Staða viðræðna Íslands við ESB

Miðvikudaginn 10. nóvember 2010, kl. 15:02:08 (0)


139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

staða viðræðna Íslands við ESB.

[15:02]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að biðja hæstv. utanríkisráðherra um að hætta að koma óorði á kaupfélögin með því að bendla þau við Evrópusambandið. Það er illa gert.

Ég vil í upphafi máls míns benda hv. síðasta ræðumanni á að stuðningur við bændur er eitthvert mesta neytendamál sem hægt er að benda á á Íslandi, sem mun væntanlega breytast mjög ef við göngum í Evrópusambandið.

Mig langar að eyða þeim stutta tíma sem ég hef í smá upplestur fyrir hæstv. utanríkisráðherra sem virðist allt of illa upplýstur. Fyrr í dag var minnst á Timo Summa. Sá ágæti maður segir hér, með leyfi forseta:

„Við lítum á mismunandi hópa og hver afstaða borgarbúa eða fólks á landsbyggðinni er til aðildar. Við viljum vita þetta svo við getum undirbúið kynningargögn í samræmi við það. Við viljum vita hvar eyður eru í þekkingunni og reynum í framhaldinu að leysa það.“

Það á sem sagt að leysa þær eyður sem eru í þekkingunni eftir mismunandi hópum.

Mig langar líka að lesa fyrir hæstv. utanríkisráðherra upp úr framvinduskýrslunni sem rætt er um, með leyfi forseta:

„Bent er á að aðlögunarreglum ESB“ — takið eftir, hv. þingmenn — „um nýtingu fiskstofna til þess að tryggja sjálfbærni þeirra er ekki hafin.“

Enn meira úr framvinduskýrslunni, frú forseti:

„Vinnuhópur hefur verið settur af stað til þess að endurskoða stjórnkerfi til þess að samræma þau reglum ESB.“

Nú langar mig að spyrja hæstv. utanríkisráðherra, hann veit það kannski ekki, en hér er frumvarp til laga um grunngerð landupplýsinga: Er það liður í því að bregðast við þessum skorti á aðlögunarhæfni landbúnaðarráðuneytisins?

Frú forseti. Þetta er stuttur tími. Varðandi aga í Evrópusambandinu hefur endurskoðunin neitað að skrifa undir reikninga þeirra sextánda árið í röð. Mig langar að spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Ef honum er annt um að viðræðurnar skili hratt góðum árangri — ég held að það sé meiri áhugi hjá hæstv. utanríkisráðherra en Evrópusambandinu á því að það gangi hratt fyrir sig — af hverju í ósköpunum leysum við ekki erfiðu málin fyrst í staðinn fyrir að ýta þeim alltaf á undan okkur?