139. löggjafarþing — 139. fundur,  2. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[00:53]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég sé enga aðra skýringu á þeim áherslum sem hafa birst í þingsal en að það þjóni einmitt pólitískum hagsmunum Samfylkingarinnar sérstaklega, að því er mér virðist, að eiga í ágreiningi um sjávarútvegsmálin. Ég merki það t.d. á því að hæstv. forsætisráðherra virðist ekkert kannast við að hafa greitt atkvæði á sínum tíma með frjálsa framsalinu sem og reyndar hæstv. fjármálaráðherra. Þetta er fólkið sem stóð að baki og var í þeirri ríkisstjórn sem lagði fram frumvarp um stjórn fiskveiða árið 1990 sem kom frjálsa framsalinu á. En þau koma hingað upp í dag í ræðustól reglulega og segja það allt saman Sjálfstæðisflokknum um að kenna þar, það sé honum að kenna.

Slíkur málflutningur ásamt með tregðu til að vinna málin í sameiningu og í sátt á grundvelli þeirrar niðurstöðu sem fékkst í fyrra leiðir til þess að erfitt er að verjast þeirri hugsun að það sé sem stjórnarflokkunum þóknist það einhverra hluta vegna að hafa málið í ágreiningi.

Mig langar að nefna t.d. veiðigjaldið til vitnis um það að Sjálfstæðisflokkurinn gengur ekki erinda einhverra sérhagsmuna. Það var í ríkisstjórnartíð Sjálfstæðisflokksins sem veiðigjaldinu var komið á. Varla er hægt að túlka það svo að það hafi verið af einhverri sérstakri greiðasemi við stórútgerðina í landinu. Eða hvernig hefur annars málinu verið tekið af öllum hagsmunaaðilum í greininni? Hafa smábátaútgerðarmenn fagnað málinu? Nei. Hefur fiskvinnslan fagnað þessum málum? Nei. Hafa sjómenn gert það? Nei. Hefur LÍÚ gert það? Nei, það hefur ekki heldur gert það. Samtök atvinnulífsins eru líka ósátt við málið sem og fleiri (Forseti hringir.) og maður bíður umsagnar ASÍ og annarra. Allur málflutningur um að Sjálfstæðisflokkurinn sé í sérhagsmunagæslu fellur um sjálfan sig.