Evrópusambandið og stöðvun hvalveiða

Mánudaginn 31. janúar 2011, kl. 17:40:02 (0)


139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

Evrópusambandið og stöðvun hvalveiða.

399. mál
[17:40]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég hygg að forseta þyki þessi umræða fróðleg þar sem hún kemur frá Akranesi, sem hefur einmitt eina stærstu hvalstöð í nágrenni sínu.

Ég virði ólík sjónarmið um hvort við skulum veiða hval eða ekki. Ég geri mér grein fyrir því að fyrir mörgum er það tilfinningamál, sem ég virði líka. Ég bendi á að við störfum annars vegar samkvæmt samþykkt Alþingis varðandi þær veiðar sem ráðlagðar eru, hins vegar samkvæmt vísindalegri ráðgjöf sem ekki er dregin í efa. Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um hvað taka megi mikið af dýrum hefur því aldrei verið gagnrýnd þannig að um sjálfbærar veiðar sé að ræða og veiðarnar sem verið hafa eru miklu minni en það. Auk þess eru veiðarnar samkvæmt alþjóðalögum.

Það er svo ákvörðun okkar hvort við veiðum hval eða ekki. En rétturinn til að veiða og nýta með sjálfbærum hætti auðlindirnar okkar og versla með þær eru ein af grundvallarréttindum sem við viljum verja.

Við erum aðilar að kæru Grænlendinga og Kanadamanna, Norðmanna og Færeyinga gegnum Alþjóðaviðskiptastofnunina á hendur Evrópusambandinu þar sem það hefur bannað verslun með selskinn frá Grænlandi. Selur er einn af auðlindum Grænlands og er vaxandi stofn. Selskinn hefur um aldir verið ein af aðalverslunarvörum Grænlands. Evrópusambandið getur ekki farið að banna upp á sitt einsdæmi (Forseti hringir.) viðskipti með þessa vöru. Það er gert á sjálfbæran hátt og um það viljum við standa vörð, frú forseti.