Ferill 539. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1213  —  539. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Sigurði Erni Ágústssyni
um byggðakvóta.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Kemur að mati ráðherra til greina að festa á sveitarfélög byggðakvóta sem þau gætu selt eða leigt frá sér og þá nýtt það fjármagn sem fengist í nýsköpun í heimabyggð?

    Samkvæmt gildandi lögum er meginreglan sú að byggðakvóta er úthlutað til veiða og vinnslu í þeim sveitarfélögum sem fá byggðakvóta til tímabundinnar ráðstöfunar. Með reglugerð um veiðar í atvinnuskyni er heildarmagn kvótans ákveðið fyrir viðkomandi fiskveiðiár og er gefin út sérstök reglugerð um úthlutun byggðakvóta til einstakra sveitarfélaga. Ráðuneytið gefur jafnframt út sérstaka reglugerð um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa. Í henni koma fram almenn skilyrði um úthlutun hans til einstakra fiskiskipa sem skrásett eru í byggðarlaginu. Sveitarstjórnir geta sett fram rökstuddar tillögur um að vikið verði frá almennu skilyrðunum, enda séu tillögur þeirra byggðar á málefnalegum og staðbundnum ástæðum og til hagsbóta fyrir viðkomandi byggðarlag. Í lögum er engin heimild fyrir sveitarfélög til að selja eða leigja byggðakvóta með þeim hætti sem spurt er um.
    Þá hefur síðustu tvö ár verið úthlutað sérstökum byggðakvóta frá Byggðastofnun. Þær heimildir eru til lengri tíma í senn, allt að fimm ára, og eru bundnar við tilteknar fiskvinnslur eða svæði. Gerður er samningur um nýtingu aflaheimildanna þar sem krafa er um mótframlag, t.d. í aflaheimildum.
    Vorið 2014 samþykkti Alþingi breytingu á 8. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Í henni fólst að ráðherra skal eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um meðferð og ráðstöfun þess aflamagns sem til ráðstöfunar er til atvinnu-, félags- og byggðauppbyggingar eða 5,3% úthlutaðra aflaheimilda. Byggðakvótar falla undir þessi 5,3%.
    Í ráðuneytinu er unnið að gerð slíkrar tillögu til þingsályktunar. Þingmönnum úr öllum flokkum hefur verið boðið að taka þátt í vinnu við undirbúning hennar og sjónarmiða hagsmunaaðila til þessara atvinnu-, félags-, og byggðaráðstafana verið óskað. Á þessum vettvangi verður fjallað á heildstæðan hátt um ráðstafanir þeirra aflaheimilda sem falla undir framangreind 5,3%. Að mati ráðherra er eðlilegt og sjálfsagt í þeirri vinnu að velta upp þeim spurningum sem lagðar eru fram í fyrirspurn þessari og þá hvort nýting á þessum aflaheimildum í atvinnu-, félags- og byggðatilliti væri betri ef heimildirnar yrðu seldar að hluta eða öllu leyti og tekjurnar nýttar til uppbyggingar á viðkomandi svæði.