Ferill 552. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1063  —  552. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur
um vetrarþjónustu Vegagerðarinnar í Árneshreppi.


     1.      Hvernig er skipulagi vetrarþjónustu Vegagerðarinnar háttað í Árneshreppi á Ströndum?
    Frá Gjögri í Norðurfjörð er gert ráð fyrir að snjó sé mokað af vegum tvisvar í viku, haust, vetur og vor. Sunnan frá Bjarnarfirði að Gjögri gildir aftur á móti svokölluð G-regla Vegagerðarinnar um vetrarþjónustu. Samkvæmt henni er heimilt að moka tvo daga í viku haust og vor á meðan snjólétt er. Staðan er skilgreind „snjólétt“ þegar snjór er lítill, færð þokkaleg og þegar þjónustan felst einungis í því að hreinsa veg með snjómokstursbíl. Hausttímabil er skilgreint til 1. nóvember, vetur frá 1. nóvember til 20. mars og vortímabil frá 20. mars.
    Þá er Vegagerðinni heimilt að moka vegi sem falla undir G-regluna einu sinni í viku frá 1. nóvember til 5. janúar á sinn kostnað þannig að fært sé fyrir fjórhjóladrifin ökutæki, en eftir það einu sinni í viku að beiðni og gegn helmingsgreiðslu frá sveitarfélagi. Miðað er við að slíkur mokstur skuli ekki kosta að jafnaði meira en sem nemur þreföldum þeim kostnaði sem til fellur þegar vegur telst snjóléttur. Vegagerðin metur hvort mokstur sé raunhæfur með tilliti til notagildis og kostnaðar.
    Þess ber að geta að G-reglan svokallaða nær til ýmissa annarra vega á landinu, svo sem vega um Dynjandisheiði og Hrafnseyrarheiði, vegar að Dettifossi, um Jökulsárhlíð, um Hellisheiði eystri, að Mjóafirði og vegarins um Öxi.

     2.      Hversu oft þarf Árneshreppur að taka þátt í helmingamokstri yfir vetrartímann?
    Vegagerðin hefur heimildarákvæði til að verða við óskum sveitarfélags um helmingamokstur. Heimamenn eiga afar sjaldan frumkvæði að slíku, enda er sveitarfélagið fámennt og aðstæður allar mótdrægar. Leiðin frá Bjarnarfirði að Gjögri liggur m.a um mjög snjóþungan óuppbyggðan veg um Veiðileysuháls og varasöm snjóflóðasvæði í Kaldbakskleif, Veiðileysukleif og norðurhlíð Reykjarfjarðar, sérstaklega í Kjörvogshlíð. Þegar snjóþyngsli eru mikil er nánast útilokað að halda veginum opnum nema með verulegum kostnaði og talsverðri áhættu. Helmingamokstur er afar fátíður og sjaldan um hann beðið, enda leyfa fjárráð Árneshrepps ekki slíkt þrátt fyrir endurgreiðslureglu Vegagerðarinnar.
    Í endurgreiðslureglunni felst að ef heildarkostnaður sveitarfélagsins að frádreginni tölu, sem fengin er með því að margfalda saman íbúafjölda og fjárhæðina 1.007 kr., er hærri en 0 skal mismunurinn endurgreiddur, þó aldrei hærri upphæð en sem nemur helmingi af kostnaði sveitarfélagsins.

     3.      Hver er kostnaður sveitarfélagsins við helmingamokstur?
    Fram til þessa hefur lítið reynt á kostnað sveitarfélagsins. Á síðustu tveimur áratugum hefur hreppurinn sjaldan tekið þátt í moksturskostnaði á leiðinni frá Bjarnarfirði til Gjögurs, yfirleitt þá einungis við minni háttar hreinsun á leiðinni milli Djúpavíkur og Gjögurs. Samkvæmt bókhaldi Vegagerðarinnar hafa umbeðnir og bókaðir mokstrar fyrir hreppinn sl. fimm ár verið sem hér segir:
2010 0
2011 2
2012 4
2013 1
2014 1

    Kostnaður hreppsins, þegar virðisaukaskattur hefur verið endurgreiddur, er að meðaltali 91.820 kr. á ári síðastliðin fimm ár án endurgreiðslu Vegagerðarinnar, en 71.234 kr. að meðaltali að teknu tilliti til hennar.
    Þrátt fyrir gildandi reglur hefur Vegagerðin á undanförnum árum opnað veginn um Árneshrepp að jafnaði fjórum til sex sinnum á vetri á sinn kostnað í kjölfar óska frá heimamönnum og öðrum tengdum hagsmunaaðilum. Þetta hefur Vegagerðin gert við þær aðstæður að snjóþyngsli hafi verið innan þeirra marka að verkefnið hafi verið framkvæmanlegt, veðurspár fyrir næstu daga hagstæðar og snjóflóðahætta innan ásættanlegra marka. Frá 5. janúar á þessu ári hefur Vegagerðin tvisvar opnað leiðina á sinn kostnað og er áfallinn kostnaður við þessar opnanir um 1,5 millj. kr. Því miður hafa fremur fáir íbúar getað nýtt sér þennan mokstur.

     4.      Hvaða upplýsingar þurfa að liggja að baki beiðni sveitarfélagsins um mokstur á vegi um Árneshrepp utan umsamins moksturs?
    Reglan er sú að Vegagerðin greiðir helming kostnaðar við mokstur þegar beðið hefur verið um hann og greiðsla mótaðila hefur verið tryggð, enda komi moksturinn fleiri vegfarendum til góða en þeim sem um hann biður. Í þessu felst að beiðnin þarf að vera skrifleg með upplýsingum um hvernig moksturinn komi hugsanlega öðrum vegfarendum til góða – og þá sérstaklega heimamönnum.