141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

Fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna og Kólumbíu og landbúnaðarsamningur Íslands og Kólumbíu.

122. mál
[15:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki sáttur við þetta svar. Þetta var ekkert svar. Ég spurði hvort ekki væri mótsögn í því að vera að gera fríverslunarsamninga og vera jafnframt að sækja um aðild að bandalagi sem er með og gerir slíka samninga. Þessi samningur mundi falla niður um leið og við gengjum í Evrópusambandið, eins og hv. þingmaður hefur samþykkt að sækja um aðild að.

Það var það sem ég átti við. Auðvitað er gott að gera samninga og vissulega væri gott að taka upp þá samninga sem Evrópusambandið hefur gert og það má vel vera að þessi samningur sé inni í því sem Evrópusambandið hefur þegar gert. En þá höfum við ekki gert það sjálf. Þá höfum við ekki gert samninga á okkar forsendum heldur hefur Evrópusambandið gert þá á sínum forsendum. Og eins og menn vita kannski er það varnarbandalag, það lokar úti stóran hluta mannkynsins í lífskjörum. Ég hugsa að þeir samningar sem Evrópusambandið gerir séu töluvert öðruvísi en samningar sem íslensk stjórnvöld mundu gera eða íslenskur utanríkisráðherra sem vildi ekki endilega ganga í Evrópusambandið.

Það er það sem mér finnst vera skrýtið í þessu. Ég spyr hv. þingmann aftur: Er það ekki mótsögn að vera að sækja um aðild að bandalagi sem sér um svona samninga, þessi samningur fellur niður um leið og við göngum í bandalagið, og svo hins vegar að vera að búa til og leggja vinnu í samninga og plata fólk í lýðveldinu Kólumbíu og annars staðar í Fríverslunarsamtökum Evrópu að við séum að gera samninga af einhverjum heilindum? Það stendur ekki til að þessi samningur gildi, alla vega ekki ef vilji hæstv. ríkisstjórnar gengur eftir.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um þetta. (Gripið fram í.)