139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[17:18]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þær miklu og góðu umræður sem hafa staðið hér um þessa þingsályktunartillögu, um þjóðaratkvæðagreiðslu um að aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins verði lokið, að þjóðin fái að velja um það. Skal þjóðaratkvæðagreiðslan fara fram eigi síðar en 28. maí 2011.

Hér voru fluttar margar góðar ræður en þó stendur ein ræða upp úr, það er ræða hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar sem hann flutti áðan, seinni ræða þingmannsins. Þar upplýsir hann þing og þjóð um að niðurstaðan sem fékkst síðastliðið sumar, í atkvæðagreiðslunni um hvort leggja ætti inn umsókn að Evrópusambandinu, hafi verið þvinguð fram. Niðurstaða þeirrar kosningar var þvinguð fram af Samfylkingunni, hún beitti kúgunum. Ef þingmenn hlýddu ekki hæstv. forsætisráðherra væri fyrsta vinstri stjórnin fallin. Farið hefur fé betra. Þeir hefðu betur staðið á sannfæringu sinni, þingmenn Vinstri grænna, í fyrrasumar. Þá værum við kannski í öðrum sporum í dag, þá væri búið að gera eitthvað fyrir heimilin í landinu, þá væri búið að koma atvinnulífinu af stað. Þessi ríkisstjórn er verklaus og hefur ekki komið neinu í verk frá því að hún tók við.

Þetta eru hótunarstjórnmál sem hæstv. forsætisráðherra hefur svo oft stundað. Hún hótaði meira að segja svo hressilega þegar hún var áður ráðherra að hún stofnaði nýjan flokk. Nú er engin hurð til að skella en nú skal þingmönnum samstarfsflokksins hótað. Ég spyr: Hafa fleiri mál farið í gegnum þingið á þessum forsendum, að þingmenn Vinstri grænna séu teknir einn og einn inn í herbergi og þeim hótað þar að lífi ríkisstjórnarinnar sé lokið ef þeir fari ekki í einu og öllu að vilja hæstv. forsætisráðherra og hennar flokks sem hefur það eitt á stefnuskrá sinni að sækja um aðild að Evrópusambandinu? Þetta er langtum víðtækara. Við vitum það öll að ef Samfylkingin hefði ekki náð þessu í gegn í fyrrasumar hefði nánast þurft að leggja flokkinn niður því að þetta er hans eina stefnumál.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er sú tillaga sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason var að vísa í, hina tvöföldu þjóðaratkvæðagreiðslu sem sjálfstæðismenn lögðu fram í umræðunum í fyrrasumar. Það er í sambandi við þá tillögu sem hótunum var hvað mest beitt, að mér skilst, og svo líka í sjálfri atkvæðagreiðslunni. Þar segir með leyfi forseta:

„Verði aðildarumsókn samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu skal ríkisstjórnin leggja inn umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu.“ — Sú atkvæðagreiðsla átti að fara fram áður en ríkisstjórnin legði umsóknina inn.

Raunverulega er sú þingsályktunartillaga sem liggur nú fyrir þinginu, og ég er fyrsti flutningsmaður að, speglun á þeirri tillögu sem sjálfstæðismenn lögðu fram í fyrrasumar um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er orðið tímabært, í þeim forsendubresti sem þessi umsókn er nú komin í, þetta eru hreinar og klárar aðildarviðræður að Evrópusambandinu, að þjóðin fái að koma að málum og segja: „Hingað og ekki lengra“, eða þá: „Stígum skrefið alla leið“. Sérstaklega í ljósi þess að hér hefur verið upplýst að niðurstaðan frá í fyrrasumar var þvinguð fram, að ekki var raunverulegur meiri hluti fyrir þeirri tillögu að leggja inn umsókn að Evrópusambandinu. Það er grafalvarlegt mál, frú forseti, að þjóðþing skuli þvingað til að taka svo afdrifaríka ákvörðun eins og fram kom þannig að niðurstaðan stenst ekki meiri hluta þingsins. Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason sagði okkur hér áðan að umsóknin var fallin í fyrrasumar. Hún var fallin í fyrrasumar og hugsið ykkur orkuna, peninginn og vinnuna sem lögð hefur verið í þessa tillögu sem var þvinguð fram á síðasta ári.

Frú forseti. Ég taldi að þessi tillaga færi nú til allsherjarnefndar en mér var tjáð í morgun af starfsmönnum þingsins að hún færi til utanríkismálanefndar þar sem þetta málefni snertir utanríkismál. Hef ég ekki neinar athugasemdir við það.

Ég ítreka það sem hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni varð tíðrætt um í ræðu sinni. Ég vona að hún fái þar málefnalega umræðu. Ég vonast til þess að kallaðir verði til sérfræðingar og þeir fengnir til að gefa álit sitt á þessari tillögu sem það vilja og óskað er eftir. Ég óska eftir því að þingsályktunartillagan fái síðan eðlilegan framgang í nefndinni og að henni verði hleypt af stað inn í síðari umr. Við þurfum, í ljósi nýjustu upplýsinga, á því að halda að gá í fyrsta lagi hvort þingmeirihluti sé fyrir þessari tillögu til að hleypa þessu máli áfram til þjóðarinnar.

Frú forseti. Oft var þörf en nú er nauðsyn að íslenska þjóðin fái að segja álit sitt á þessu máli.