Fjárlög 2012

Miðvikudaginn 30. nóvember 2011, kl. 17:25:31 (2269)


140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:25]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Í áliti sínu til fjárlaganefndar gagnrýnir meiri hluti velferðarnefndar að farið sé í þessa vegferð án fyrirliggjandi stefnu. Meiri hlutinn sjálfur gagnrýnir að engin stefna sé í þessum niðurskurði. Nú hefur ríkisstjórnin haft um það bil eitt ár til að gera þá byggðaúttekt sem nauðsynleg var og fara yfir þessi mál.

Hér tala stjórnarþingmenn um að gera þurfi þessar úttektir núna fyrir árið 2013. Í mínum huga þýðir það bara eitt: Það er enginn áhugi hjá meiri hluta Alþingis og ríkisstjórninni fyrir því að breyta af þeirri vegferð sem hún hóf fyrir um ári síðan. Það er verið að gerbylta heilbrigðiskerfi landsmanna. Það er vegið að því öryggi sem íbúar landsins búa að (Forseti hringir.) án þess að stefna liggi fyrir. Við framsóknarmenn munum sitja hjá við (Forseti hringir.) þessa atkvæðagreiðslu og leggjum fram breytingartillögu okkar við 3. umr.