140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

fullgilding Evrópuráðssamningsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og misnotkun.

341. mál
[11:30]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið en vil þó fá að taka stuttlega til máls um þá tillögu að við fullgildum Evrópuráðssamninginn um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og misnotkun. Ég vil af þessu tilefni rifja upp að í gærkvöldi var hér til umræðu mál sem er þessu tengt, frumvarp til laga um breytingar á almennum hegningarlögum, sem snýr beint að þessari þingsályktunartillögu. Þetta hangir saman og í gærkvöldi varð hér stutt umræða um þetta mál.

Það er sannarlega rétt að það er mjög mikilvægt að koma þessu máli sem fyrst í gegnum þingið, í gegnum allsherjar- og menntamálanefnd þar sem gott fólk vinnur. Hér gekk formaðurinn fram hjá í þessum töluðu orðum. Í frumvarpinu er einmitt lagt til að við getum dæmt þá sem fara til landa þar sem lagaumhverfið er mjög veikt að þessu leyti gagngert til að fremja svona kynferðisleg brot gagnvart börnum. Það er alveg þekkt fyrirbæri, því miður, að þeir sem hafa þessar tilhneigingar velja slík lönd til að fara til og halda að þeir sleppi með glæpinn.

Með því að breyta lögum í takt við það sem hæstv. innanríkisráðherra hefur lagt til og í takt við það að við ætlum núna að fullgilda þennan samning munum við geta notað íslenskt lagaumhverfi til að dæma þessa aðila. Þeir eiga ekki að sleppa þótt þeir velji sér lönd þar sem ríkir oft mjög mikil fátækt og börn eru lítið sem ekkert varin í lagaumhverfinu. Það er mjög mikilvægt að við gerum þetta.

Í gær varð líka talsverð umræða hér um annað mál sem ég ætla ekki að fara mikið yfir en er líka mjög mikilvægt að það verði klárað, þ.e. hvernig netið er notað til að tæla börn og ungmenni til kynferðislegra athafna. Ef það frumvarp verður að lögum verður hægt að dæma aðila sem mæla sér mót við barn í kynferðislegum tilgangi. Ef hægt er að sanna það er nóg að viðkomandi hafi mælt sér mót við barnið til að hann verði dæmdur á þeim grundvelli. Þetta horfir allt til mikilla bóta ef við samþykkjum þetta til að vernda börn og ungmenni gegn kynferðislegri misnotkun.