Stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki

Miðvikudaginn 10. nóvember 2010, kl. 16:57:36 (0)


139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

73. mál
[16:57]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Já, ég lofa að kynna mér frumvarp hv. þm. Péturs Blöndals. Ég sá að það lá frammi og ég fagna því að hann skuli ganga með okkur í það af heilum hug að endurskoða þetta kerfi og reyna að koma nýjum fótum undir það með því m.a. að flæma þaðan burt ýmsar skrípamyndir sem stóðu á bak við þá atburði sem við erum enn að kljást við og verðum því miður að gera í nokkuð langan tíma í viðbót.

Annað hef ég í raun og veru ekki um þetta að segja, nema að ég gleymdi í ræðu minni áðan innan um allt hrósið til hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar (Gripið fram í.) að gagnrýna hv. þm. Pétur Blöndal fyrir ummæli sín um skattana. Um hvaða skattpíningu er hann að tala og af hverju skyldi hún stafa? Hvernig á að afla fjár í ríkissjóð með öðrum hætti? Ég kannast ekki við að hv. þingmaður hafi komið fram með tillögur um það og ég kannast hreinlega ekki við þá skatta sem hann talar um á fjármagn og fyrirtæki og hvet hann til að sýna mér og þingheimi öllum fram á það á eftir að hvaða leyti þeir eru hærri eða verri en í öðrum löndum sem ekki standa í þeim sporum sem við þó stöndum í með atvinnulífið á brauðfótum og viðskiptin í frosti.