Fjárlög 2012

Miðvikudaginn 30. nóvember 2011, kl. 18:18:03 (2299)


140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:18]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér er ríkisstjórnarmeirihlutinn að samþykkja að selja eignarhlut ríkisins í fasteignum St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að það er verið að selja spítalann.

Ég spyr: Hvað um öll ummælin sem hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans viðhöfðu fyrir síðustu kosningar? Þeir fóru mikinn þegar við höfðum uppi hugmyndir um að færa aðra heilbrigðisstarfsemi þar inn. Það stóð aldrei til að loka St. Jósefsspítala. Ég hvet fjölmiðla þessa lands að fletta upp þeim ummælum sem voru ekki hógvær. Þau voru ekki lítillát og ekki var lofað litlu þó svo að nú fari lítið fyrir því (Forseti hringir.) og hv. þingmenn og hæstv. fyrrverandi heilbrigðisráðherrar sem jafnvel eru enn í ríkisstjórn eru núna að samþykkja að selja spítalann og loka honum og læsa. (Forseti hringir.) Það stóð aldrei til að hætta með heilbrigðisstarfsemi á St. Jósefsspítala, aldrei.