Uppsögn af hálfu atvinnurekanda

Miðvikudaginn 10. nóvember 2010, kl. 15:14:32 (0)


139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

uppsögn af hálfu atvinnurekanda.

47. mál
[15:14]
Horfa

Flm. (Lilja Mósesdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um fullgildingu á samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 158, um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda. Flutningsmenn og -konur eru Lilja Mósesdóttir, Ásmundur Einar Daðason, Þráinn Bertelsson, Ólafur Þór Gunnarsson, Jórunn Einarsdóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Mörður Árnason, Eygló Harðardóttir og Þór Saari.

Tillaga sama efnis var áður flutt á fjórum löggjafarþingum af Bryndísi Hlöðversdóttur, þáverandi þingmanni. Ástæða þess að ég mæli fyrir henni nú er sú að í rannsóknum mínum á íslenskum vinnumarkaði í evrópsku samhengi hef ég oftar en einu sinni staðnæmst við þá staðreynd að réttur launafólks hér á landi er lakari en almennt gerist á Evrópska efnahagssvæðinu þegar kemur að framkvæmd uppsagna. Samþykkt nr. 158 tryggir launafólki lágmarksstarfsöryggi og hefur efni samþykktarinnar víða verið viðurkennt sem lágmarksréttur launafólks við uppsagnir. Nú hafa alls 35 ríki fullgilt samþykktina, þar af tvö annars staðar á Norðurlöndum, í Noregi og Danmörku er byggt á sambærilegum reglum og þeim sem samþykktin byggist á.

Virðulegi forseti. Samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 158 nær m.a. ekki til ákveðinna flokka launafólks þó að gert sé ráð fyrir að hún eigi við um alla sem starfa á vinnumarkaði, þar með talda opinbera starfsmenn. Þeir flokkar launafólks sem eru undanskildir eru þeir sem hafa verið ráðnir tímabundið í vinnu eða ráðnir til reynslu eða þjálfunar um tíma. Einnig má undanskilja þá sem ráðnir eru tilfallandi um skamman tíma. Aðilar vinnumarkaðarins geta jafnframt heimilað að undanskilja tiltekna flokka launafólks ef ráðningarkjör þeirra og starfsskilyrði lúta sérstakri skipan.

Meginefni samþykktarinnar má skipta í þrjá þætti. Sá fyrsti felst í því að atvinnurekanda er gert skylt að rökstyðja uppsögn starfsmanns ef eftir því er óskað. Annar þátturinn felur í sér að starfsmanni skal ekki sagt upp nema til þess sé gild ástæða og eru ástæðurnar tilgreindar, ástæður sem viðkoma hæfni, hegðun starfsmanns eða rekstrarlegum ástæðum fyrirtækisins, stofnunarinnar eða þjónustunnar. Í 5. gr. samþykktarinnar er nánar skilgreint hvað skuli ekki teljast gild ástæða uppsagnar en þar eru talin upp atriði eins og aðild að stéttarfélagi eða þátttaka í starfsemi þess, að gegna stöðu trúnaðarmanns launafólks, að hafa borið fram kæru eða tekið þátt í málssókn gegn atvinnurekanda, svo eitthvað sé nefnt.

Þriðji þátturinn í þessari samþykkt er að kveðið er á um tiltekið málsmeðferðarkerfi. Það er eitt af því sem vantar á íslenskum vinnumarkaði, sérstaklega í einkageiranum. Starfsmaður sem er sagt upp á rétt á ákveðinni málsmeðferð. Starfsmanninum skal gefinn kostur á að verja sig gegn aðfinnslum sem á hann eru bornar, hann skal eiga rétt á að vísa uppsögninni til hlutlauss aðila og hann á rétt á bótum vegna ólögmætrar uppsagnar. Einnig er heimilt að kveða á um að hann eigi rétt á endurráðningu. Ljóst er að þessir þrír þættir samþykktarinnar mundu gjörbreyta stöðu íslensks launafólks til hins betra ef þeir yrðu teknir upp í íslensk lög.

Virðulegi forseti. Aðilar vinnumarkaðarins hafa af skiljanlegum ástæðum mjög ólíka afstöðu til samþykktarinnar. Í minnisblaði frá félagsmálaráðherra frá 2005 kemur fram að Alþýðusamband Íslands telji málið fyrst og fremst snúast um rétt starfsmanna til að fá upplýsingar um ástæður uppsagnar og hvort þær byggi á málefnalegum ástæðum. Það fjalli ekki um rétt atvinnurekanda til að segja upp starfsmanni. Fullgilding hafi því hverfandi áhrif á sveigjanleika á íslenskum vinnumarkaði og leggur Alþýðusamband Íslands til að ILO-samþykktin verði fullgilt og kallar eftir afstöðu stjórnvalda til þess.

Samtök atvinnulífsins telja hins vegar að samþykktin feli í sér bann við uppsögnum af hálfu atvinnurekanda nema hann geti sýnt fram á að ástæða uppsagnarinnar sé samdráttur í rekstri eða að fyrir henni séu gildar ástæður sem varða hæfni eða háttsemi starfsmanns. Fullgilding drægi því verulega úr sveigjanleika í íslensku atvinnulífi og úr vilja fyrirtækja til nýráðninga. Samtök atvinnulífsins eru þar af leiðandi andvíg fullgildingu samþykktarinnar.

Félagsmálaráðuneytið brást við framangreindri niðurstöðu með því að fela Rannsóknasetri vinnuréttar- og jafnréttismála við Háskólann á Bifröst að semja tillögu að leiðbeiningarreglum um uppsagnir starfsmanna í anda samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 158. Niðurstaða Rannsóknasetursins er sú að ekki sé unnt að setja fram leiðbeiningarreglur um þetta efni nema að til komi pólitísk stefnumörkun og nákvæmari tilsögn um það eftir hvaða fyrirkomulagi sé rétt að vinna reglurnar.

Þingsályktunartillagan er í raun viðbrögð okkar flutningsmanna við þessari niðurstöðu. Aðilar vinnumarkaðarins hafa þó reynt að semja um málsmeðferð uppsagna í anda þessarar samþykktar. Við kjarasamninga í febrúar 2008 gerðu SA og ASÍ bókun þess efnis að sátt hefði náðst milli aðila vinnumarkaðarins um fyrirkomulag uppsagna á vinnumarkaði. Samkvæmt þessari bókun á starfsmaður rétt á viðtali við vinnuveitanda sinn um ástæður uppsagnar, óski hann þess.

Ástandið á vinnumarkaði, frú forseti, er mjög breytt síðan þessi bókun var gerð og alltaf að koma fram fréttir um að óeðlilega hafi verið staðið að uppsögnum. Flutningsmenn tillögunnar telja þess vegna mikilvægara en áður að standa vörð um réttindi launafólks. Jafnframt telja flutningsmenn nauðsynlegt að tryggja að reglur sem gilda á vinnumarkaði séu sambærilegar þeim sem eru í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við og að Íslendingar séu ekki eftirbátar nágrannaríkja á þessu sviði. Flutningsmenn telja auk þess mikilvægt að vinna að því að innleiða tillögur Rannsóknasetursins um að pólitísk afstaða verði tekin til þess hvernig innleiða eigi samþykktina.

Frú forseti. Eftirlitsnefnd Evrópuráðsþingsins, og ég er formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, gerði nýlega athugasemd við að við værum ekki búin að innleiða samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 158.

Að lokum vil ég geta þess að undir liðnum um störf þingsins hér fyrst í dag var einmitt rætt um uppsögn fréttamanns á RÚV. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson tók það efni upp og sagðist hafa fengið þær upplýsingar að viðkomandi starfsmaður, sem hafði verið sagt upp, hefði ekki fengið tækifæri til málsvarnar heldur aðeins verið upplýstur um ástæðu uppsagnarinnar. Er það mjög í anda þeirrar stöðu sem flestir á vinnumarkaði búa við. Samkvæmt þessari bókun sem ASÍ og Samtök atvinnulífsins gerðu 2008 eiga allir sem eru á vinnumarkaði rétt á að fá ástæðu uppsagnar en ekki er búið að móta reglur um það í hvers konar ferli mótmæli viðkomandi einstaklings fara ef starfsmaðurinn er ósáttur við þá ástæðu sem gefin er fyrir uppsögninni.

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því að hv. þingmaður, sem er þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafði áhyggjur af því að verið væri að segja upp starfsmanni án þess að hann fengi tækifæri til málsvarnar og vænti ég því þess að þingmenn Sjálfstæðisflokksins styðji þessa þingsályktunartillögu með okkur flutningsmönnum. Til að tengja þingsályktunartillöguna enn meira við það sem er að gerast fyrir utan veggi Alþingis kom nýlega líka frétt á svipan.is um það að starfsmenn Orkuveitunnar hefðu verið ósáttir við það hvernig staðið var að uppsögnum 70 starfsmanna núna fyrir mánaðamótin. Það er því ærin ástæða til að Alþingi samþykki þessa þingsályktunartillögu sem allra fyrst.