138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[02:17]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt, það er athyglisvert að Vinstri grænir og Samfylkingin skuli hafa talað í um 119 klukkustundir þegar breytingar á lögum um Ríkisútvarpið fóru í gegnum Alþingi. Á þeim tíma lögðust þeir flokkar alfarið gegn því að Ríkisútvarpinu yrði breytt í opinbert hlutafélag og maður veltir fyrir sér af hverju ekki hafi komið fram frumvarp þess efnis að breyta Ríkisútvarpinu aftur í ríkisstofnun. (Gripið fram í.) Maður veltir fyrir sér hvort það hafi verið raunverulegur áhugi fyrir því að breyta þeim lögum til baka vegna þess að ég hef ekki heyrt á þetta minnst núna þótt þessir tveir flokkar séu komnir í ríkisstjórn. Ef þingmenn ætla sér að fara í þær breytingar, sem mér heyrist koma úr salnum af hálfu hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar ættu þeir einfaldlega að koma hingað og segja að þeir ætli að ráðast í þær breytingar.

Það er alveg rétt að við eyddum löngum tíma í fjárlaganefnd í að fara yfir Icesave-málið. Ég held að ég verði að hrósa formanni fjárlaganefndar sérstaklega fyrir störf hans í sumar vegna þess að hann reyndi, eftir því sem mér fannst, af bestu getu að upplýsa málið en þó ekki þannig að ég teldi ásættanlegt.

Ég tel til að mynda að enn þá skorti okkur upplýsingar um hvaða eignir eru í þrotabúi Landsbankans. Svo ótrúlegt sem það er (Forseti hringir.) stangast lög einmitt á um það hvernig fara skuli með það mál. Ég skal fara yfir það í seinna andsvarinu.