Ferill 663. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1130  —  663. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um staðlaðar verðmerkingar fyrir mælieiningaverð.


Flm.: Brynhildur Pétursdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
Willum Þór Þórsson, Halldóra Mogensen, Vilhjálmur Bjarnason.


    Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að setja reglur um staðlaðar verðmerkingar sem feli í sér að mælieiningaverð skuli auðkennt sérstaklega og komi ávallt skýrt fram á verðmerkingum. Reglurnar verði settar fyrir 1. september 2015.

Greinargerð.

    Verðmerkingar eru forsenda þess að neytendur öðlist góða verðvitund. Í verðvitund felst að neytendur hafi góða yfirsýn yfir það hvað geti talist góð kaup og hvenær álagning seljenda er meiri en góðu hófi gegnir. Aðeins með góðri verðvitund geta neytendur veitt seljendum það aðhald sem nauðsynlegt er. Til að auðvelda neytendum að greina rétt verð vöru er lagt til að seljendum verði skylt að gefa upp mælieiningaverð. Söluverð vöru er endanlegt verð í íslenskum krónum fyrir hverja einingu vöru eða tiltekið magn vöru að meðtöldum sköttum og opinberum gjöldum en mælieiningaverð er verð fyrir tiltekið magn af ákveðinni vöru, t.d. hvað eitt kíló, einn lítri, ein tafla o.s.frv. af hverri vöru kostar. Mælieiningaverð er mikilvægt til að efla verðvitund neytenda. Mælieiningaverð hjálpar neytendum að gera verðsamanburð milli sams konar vara sem kunna að vera seldar í misstórum einingum sem gerir það að verkum að verðsamanburður kann að vera erfiður ef mælieiningaverð er ekki gefið upp. Þar sem verðlagning er almennt frjáls á Íslandi sinna neytendur mikilvægu hlutverki á markaði sem nokkurs konar verðlagseftirlit. Til að neytendur geti sinnt þessu hlutverki er mikilvægt að allar vörur séu skýrt verðmerktar og þannig að það auðveldi verðsamanburð.
    Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að innanríkisráðherra verði falið að setja reglur um mælieiningaverð sem feli í sér að mælieiningaverð skuli auðkennt sérstaklega og að slíkt verð komi ávallt fram á verðmerkingum og sé skýrt aðgreint frá heildarverði vörunnar. Mælieiningaverð komi þannig fram t.d. á gulum grunni eða á annan auðveldlega auðgreinanlegan hátt á verðmerkingum vara. Eðli málsins samkvæmt mundu reglur sem þessar fyrst og fremst taka til almennra dagneysluvara sem seldar eru í matvöruverslunum.
    Árið 2011 voru settar reglur af Neytendastofu um verðmerkingar og einingaverð við sölu á vörum. Skv. 1. mgr. 3. gr. reglnanna skulu fyrirtæki skýrlega merkja vörur sínar með réttu söluverði og einingaverði (mælieiningaverði) í íslenskum krónum. Nokkrar undantekningar eru frá skyldu seljenda til að verðmerkja vörur með söluverði en þá skal ávallt skýrlega tilgreina mælieiningaverð. Þetta á við þegar vara er t.d. aðeins seld eftir vigt líkt og ávextir og kjöt og fiskur í kjötborði. Í 4. gr. eru reglur um framkvæmd verðmerkinga á vörum og í 5. gr. eru nánari reglur um í hvaða mælieiningum mælieiningaverð skuli gefið upp. Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að skylda til að mælieiningaverð verði ávallt skýrt aðgreint frá söluverði, t.d. á gulum grunni við hlið söluverðsins. Í Svíþjóð hafa verið settar reglur um framkvæmd merkinga á mælieiningaverði vara og þar er mælieiningaverðið ávallt gefið upp á gulum grunni til að auðvelda neytendum verðsamanburð. Í raun má segja að einna mikilvægast sé að mælieiningaverðið komi skýrt fram enda er það hið raunverulega verð sem neytandi greiðir fyrir tiltekið magn vöru. Með skýrum merkingum á mælieiningaverði er neytendum betur tryggður réttur þeirra til að geta séð með einföldum hætti hvert raunverulegt verð vöru er sem skilar sér aftur í betra aðhaldi með verðlagningu seljanda. Reglur sem þessar munu því tryggja betur aðhald með markaðnum og þannig skerpa á samkeppni milli seljenda með því að auðvelda verðsamanburð neytenda.