Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 20:50:30 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:50]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Eins og hv. þingmaður gat um er tími til svara stuttur, ég hef bara eina mínútu og get því líklega ekki nefnt nema eitt atriði en mun nefna fleiri í framhaldinu.

Atriði sem er ákaflega mikilvægt í þessu og hefur verið vanrækt er að kynna málstað Íslendinga. Þetta hef ég og fleiri íslenskir þingmenn orðið varir við í hvert sinn sem við förum til útlanda, að ráðherrar þar og þingmenn og fjölmiðlamenn þekkja ekki grundvallaratriði þessa máls. Í rauninni er gríðarlegur misskilningur ríkjandi á því um hvað þetta mál snýst. Til að mynda eru margir sem telja að Landsbanki Íslands hafi verið ríkisbanki með ríkistryggingu. Jafnframt er mjög algengur misskilningur að Íslendingar neiti að borga nokkurn skapaðan hlut, að íslenski innstæðutryggingarsjóðurinn vilji ekki greiða neitt. Tvö stór grundvallaratriði sem virðast ekki hafa verið útskýrð. En hins vegar fá menn tækifæri til að útskýra mál sitt, því það eru allir tilbúnir til að hlusta, bæði stjórnmálamenn og erlendir (Forseti hringir.) fjölmiðlamenn.