Skipun stjórnlagaráðs

Miðvikudaginn 23. mars 2011, kl. 17:29:52 (0)


139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:29]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða mál sem þarf ekki kynningar við og hefur eðli málsins samkvæmt vakið mikla athygli. Ástæðan fyrir því að við ræðum þetta er sú að slíkur var flumbrugangurinn við gerð frumvarpsins um kosningar á stjórnlagaþing að þegar kom að framkvæmdinni, hvort sem lagasetningunni var um að kenna eða framkvæmdarvaldinu, endaði það með því að við erum eina þjóðin sem ég veit um af þeim þjóðum sem við berum okkur saman við þar sem æðsti dómstóll landsins hefur neyðst til að dæma kosningar ógildar. Það er auðvitað miklu alvarlegra en menn hafa kannski gert sér grein fyrir. Við, íslensk þjóð, höfum státað okkur af langri lýðræðishefð af ástæðu, það eru málefnaleg rök fyrir því að við höfum stundum stært okkur af einhverju sem ekki hefur verið innstæða fyrir en við höfum frá landnámi iðkað lýðræði með einum eða öðrum hætti og eftir því hefur verið tekið út um allan heim og almennt viðurkennt að við eins og aðrar norrænar þjóðir stöndum framarlega þegar kemur að lýðræði og lýðræðislegum vinnubrögðum.

Niðurstaðan er einfaldlega sú að Hæstiréttur dæmdi kosningarnar ógildar. Ég ætla að lesa örstutta grein Sigurðar Líndals, prófessors í lögum, með leyfi forseta, hún er stutt og beitt og birtist í Fréttablaðinu 17. mars síðastliðinn. Hér segir:

„Samkvæmt lögum um stjórnlagaþing skal Hæstiréttur skera úr um gildi kosninga fulltrúa á þingið. Þetta gerði Hæstiréttur með ákvörðun 25. janúar 2011 og lýsti kosningu til stjórnlagaþings 27. nóvember 2010 ógilda.

Ákvörðun Hæstaréttur verður ekki hnekkt og með lagasetningu sinni fól Alþingi æðsta handhafa dómsvaldsins endanlegt úrskurðarvald. Ákvörðun Hæstaréttar er því í reynd hæstaréttardómur eða a.m.k. ígildi slíks dóms.

Nú liggur fyrir þingsályktun um að skipa 25 manna stjórnlagaráð og binda skipun þeirra og varamanna við þá sem hlutu kosningu til stjórnlagaþings eða með öðrum orðum binda kjörið við hóp manna sem hlutu ógilda kosningu og eru því umboðslausir.

Með þessu er Alþingi í reynd að fella ákvörðun Hæstaréttar úr gildi og ganga inn á svið dómsvaldsins. Jafnframt virðir Alþingi ekki þrískiptingu ríkisvaldsins og brýtur þannig gegn stjórnarskránni eða að minnsta kosti sniðgengur hana. Um leið ómerkir þingið eigin ákvörðun um að fela Hæstarétti endanlegt ákvörðunarvald.

Ekki bætir úr þótt einhverjar málamyndabreytingar séu gerðar á hlutverki stjórnlagaráðs frá því sem ákveðið var um stjórnlagaþing.

Það má svo sem segja að þetta sé í samræmi við það sem nú tíðkast í umgengni við lög og reglur, jafnt í stjórnmálum sem atvinnulífi. En gott væri að þeir sem hyggjast taka sæti í stjórnlagaráði hugleiddu stöðu sína og þá jafnframt hvort þetta sé gæfuleg byrjun á því að setja nýja stjórnarskrá.“

Virðulegi forseti. Þetta er stutt grein en hún er mjög beitt. Hér vekur prófessor í lögum athygli Alþingis, hv. alþingismanna, á því að farið sé á skjön við stjórnarskrána. Í rauninni fer Alþingi inn á svið dómsvaldsins og virðir ekki þrískiptingu ríkisvaldsins. Greinin var skrifuð 17. mars og segir þar á einum stað, með leyfi forseta:

„Það má svo sem segja að þetta sé í samræmi við það sem nú tíðkast í umgengni við lög og reglur, jafnt í stjórnmálum sem atvinnulífi.“

Þá vissi greinarhöfundur ekki hvernig hæstv. forsætisráðherra mundi bregðast við bindandi úrskurði kærunefndar jafnréttismála en við ræddum það í dag. Það er kannski í anda þess sem hann segir um hvernig nú sé farið á skjön við lög í þessu landi. Nú kynni það kannski vera þannig að prófessorinn væri einn um þessi sjónarmið en ég fór yfir það í fyrri ræðu minni að Róbert Spanó, Ragnhildur Helgadóttir og fleiri sérfræðingar í lögum sem hafa tjáð sig um þetta, hafa talað með svipuðum hætti og Sigurður Líndal. Ekki er hægt að halda því fram að hér sé um óskýr skilaboð að ræða, alls ekki. Maður spyr sig þá af hverju meiri hlutinn eða hæstv. ríkisstjórn ætli að fara þá leið sem nú liggur fyrir að verður farin, sama hvaða rök eru lögð á borðið.

Það er þess virði að velta því fyrir sér hvort við séum komin á þann stað að hlutir eins og í þessu tilfelli stjórnarskráin, þrískipting ríkisvaldsins og það sem við á ljótri íslensku getum kallað prinsipp í lýðræðisþjóðfélagi okkar, séu aukaatriði hjá ríkisstjórninni. Það er nefnilega erfitt að finna aðila sem mæla með leið ríkisstjórnarinnar. Þó er hægt að finna þá, virðulegi forseti, og ég held að það sé þess virði að fara aðeins yfir röksemdafærslu þeirra. Það þarf kannski ekki að koma neinum á óvart að tveir aðilar sem hafa tjáð sig um þetta á opinberum vettvangi og hafa góðan aðgang að fjölmiðlum eru dr. Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðingur og Stefán Ólafsson, það er væntanlega af fullkominni tilviljun. Aðdragandinn er sá að Hæstiréttur kveður upp úrskurð sinn þann 25. janúar. Sama dag kemur hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir í þingið og kemur fram með þessa hugmynd og segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Hugsanlega mætti líka veita Alþingi heimild með lögum til að kjósa 25 fulltrúa á stjórnlagaþingið, mögulega þá sömu og þjóðin hefur þegar kosið, meti Alþingi lýðræðislegt umboð þeirra fullnægjandi.“

Þarna er hún að tala um þá leið sem Sigurður Líndal mælir gegn.

Daginn eftir er Gunnar Helgi Kristinsson mjög áberandi í fréttum Ríkisútvarpsins. Hann kveður líka upp sinn dóm og svo ég lesi fréttina, með leyfi forseta, hún er ekki löng, þá segir í henni:

„Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðingur leggur til að Alþingi setji lög og skipi stjórnlagaþingmennina í sérstaka stjórnarskrárnefnd, til að koma með tillögu að nýrri stjórnarskrá.

Gunnar Helgi segir ákvörðun Hæstaréttar ekki beinast gegn lögunum um stjórnlagaþingið, heldur að framkvæmd kosninganna. Landskjörstjórn beri ábyrgð á henni. Hún hljóti að hugleiða stöðu sína eftir þessi málalok.

Gunnar telur það verstu lausnina á málinu, að hætt verði við stjórnlagaþingið.“

Hér leggur Gunnar Helgi í rauninni upp fyrir ríkisstjórnina, enda trúnaðarmaður hennar og sérstaklega forsætisráðherra, hvernig eigi að fara í þetta mál og bjarga andliti ríkisstjórnarinnar. Enda fór það svo að landskjörstjórn tók ábyrgð á málinu þó svo það hafi verið mjög umdeilt og umdeilanlegt. Áfram heldur Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðingur, hér er bein tilvitnun, með leyfi forseta:

„Það er svolítið flókið að kjósa aftur vegna þess að ef þú kýst aftur geturðu náttúrlega lent í því að kosningaþátttakan fari enn þá neðar, niður í hver veit hvað, kannski 20%, 15%. Þú gætir fengið einhver allt önnur úrslit með enn þá færri atkvæðum á bak við sig og það er að mörgu leyti flókin óæskileg staða, held ég. Þannig að sennilega er skásta leiðin í þessari stöðu sú að Alþingi setji lög um stjórnlagaþing þar sem það skipar þá sem kosnir voru í kosningunni í einhvers konar nefnd sem má alveg kalla stjórnlagaþing sem hefur eins og stjórnlagaþingið ráðgefandi hlutverk gagnvart Alþingi því það verður að hafa í huga að stjórnlagaþingið hafði ekkert formlegt vald.“

Virðulegi forseti. Hér eru rökin komin. Það væri frekar flókið að kjósa aftur. Kosningaþátttakan gæti orðið enn verri en hún var. Nú kynni einhver að spyrja: Af hverju? Menn hafa gengið út frá því að þetta væri svo mikilvægt mál, krafa almennings um að fá að kjósa á stjórnlagaþing væri svo mikil, að maður mundi ætla að forustumenn ríkisstjórnarinnar þyrftu ekki að hafa áhyggjur af lítilli kosningaþátttöku. En hér lýsir stjórnmálafræðingurinn því að það sé svolítið flókið að kjósa aftur, svo ég noti hans orð, vegna þess að kosningaþátttakan gæti jafnvel farið niður í 15%. Þess vegna sé skást að redda hlutunum með því að setja einhverja nefnd sem hvort eð er hefur ekkert formlegt vald. Í kjölfarið kemur Stefán Ólafsson, sem er sömuleiðis trúnaðarmaður ríkisstjórnarinnar og hefur oftsinnis komið fram sem álitsgjafi í fjölmiðlum, og segir að leið Gunnars Helga Kristinssonar sé málið og menn eigi bara að ganga í það.

Virðulegi forseti. Þetta minnir mjög á þegar menn deildu í Grikklandi hinu forna og tókust á um hvort innihaldið skipti einhverju máli eða hvort málið snerist fyrst og fremst um umbúðirnar. Það sem við gerum núna og gerir þetta vonda mál enn verra, er að redda hlutum fyrir horn. Kosningar voru haldnar, þær voru ógildar, og við sitjum uppi með þá niðurlægingu að æðsti dómstóll þjóðarinnar neyddist til, niðurstaða allra dómaranna var samhljóða, að ógilda kosningarnar. Það er auðvitað mikil skömm fyrir íslenska þjóð. Í stað þess að kjósa aftur og standa rétt að því, ef menn telja að ekki sé þörf á þessu og það sé vilji þingmeirihlutans, fara menn í svona reddingar og setja af stað einhvern spuna.

Það er sérstakt vandamál og fullkomlega vanmetið hvernig fjölmiðlar höndla hina svokölluðu álitsgjafa. Ég fullyrði að hvergi annars staðar í heiminum er það gert með þessum hætti, að draga reglulega upp einhverja aðila sem eru í trúnaðarembættum fyrir viðkomandi ríkisstjórn og viðkomandi stjórnmálaforustu og þeir beðnir að segja álit sitt á þeim sem þeir standa í trúnaði við. Nú held ég því ekki fram að þessir aðilar, þeir ágætu menn sem ég nefndi eða einhverjir aðrir, eigi ekki rétt á að tjá sig og ekki sé hægt að hlusta á sjónarmið þeirra. Ég segi hins vegar að það er afskaplega óskynsamlegt ef menn vilja fá málefnalega og góða umræðu og gefur ranga mynd ef málin eru lögð þannig upp að hér sé um hlutlausa aðila að ræða. Þeir eru það að sjálfsögðu ekki. Menn eiga að fá báðar hliðar á málunum og fjölmiðlamenn ættu að hafa metnað í að koma fram með fleiri en eina hlið. Það er gert í öðrum löndum og ég hvet menn til að fara á internetið og skoða hina ýmsu þætti í erlendum fjölmiðlum. Þar er almenna reglan sú að menn draga fram, sérstaklega í pólitík, báðar hliðar, í það minnsta tvær hliðar, með og móti.

Virðulegi forseti. Það er enginn bragur á þessu máli. Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki á því hvaða markmiðum er verið að reyna að ná. Ef menn töldu skynsamlegra að breyta stjórnarskránni með því að fara aðra leið en kveðið er á um í gildandi stjórnarskrá, þar sem Alþingi Íslendinga á að koma með tillögur um breytingar á stjórnarskrá og þjóðin á síðan að greiða atkvæði um þær, og æskilegra og lýðræðislegra væri að fá almenning til að kjósa slíka aðila, verða menn auðvitað að gera það með lögmætum hætti. Ef það mistekst verða menn að reyna aftur. Ef menn komast að þeirri niðurstöðu, eins og helsti hugmyndafræðingur ríkisstjórnarinnar, að enginn áhugi sé á að taka þátt í slíkum kosningum, er kominn tími til að hugsa málið upp á nýtt því þá er það fallið um sjálft sig.

Við skulum ekki gleyma því að þeir aðilar sem lögðu af stað í þessa vegferð og trúðu því, ég ætla það — menn geta haft ólíkar skoðanir á því af hverju það var og af hverju það gekk ekki eftir — ég vil trúa því að þeir hafi haldið að það væri virkilegur vilji þjóðarinnar til að taka þátt í kosningum sem þessum. Svo var augljóslega ekki. Þetta er minnsta kosningaþátttaka sem við höfum séð í landskosningum á Íslandi. Hægt er að halda langar og margar ræður um hvernig menn gerðu öll þau mistök sem hægt var að gera, kannski ekki öll en flest, við framkvæmd kosninganna. Og það má kannski segja að kosturinn við þetta hafi verið sá að menn sáu hvernig hlutir eins og Ísland eitt kjördæmi er raunverulega í framkvæmd og sömuleiðis sáum við svo sannarlega galla persónukosninga, í það minnsta þegar þær eru framkvæmdar eins og gert var í þessu tilfelli. Alveg sama hvernig litið er á þetta, þetta mistókst. Í staðinn fyrir að horfast í augu við það og taka ákvörðun út frá því reyna menn að bjarga málinu fyrir horn og gera það þar af leiðandi miklu verra.

Í hvaða stöðu verða þeir sem voru kosnir — eða voru í rauninni ekki kosnir heldur fengu hugsanlega flest atkvæði, við vitum það ekki — í ólöglegri kosningu, þegar Alþingi skipar þá í stjórnlagaráð? Telja menn að sú staða sé trúverðug? Lagt var af stað með að láta þjóðina kjósa með beinum hætti fólk sem átti að koma með tillögur um breytingar á stjórnarskránni. Nú eru menn hættir við það, það liggur fyrir. Ástæðan fyrir því er að menn voru svo hræddir um að ef þeir mundu framkvæma þetta rétt væri enginn áhugi á kosningunni.

Virðulegi forseti. Það er eitthvað rosalega rangt við þetta. Mér sýnist á öllu að engu skipti hvaða rök eru færð fram í málinu, (Forseti hringir.) meiri hlutinn mun keyra þetta í gegn, en það er auðvitað á ábyrgð ríkisstjórnarinnar.