Starfskjör launafólks og skyldutrygging lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 28. febrúar 2012, kl. 16:44:24 (5932)


140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

starfskjör launafólks og skyldutrygging lífeyrisréttinda.

334. mál
[16:44]
Horfa

Flm. (Margrét Tryggvadóttir) (Hr):

Forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um breytingu á lögum um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980, með síðari breytingum. Flutningsmenn auk mín eru hv. þm. Þór Saari og Birgitta Jónsdóttir.

Þetta er lítið frumvarp sem gengur út á það að setja þak á hámarkslaun forsvarsmanna stéttarfélaga og samtaka stéttarfélaga þannig að þau geti ekki verið hærri en þreföld lágmarkskjör í því félagi sem viðkomandi forsvarsmaður veitir forstöðu, samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laganna. Einnig er í frumvarpinu ákvæði til bráðabirgða sem gengur út á það að hafi ákvæði 1. gr. þessa frumvarps í för með sér skerðingu á launakjörum hlutaðeigandi forsvarsmanns skuli hann halda óbreyttum launakjörum þann tíma sem er réttur hans til uppsagnarfrests. Þetta jafngildir þá eiginlega uppsögn og svo fer forsvarsmaðurinn á önnur kjör.

Ég lagði frumvarpið fyrst fram á síðasta löggjafarþingi en náði ekki að mæla fyrir því. Það komst engu að síður út í samfélagið og um það varð svolítil umræða. Því var nú ekki vel tekið af þeim mönnum sem frumvarpið nær til eða alla vega ekki af sumum þeirra sem tjáðu sig um það. Þeir misskildu það viljandi á þann veg að með því væri hreinlega verið að hækka laun þeirra. Svo er ekki heldur á frumvarpið eingöngu við um hámarkslaun, þetta er sem sagt þak á laun en ekki gólf.

Samningsfrelsi er grundvallarregla í íslenskum rétti. Löggjafinn getur þó talið rétt að setja samningsfrelsinu ákveðnar skorður séu rík rök þar að baki. Meðal þeirra raka sem oft er vísað til eru almannahagsmunir. Við sem flytjum þetta frumvarp teljum mikilvægt að sett sé hámark á laun forsvarsmanna verkalýðsfélaga og hagsmunasamtaka launafólks. Að baki slíku hámarki eru rík sanngirnissjónarmið enda eru þessi laun greidd úr sameiginlegum sjóðum verkalýðsins. Með frumvarpinu væru samningsfrelsi settar nokkrar skorður enda yrði ólöglegt að semja um hærri laun en sem nemur þreföldum lágmarkskjörum. Við ákvörðun þessa hámarks var þó gætt meðalhófs og ekki gengið of nærri samningsfrelsi aðila, alla vega ekki að okkar mati. Með því að kveða á um þreföld lágmarkskjör er enn fremur talið tryggt að hámarkið sé ákvarðað þannig að laun séu samkeppnishæf svo að hæft fólk fáist til starfans og ákvæðið dragi ekki úr hvata þeirra sem eru hæfastir til að sinna starfinu.

Flutningsmenn telja jafnframt rétt að vekja athygli á því að setning hámarks er á þennan hátt bundin lágmarkskjörum og það getur orðið forsvarsmönnunum mikilvægur hvati til að berjast fyrir bættum rétti félagsmanna þar sem hækkun lágmarkslauna getur leitt til beinnar hækkunar þeirra eigin launa. Þetta finnst mér kannski vera aðalatriði málsins því að eins og kerfið er núna finnst mér bil á milli forsvarsmanna verkalýðsfélaganna og svo almennra launamanna, sem eru á lágmarkslaunum, allt of breitt og ég held að þetta gæti verið mjög sniðugur hvati til að reyna að jafna kjörin. Ég vona svo sannarlega, ef þetta frumvarp nær fram að ganga, að það verði til þess að hækka lægstu launin í landinu.

Ef einhver í þessu samfélagi á að geta lifað af þeim lágmarkslaunum sem greidd eru hljóta forkólfar verkalýðsfélaga að geta lifað á þreföldum þeim launum. Eins og ég sagði er hér um að ræða þak en ekki gólf og ég vona að þetta verði hvati til þess að semja um raunverulegar kjarabætur en ekki bara greiðslur, eins og oft er, í einhvern enn einn starfsmenntasjóðinn sem verkalýðsfélögin hafa innan vébanda sinna.

Jón Gunnar Bernburg, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, og Sigrún Ólafsdóttir, lektor í félagsfræði við Boston-háskóla, hafa gert rannsókn á viðhorfi Íslendinga til launamunar og jöfnuðar. Rannsóknin var á þann veg að á tímabilinu nóvember 2009 til júlí 2010 framkvæmdu þau spurningakönnun úr líkindaúrtaki 948 fullorðinna Íslendinga þar sem spurt var út í launamun en ýmsar erlendar rannsóknir benda til þess að fólk í vestrænum samfélögum vilji hvetja fólk til dáða með því að launa betur störf sem krefjast meiri menntunar eða færni. En í hverju samfélagi eru ákveðin þolmörk sem sýna hve mikill tekjumunurinn má vera og þau þolmörk virðast vera afar mismunandi milli landa. Eitt af því sem reynt var að finna út í rannsókninni var hver þau þolmörk væru að mati Íslendinga. Mikill meiri hluti svarenda í könnuninni, eða 75%, vill að þeir sem eru háttsettir hafi milli 50–249% hærri tekjur en þeir sem eru lægra settir. Aðeins lítill hluti svarenda, eða 8%, vill að tekjumunurinn sé 350% eða meiri. Langflestir Íslendingar vilja því ekki, og bara alls ekki, meiri tekjumun í landinu en þrefaldan. Það eru þau mörk sem miðað er við í frumvarpinu.

Það er kannski allt í lagi að taka það fram að sú sem hér stendur er ekki þeirrar skoðunar að allir eigi að vera með sömu laun, ég held að fólk eigi einmitt að sjá hag sinn í því að mennta sig, vera duglegt og sækja fram, ég held að það sé eðlilegur hvati. En mér finnst ekki eðlilegt að þeir sem greiða laun annarra séu á miklu lægri launum. Ég er alls ekki hrifin af því að þak sé sett á öll laun. Við Íslendingar eigum til dæmis þjóðargersemi í Björk Guðmundsdóttur. Ég veit ekkert um hennar laun en mín vegna má hún hafa öll þau laun sem hún fær, þau eru sjálfsköpuð, þau eru vegna hennar eigin mannkosta og dugnaðar við að koma sér á framfæri. En launþegar, sem borga laun þeirra sem stýra verkalýðsfélögum eða félögum launafólks, eru oft á margfalt lægri launum en þeir sem stjórna félögum þeirra. Frumvarpið er tilraun til að breyta því.