138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[01:03]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að skilgreina vilja ríkisstjórnarinnar nema á einn hátt. Hv. þm. Pétur Blöndal sagðist telja að hún vildi ekki það sem hún legði fram. Af hverju leggur hún það þá fram? En ég er sammála hv. þingmanni, að það er óskiljanlegt að hún skuli leggja þetta fram með þessum hætti. Ég kallaði það blint og galið, það er eitthvað í því sem er mjög truflað. Mín skýring er í stuttu máli sú að það sé truflað af því að hluti stjórnarsinna sér ekkert nema að ganga í Evrópusambandið, inn í kærleik Evrópusambandsins sem við eigum enga samleið með, ekki nokkra, sem sjálfstæð þjóð. En það er rétt, held ég, hjá hv. þingmanni að álagið er gríðarlegt á þann stóra hóp á hv. Alþingi sem er nýliðar í þinginu. Ég þekki það af gamalli reynslu að það tekur 3–4 ár að læra leikreglur Alþingis og hluti sem skiptir máli að vinna með hér. Það lærist ekki einu sinni á þeim tíma. Þess vegna er álagið gríðarlega mikið á þá sem koma nýir til starfa og hætta er á að þeir taki við boðum án þess að fá tækifæri til að melta þau og skilgreina sjálfstætt og af eigin brjóstviti og sannfæringu.

Ráðgjafar ríkisstjórnarinnar hafa í flestum tilvikum haft Evrópuvængi og túlkað niðurstöðu sína þannig en nánast eru ónýttir allir möguleikar sem Íslendingar hafa til að beita afli sínu og áhrifum, hvort sem er í NATO, öryggisráðinu, Evrópusambandinu eða hjá Norðurlandaþjóðunum.