Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1399, 144. löggjafarþing 785. mál: gjaldeyrismál.
Lög nr. 27 7. júní 2015.

Lög um breytingu á lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, með síðari breytingum (reglur um fjármagnshöft, afnám undanþágna o.fl.).


1. gr.

     Við 2. mgr. 13. gr. c laganna bætast tveir nýir málsliðir sem orðast svo: Þá er lögaðilum sem sæta slitameðferð skv. 101. gr. laga um fjármálafyrirtæki, lögaðilum sem lokið hafa slitameðferð skv. 103. gr. a sömu laga og lögaðilum sem stofnaðir hafa verið í tengslum við efndir nauðasamnings framangreindra lögaðila óheimilt að eiga gjaldeyrisviðskipti, þar sem innlendur gjaldeyrir er hluti af viðskiptunum, við aðra aðila en viðskiptabanka eða sparisjóði hér á landi. Takmörkun 3. málsl. þessarar málsgreinar nær ekki til gjaldeyrisviðskipta sem felast í því að aðili samkvæmt þeim málslið nýtir erlendan gjaldeyri í sinni eigu við úthlutun til kröfuhafa sem eiga kröfur í innlendum gjaldeyri í tengslum við gjaldþrotaskipti eða efndir nauðasamnings.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. g laganna:
  1. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Lögaðilar sem sæta slitameðferð skv. 101. gr. laga um fjármálafyrirtæki, lögaðilar sem lokið hafa slitameðferð skv. 103. gr. a sömu laga og lögaðilar sem stofnaðir hafa verið í tengslum við efndir nauðasamnings framangreindra lögaðila falla ekki undir undanþágu 1. málsl. vegna lántöku og lánveitinga milli félaga innan sömu samstæðu.
  2. 1. tölul. 3. mgr. orðast svo: Lánstími sé eigi skemmri en tvö ár og greiðslur af lánasamningum séu ekki á grundvelli ákvæða sem leitt geta til þess að lántaka beri skylda til eða sé heimilt að hraða endurgreiðsluferli láns umfram fyrir fram skilgreindar afborganir eða uppgreiðslu fyrir lokagjalddaga lánsins.


3. gr.

     Við 2. mgr. 13. gr. h laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Lögaðilar sem sæta slitameðferð skv. 101. gr. laga um fjármálafyrirtæki, lögaðilar sem lokið hafa slitameðferð skv. 103. gr. a sömu laga og lögaðilar sem stofnaðir hafa verið í tengslum við efndir nauðasamnings framangreindra lögaðila falla ekki undir undanþágu 1. málsl. vegna ábyrgða milli félaga innan sömu samstæðu, nema slíkar ábyrgðir séu veittar vegna vöru- og þjónustuviðskipta eða ef lán sem ábyrgð er veitt vegna uppfyllir skilyrði 3. mgr. 13. gr. g.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. j laganna:
  1. Við 2. málsl. 1. mgr. bætist: að því gefnu að lánstími sé eigi skemmri en tvö ár eða lán hafi verið veitt vegna greiðslu til erlends aðila vegna vöru- og þjónustuviðskipta.
  2. Við 5. mgr. bætast tveir nýir málsliðir sem orðast svo: Jafnframt skulu afborganir af lánum og greiðslur til erlendra aðila vegna áfallinna ábyrgða, innan samstæðu, ekki undanþegnar bannákvæði 2. og 3. mgr. 13. gr. c, nema slík lán eða ábyrgðir hafi verið veittar í tengslum við vöru- og þjónustuviðskipti eða uppfylli skilyrði 3. mgr. 13. gr. g. Afborganir af lánum og greiðslur til erlendra aðila vegna áfallinna ábyrgða, þ.m.t. innan samstæðu, þar sem lántaki og/eða ábyrgðaraðili er lögaðili sem sætir slitameðferð skv. 101. gr. laga um fjármálafyrirtæki, lögaðili sem lokið hefur slitameðferð skv. 103. gr. a sömu laga eða lögaðili sem stofnaður hefur verið í tengslum við efndir nauðasamnings framangreindra lögaðila skulu ekki undanþegnar bannákvæði 2. og 3. mgr. 13. gr. c, nema slík lán eða ábyrgðir hafi verið veittar í tengslum við vöru- og þjónustuviðskipti.
  3. 8. mgr. orðast svo:
  4.      Fyrirframgreiðslur, greiðslur vegna gjaldfellinga eða gjaldþrotaskipta og greiðslur af lánasamningum sem uppfylla ekki skilyrði 13. gr. g teljast ekki til samningsbundinna afborgana í skilningi 1. mgr. Enn fremur teljast greiðslur og önnur úthlutun samkvæmt ákvæðum nauðasamnings, greiðslur samkvæmt skuldagerningum útgefnum í tengslum við nauðasamning eða greiðslur sem framkvæmdar eru á annan hátt, þegar framangreindar greiðslur eru gerðar í þeim tilgangi að úthluta eignum aðila sem sætir slitameðferð eða sem hefur lokið slitameðferð með nauðasamningi, ekki til samningsbundinna afborgana í skilningi 1. mgr.


5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. m laganna:
  1. 2. málsl. 2. mgr. orðast svo: Beinar eða óbeinar fjárfestingar í afleiðusamningum og kröfum á hendur aðilum sem sæta slita- eða gjaldþrotaskiptameðferð, eða sem lokið hafa slita- eða gjaldþrotaskiptameðferð með nauðasamningi sem felur í sér úthlutun eigna til kröfuhafa, teljast ekki til nýfjárfestingar.
  2. Í stað orðanna „og tekjur vegna útflutningsviðskipta teljast ekki til nýs innstreymis erlends gjaldeyris“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur: tekjur vegna útflutningsviðskipta og annar skilaskyldur erlendur gjaldeyrir, sbr. 13. gr. l, teljast ekki til nýs innstreymis erlends gjaldeyris.


6. gr.

     Í stað orðanna „eru undanþegnir 13. gr. e, 1. mgr. 13. gr. f, 13. gr. g, 13. gr. h og 13. gr. l“ í 4. mgr. 13. gr. n laganna kemur: eru undanþegnir 13. gr. l, í öðrum tilvikum en vegna lántöku skv. 13. gr. g.

7. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað binda lög þessi alla þegar við birtingu.

Samþykkt á Alþingi 7. júní 2015.