Vaðlaheiðargöng

Þriðjudaginn 20. mars 2012, kl. 14:30:48 (6603)


140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

Vaðlaheiðargöng.

[14:30]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Höskuldi Þór Þórhallssyni fyrir að taka þetta mál til umræðu en ég held að við þurfum að staldra aðeins við. Þegar ákveðið var að fara með Vaðlaheiðargöngin fram fyrir í samgönguáætlun og fara með þau í einkaframkvæmd var það gert á þeim forsendum að verkið stæði undir sér að fullu leyti með veggjöldum. Er það hafið yfir vafa? Misjafnt lesa menn í það. Núna liggja til að mynda fyrir um það þrjár skýrslur. Ég held að ég geti fullyrt að tvær þeirra séu frekar neikvæðar gagnvart því að verkið muni standa undir sér og í niðurstöðukafla skýrslunnar frá IFS Greiningu kemur fram að það sé mikil fjárhagsleg áhætta fyrir þann sem lánar fé til framkvæmdarinnar á framkvæmdatímanum.

Mér finnst við oft ræða hlutina öðruvísi en þeir eru. Það var reynt að fara með þetta verkefni í einkaframkvæmd en ekki var hægt að fjármagna það í gegnum lífeyrissjóðina og þess vegna var því komið þannig fyrir að farið var að lána framkvæmdafé úr ríkissjóði í verkefnið.

Það þýðir ekki fyrir menn að segja að ef það standi ekki að fullu undir sér verði afslátturinn bara aðeins minni. Auðvitað er það rétt í sjálfu sér en ræðum hlutina eins og þeir eru. Ég geri líka athugasemdir við það hvernig haldið hefur verið á málinu í þinginu. Það kom fram í hv. samgöngunefnd að 7. nóvember hafi verið óskað eftir því að gerð yrði óháð úttekt á verkinu og óskað eftir því að Ríkisendurskoðun færi í þá vinnu. Ríkisendurskoðun hafnaði þeirri beiðni og þá sendi hv. nefnd beiðni til forsætisnefndar um að fá að gera úttekt á verkinu. Því er ekki svarað í sex vikur og síðan kemur í ljós að sú stofnun sem hv. samgöngunefnd óskaði eftir að gerði úttekt á verkinu hafði þegar gert slíka úttekt.

Í ljósi þeirrar þingsályktunartillögu sem margoft hefur verið vitnað í, einu þingsályktunartillögunnar sem hefur verið samþykkt 63:0 og gekk út á það að efla sjálfstæði og vanda vinnubrögð þingsins, geri ég alvarlegar athugasemdir við það að hæstv. fjármálaráðherra og fjármálaráðuneytið hafi látið gera sérskýrslu. (Forseti hringir.) Ég lýsi yfir fullum stuðningi við meiri hlutann í hv. samgöngunefnd og það hvernig hann hefur haldið á þessu máli hingað til.