Ferill 654. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1120  —  654. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006 (bótaréttur fanga).

Flm.: Silja Dögg Gunnarsdóttir, Páll Valur Björnsson, Brynhildur Pétursdóttir,
Páll Jóhann Pálsson, Elsa Lára Arnardóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir,
Björt Ólafsdóttir.


1. gr.

    Á eftir 2. mgr. 13. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Nú hefur maður á ávinnslutímabili skv. 15. gr. afplánað refsivist eða setið í gæsluvarðhaldi og stundað vinnu, nám eða starfsþjálfun til samræmis við lög um fullnustu refsinga og skal hann þá teljast tryggður samkvæmt lögum þessum eins og hann hefði verið í launaðri vinnu á sama tímabili, enda uppfylli hann önnur skilyrði til þess að teljast tryggður samkvæmt lögum þessum, þrátt fyrir e-lið 1. mgr. Vottorð frá Fangelsismálastofnun þessu til staðfestingar skal fylgja umsókn um atvinnuleysisbætur.

2. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „3. mgr. 13. gr.“ í 1. mgr. 58. gr. laganna kemur: 4. mgr. 13. gr.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta byggist á frumvörpum til breytinga á eldri lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 12/1997, sem voru lögð fram á 117., 120. og 131. löggjafarþingi (205., 413. og 646. mál) en hlutu ekki afgreiðslu.
    Atvinnuleysistryggingum er ætlað að tryggja einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir leita vinnu, sbr. til hliðsjónar 2. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Meðal almennra skilyrða þess að einstaklingar teljist tryggðir samkvæmt lögunum er að þeir hafi fengist við launuð störf eða verið sjálfstætt starfandi á tilteknu ávinnslutímabili áður en sótt er um atvinnuleysisbætur, sbr. e-lið 1. mgr. 13. gr. og e-lið 1. mgr. 18. gr. laganna. Flestum þeim sem afplána refsivist eða sitja í gæsluvarðhaldi stendur ekki til boða vinna sem lög nr. 54/2006 taka til og þeir ávinna sér því ekki rétt til atvinnuleysisbóta meðan á vistinni stendur. Að vísu geta þeir sem eru tryggðir samkvæmt lögunum og hverfa af vinnumarkaði þegar þeir taka út refsingu samkvæmt dómi geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu þar til þeir hafa lokið afplánun refsingar, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 54/2006. Ákvæði þetta á þó við um minni hluta fanga þar sem fæstir þeirra stunduðu vinnu reglubundið áður en afplánun hófst. Af þessu leiðir að oftar en ekki standa fangar utan atvinnuleysistryggingakerfisins þegar þeir ljúka afplánun. Að mati flutningsmanna eykur það líkur á því að þeir brjóti á ný af sér og stríðir þannig gegn því markmiði refsivörslukerfisins að vinna gegn afbrotum og hjálpa einstaklingum sem hafa brotið af sér að snúa við blaðinu.
    Í frumvarpinu er því lagt til að hafi fangi samkvæmt vottorði frá fangelsismálayfirvöldum stundað vinnu, nám eða starfsþjálfun sem í boði er innan viðkomandi fangelsis til samræmis við lög um fullnustu refsinga, nr. 49/2005, sbr. 18. og 19. gr. laganna, ávinni hann sér rétt til atvinnuleysisbóta vegna þess tímabils eins og hann hefði verið í launaðri vinnu. Af því leiðir að þeir sem lokið hafa afplánun geta talist tryggðir þótt þeir teljist ekki launamenn, sbr. a-lið 3. gr., og þótt þeir uppfylli ekki skilyrði um launuð störf á ávinnslutímabili, sbr. e-lið 1. mgr. 13. gr. Aftur á móti verður viðkomandi að uppfylla önnur skilyrði tryggingaverndar, svo sem um virka atvinnuleit og búsetu, sbr. a- og c-liði sömu málsgreinar.
    Rétt er að leggja ávinnslu vegna þess tímabils sem einstaklingur afplánar refsivist eða situr í gæsluvarðhaldi og stundar vinnu, nám eða starfsþjálfun til samræmis við lög um fullnustu refsinga að jöfnu við ávinnslu samkvæmt reglum 15. gr. við útreikning á tryggingarhlutfalli. Hafi einstaklingur til dæmis á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur afplánað tveggja mánaða refsivist og stundað vinnu, nám eða starfsþjálfun allan þann tíma og verið í fullu launuðu starfi tvo mánuði bæri að leggja þann tíma saman þannig að viðkomandi teldist tryggður að einum þriðja hluta, sbr. 2. mgr. 15. gr., að öðrum skilyrðum uppfylltum.