Kröfur Hagsmunasamtaka heimilanna

Miðvikudaginn 30. nóvember 2011, kl. 15:33:27 (2192)


140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

kröfur Hagsmunasamtaka heimilanna.

[15:33]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hlýt að minna hv. þingmann á, úr því að hann kýs að tala um seinagang við aðgerðir fyrir heimilin, að ekki eru margir mánuðir síðan allir flokkar á þingi komu að vinnu um úrbætur og aðgerðir fyrir heimilin í landinu. Þar voru settar fram mjög ítarlegar aðgerðir sem ég er sannfærð um að hafi gagnast mjög vel og allir tóku þátt í. Upp úr sumum stóð, m.a. stjórnarandstöðunni, að einhvern tíma yrði að vera endir á þessu máli þannig að heimilin í landinu væru ekki alltaf að búast við því að það kæmi meira og meira og nýttu því ekki þau úrræði sem til væru.

Hitt er annað mál að komið hefur í ljós að skoða þarf frekar þessi mál. Þá er ég ekki síst að tala um lánsveðin sem er verið að skoða núna hvort hægt sé að taka á. Síðan þarf að tryggja að meiri gangur sé hjá umboðsmanni skuldara og bönkunum að því er varðar greiðsluaðlögun og ég vona að það sé í gangi. (Forseti hringir.)

Síðan veit hv. þingmaður að efnahags- og viðskiptanefnd er með til sérstakrar skoðunar hvað hægt sé að gera í verðtryggingarmálum þannig að ýmislegt er enn í gangi. Þegar mat Hagfræðistofnunar um áhrif þessara tillagna (Forseti hringir.) liggur fyrir verður það kynnt, en því fylgja ekki loforð um aðgerðir heldur er þetta fyrst og fremst yfirferð á þessu máli og athugun á því hvernig hægt er að bregðast við.