Stjórnarráð Íslands

Fimmtudaginn 18. október 2012, kl. 13:15:01 (0)


141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

248. mál
[13:15]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að gera miklar efnislegar athugasemdir við ræðu hv. þm. Róberts Marshalls sem var á margan hátt ágæt. Mér fannst hann staðfesta það sem ég sagði í ræðu minni að vissulega hefði verið varað við því að þetta yrði samþykkt án þess að búið væri að hugsa það til enda. Það var kannski kjarninn í því sem ég var að segja í ræðu minni áðan. Ég dró síðan saman í lokin að þetta ætti að vera okkur ákveðið fordæmi fyrir að vanda betur vinnubrögðin, nema við förum þá leið þegar svona umdeild ákvæði eru samþykkt eins og hér er gert afar oft sem hafa kannski ekki verið hugsuð til enda, að gildistökunni verði bara einfaldlega frestað nógu lengi. Ég gæti hugsað mér að fara þá leið út af fyrir sig í miklu fleiri tilvikum en gert hefur verið, að fresta gildistöku laga sem hér eru samþykkt fram í tímann þannig að betra tækifæri gefist til að hugsa málin til enda áður en þau eiga að koma til framkvæmda.

Hvort upptökur af þessu tagi komi ekki til með að hafa mikil áhrif er alveg óljóst. Ég tek mark á því sem til dæmis prófessor Gunnar Helgi Kristinsson segir í áliti sínu að þetta geti breytt eðli ríkisstjórnarfunda. Ég held að skoða þurfi hugsunina í því ljósi. Ég hygg líka að full ástæða sé til að taka mark á þeim sjónarmiðum sem koma fram hjá Róberti Spanó í þessum efnum, prófessor í lögfræði. Ég vil þar með, þótt það beinist ekki að hv. þm. Róberti Marshall sérstaklega, nota tækifærið og hafna ávirðingum sem fram komu áðan í garð þessara ágætu háskólamanna (Forseti hringir.) í ræðum annarra þingmanna sem töluðu um að þeir hefðu verið fengnir til þess að kokka upp einhverja niðurstöðu sem væri forsætisráðherra þóknanleg. (Forseti hringir.) Ég held að þessir ágætu fræðimenn hafi ekki unnið á þeim forsendum.