Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 29. desember 2009, kl. 17:35:19 (0)


138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:35]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það var margt athyglisvert sem hér var sagt. Í fyrsta lagi sú skoðun hv. þingmanns að það sé enn um að ræða að tenging sé á milli AGS og Norðurlandanna á afgreiðslu mála okkar Íslendinga. Gott og vel, ef svo er, hvernig stendur þá á því að hæstv. forsætisráðherra Íslands hefur t.d. ekki haft burði í sér til að senda forsætisráðherrum Norðurlandanna bréf og kalla eftir skýringu á því hvort það sé virkilega svo að slík tenging eigi sér stað, því að það væri blettur á samskiptum Norðurlandaþjóðanna sem yrði seint afmáður.

Hvað varðar síðan það að breikka þurfi skattstofnana og hressa þá við verð ég að segja eins og er að mér fannst þetta hálf — eða í það minnsta áhugavert að heyra þessa skoðun hjá hv. þingmanni sem tók þátt í því að samþykkja gríðarlegar skattahækkanir á síðustu dögum sem allar miða að því að draga úr möguleikum hagkerfisins til að efla og stækka skattstofnana. Það að skuldsetja íslenska þjóð upp í rjáfur með þessum samningi sem við eigum að gangast í ábyrgð fyrir, sem við höfum þó sagt að við eigum ekki að gera en ætlum að gera vegna þess að verið er að hóta okkur, sem við ætlum að gera vegna hótana, það mun auðvitað ekki styrkja íslenskan efnahag, það er svo augljóst, við erum skuldug fyrir.

Það er alveg rétt, þetta er mat. En það er líka sá þáttur málsins sem snýr að því hvort við Íslendingar og við þingmenn höfum leyfi til þess að beygja okkur undir slíka kúgun. Það væri annað, herra forseti, ef ríkisstjórnin hefði komið fram með þetta mál og sagt: Það er mat okkar að við eigum að borga þetta á grundvelli alþjóðlegra skuldbindinga og alþjóðlegra laga. Þá værum við í allt annarri umræðu. En það er ekki svo. Hér er lagt fram frumvarp sem byggir á því að við eigum ekki að borga þessar greiðslur. Samt ætlum við að gangast undir þær vegna þess að við erum beitt ofbeldi. Það sem hefði átt að vera verkefni hæstv. forsætisráðherra, hæstv. utanríkisráðherra og annarra var að ganga þá í það af alvörukrafti að kalla fram hvernig í ósköpunum standi á því að t.d. Norðurlöndin ætla að beita (Forseti hringir.) okkur slíkum þvingunum.