Skipun stjórnlagaráðs

Fimmtudaginn 03. mars 2011, kl. 16:48:35 (0)


139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:48]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég er alls ekki að gera lítið úr Hæstarétti sem slíkum. Það sem ég reyndi að benda á, eins og þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa einnig verið mjög duglegir við að gera, er að það er hlutverk Alþingis að breyta stjórnarskránni. Alþingi getur ákveðið að gera það á ýmsa vegu og var búið að ákveða að gera það með því að halda stjórnlagaþing. Nú er Alþingi að reyna að ákveða að skipa í stjórnlagaráð. Hverjir eru betur til þess fallnir að sitja í því ráði en þeir 25 sem buðu sig fram til stjórnlagaþings og 80 þúsund kjósendur mátu hæfasta til þess? Ég sé ekki að í því sé nein vanvirðing við Hæstarétt og stjórnvaldsákvörðun hans, en við verðum að læra af þessu. Ég hef fulla trú á því að framkvæmdarvaldið geri það, að næst þegar við höldum kosningar gerum við það almennilega, höfum há skilrúm og helst lokaða klefa og kosningakassa úr þykkum viði, jafnvel skothelda.