta löngu tímabæra bann. Ég fagna þessu frumvarpi og vonast til þess að geta greitt um það atkvæði fyrir jól, meðan ég sit enn á þingi.