Ferill 385. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 817  —  385. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur
um innleiðingu rafrænna skilríkja.


     1.      Hver eru rökin fyrir því að allir verði að notast við tilteknar gerðir rafrænna skilríkja til að eiga kost á svokallaðri skuldaleiðréttingu, þ.e. niðurfærslu á veðskuldum vegna fasteignalána, þegar fyrir liggur að einstaklingum er heimilt að nota margvísleg önnur skilríki til að sanna á sér deili, svo sem ökuskírteini, íslykla, vegabréf og greiðslukort?
    Með hliðsjón af fjölda umsækjenda og í takt við nútímastjórnsýslu er kveðið á um í lögum nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, að allt ferlið vegna aðgerðarinnar sé rafrænt. Samkvæmt reglugerð nr. 698/2014 um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þurfa umsækjendur að samþykkja niðurstöðu útreiknings á höfuðstólslækkun íbúðalána þeirra með rafrænni undirritun. Rafræn skilríki eru einu skilríkin sem gefa möguleika til fullgildrar rafrænnar undirritunar.

     2.      Hvað kostar slík allsherjarinnleiðing rafrænna skilríkja?
    Bein innleiðing rafrænna skilríkja hefur staðið yfir frá árinu 2008 en undirbúningur að henni hófst nokkuð fyrr. Frá árinu 2008 hafa rafræn skilríki verið gefin út til einstaklinga í samstarfi ríkis og einkaaðila. Heildarkostnaður verkefnisins liggur hjá mörgum aðilum, einkum fjármálafyrirtækjum, en fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur ekki borið kostnað af útgáfu rafrænna skilríkja til einstaklinga.
    Kostnaður ríkissjóðs, sem hefur fallið til í ráðuneytinu vegna verkefnisins, nemur 191,5 millj. kr. frá árinu 2007. Að meðaltali hefur árlegur kostnaður verið 23 millj. kr. á ári, nema árið 2007 þegar hann var 50,8 millj. kr. og árið 2008 þegar kostnaðurinn var 38,4 millj. kr. Að stærstum hluta er um að ræða árlegt framlag vegna samstarfssamnings við Auðkenni hf. um almenna notkun rafrænna skilríkja. Framlag ríkissjóðs til samstarfsverkefnisins er 10 millj. kr. á ári sem tekur breytingum í samræmi við vísitölu neysluverðs. Greiðslan er fyrir hýsingu og rekstur Íslandsrótar, milliskilríkja og notendaleyfa persónutengdra endaskilríkja, auk framleiðslu og aðgengis að afturköllunarlistum (CRL) og svokallaðri OCSP-þjónustu. Frá árinu 2008 hafa greiðslur vegna þessa numið alls 107,4 millj. kr., auk 30 millj. kr. stofnframlags árið 2007. Annar kostnaður er vegna hugbúnaðargerðar og sérfræðiþjónustu. Í framantöldum kostnaði er tekið tillit til 35,6 millj. kr. framlags vegna STORK-verkefnisins sem hefur það að markmiði að gera Evrópu að einu rafrænu innskráningar- og auðkenningarsvæði.

     3.      Hve mikill er kostnaðurinn við kynningu og auglýsingar vegna rafrænna skilríkja í tengslum við svokallaða skuldaleiðréttingu?
    Kostnaðurinn er 560 þús. kr. Að auki hefur verið vakin athygli á rafrænum skilríkjum í almennum auglýsingum um höfuðstólslækkun verðtryggðra fasteignaveðlána.

     4.      Var auglýsinga- og kynningarstarfsemin boðin út?
    Nei. Sjá svar við 5. tölul. fyrirspurnarinnar .

     5.      Hvaða aðili annast auglýsinga- og kynningarstarfsemina? Hvað réð vali á viðkomandi?
    Embætti ríkisskattstjóra hefur annast þessi mál sem framkvæmdaraðili höfuðstólslækkunar verðtryggðra íbúðalána.

     6.      Hvernig var staðið að vali á verkefnisstjóra vegna rafrænna skilríkja, á hvaða forsendum fór valið fram, hver var reynsla þess er starfið hreppti af því að stýra sambærilegum verkefnum og hvernig var hún metin? Var starfið auglýst, hve miklar eru heildargreiðslur vegna starfsins að meðtöldum kostnaði vegna aksturs, síma, tölvu og annars er starfinu tengist?
    Fyrr í haust var skipuð verkefnisstjórn um innleiðingu rafrænna skilríkja til að fylgja eftir sameiginlegri yfirlýsingu fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Samtaka fjármálafyrirtækja um að stuðla að útbreiðslu og notkun rafrænna skilríkja. Verkefnisstjórnin er skipuð fulltrúa ráðuneytisins, fulltrúa Samtaka fjármálafyrirtækja og ríkisskattstjóra. Kostnaður sem fellur til vegna verkefnisstjórnarinnar er greiddur sameiginlega af ríkinu og Samtökum fjármálafyrirtækja. Verkefnisstjórnin tengist ekki aðgerð stjórnvalda til að lækka höfuðstól verðtryggðra fasteignaveðlána.
    Verkefnisstjórnin tók þá ákvörðun að fá verkefnisstjóra til að sinna ákveðnum verkefnum tímabundið í verktöku. Verkefnisstjórinn hefur það hlutverk að tengja saman lykilaðila er varða viljayfirlýsinguna. Niðurstaða verkefnisstjórnar var að leita til Árna Sigfússonar, stjórnsýslufræðings og fyrrverandi bæjarstjóra í Reykjanesbæ, um að sinna þessum verkefnum og mat hún hann hæfan til þess.
    Umrætt verkefni er unnið í verktöku. Verkefnið telst ekki starf í skilningi 1. mgr. 1. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og fellur því ekki undir auglýsingaskyldu 7. gr. laganna.
    Áætlaður heildarkostnaður er 5,6 millj. kr.

     7.      Hafa rafræn skilríki verið innleidd með sama hætti og hér í öðrum löndum? Var leitað erlendrar ráðgjafar vegna innleiðingarinnar á einhverju stigi málsins?

    Innleiðing rafrænna skilríkja hér á landi hefur staðið yfir um árabil. Ráðuneytið hefur fylgst vel með þróun þessara mála í Evrópu og tekið virkan þátt í ýmsu samstarfi á þessu sviði, t.d. í verkefninu STORK og STORK2.0 sem snýr að rafrænni auðkenningu á milli landa. Auk þess á ráðuneytið fulltrúa í nefnd sem heyrir beint undir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, ISA (Interoperability Solutions for European Public Administrations), þar sem þessi mál koma oft til umfjöllunar.
    Ekki hefur verið leitað sérstaklega til erlendra ráðgjafa vegna innleiðingarinnar en sú leið sem farin hefur verið hér á landi, þ.e. samstarf ríkis og einkaaðila, er vel þekkt í Evrópu.