Hlutafélög

Miðvikudaginn 26. janúar 2011, kl. 15:56:11 (0)


139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

hlutafélög.

176. mál
[15:56]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir ræðu hans og yfirferð á frumvarpinu og líka þá elju og það frumkvæði að leggja þetta mál fram. Ég get hins vegar ekki orða bundist yfir því að ekki skuli vera fleiri hér til að hlusta á það sem hv. þingmaður hafði fram að færa því að mér fannst hann færa mjög góð efnisleg rök fyrir máli sínu.

Hv. þingmaður fullyrti reyndar í ræðu sinni að akkúrat sú veila í hlutafélagaforminu sem hann var að ræða og frumvarpið gengur út á að breyta sé ein meginástæða hrunsins. Það kom líka fram í máli hv. þingmanns þegar hann útskýrði frumvarpið sem hann mælir fyrir, sem er svo sem ekki gott að gera með orðum, alla vega ekki hluta af því — ég hef séð glærukynningu hjá hv. þingmanni þar sem hann rekur það hvernig menn stofna svona félög, kannski sex, átta félög, og færa peninga þar á milli í hring en þar kom það mikið skilmerkilegra fram.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að hann kom inn á að hann væri þrisvar sinnum búinn að leggja þetta mál fram áður, annars vegar sem breyting á lögum, einu sinni, og síðan tvisvar sem þingsályktunartillögu: Hvernig stendur á því að þetta hefur ekki verið samþykkt á þinginu? Hvað gerir það að verkum? Hvaða annmarka hefur þingið hingað til séð á því að samþykkja þessar breytingar sem mér fannst hv. þingmaður fara mjög vel yfir og voru mjög skiljanlegar? Hvaða annmarkar eru á málinu? Voru bara allir meðvirkir og fannst þetta í raun og veru allt í lagi? Vaknaði hugsanlega enginn fyrr en menn horfðust í augu við að hér varð hrun og uppgötvuðu þeir þá að kannski hefði verið betra að hlusta á hv. þingmann fyrr?