Ásmundur Friðriksson

Ásmundur Friðriksson
  • Embætti: 4. varaforseti
  • Kjördæmi: Suðurkjördæmi
  • Þingflokkur: Sjálfstæðisflokkur

Þingseta

Alþingismaður Suðurkjördæmis síðan 2013 (Sjálfstæðisflokkur).

4. varaforseti Alþingis 2023–.

Æviágrip

Fæddur í Reykjavík 21. janúar 1956. Foreldrar: Friðrik Ásmundsson (fæddur 26. nóvember 1934, dáinn 19. nóvember 2016) skipstjóri og skólastjóri og Valgerður Erla Óskarsdóttir (fædd 24. maí 1937, dáin 6. nóvember 2015). Maki: Sigríður Magnúsdóttir (fædd 26. janúar 1958) matráður. Foreldrar: Magnús G. Jensson og Kristín Guðríður Höbbý Sveinbjörnsdóttir. Börn: Friðrik Elís (1975), María Höbbý (1977), Ása Hrönn (1982), Erla (1984), Magnús Karl (1991).

Gagnfræðapróf Skógaskóla 1973.

Stundaði netagerð og sjómennsku 1970–1972. Vann við hreinsun Heimaeyjar sumarið 1973. Verkstjóri hjá Viðlagasjóði við hreinsun, endurreisn og uppgræðslu Heimaeyjar 1974–1978. Framleiðslu- og yfirverkstjóri hjá Vinnslustöð Vestmannaeyja 1978–1986. Sjálfstætt starfandi blaðamaður 1980–2003. Framkvæmdastjóri Samkomuhúss Vestmannaeyja 1986. Rak fiskvinnslufyrirtækið Kútmagakot ehf. 1988–2003. Framkvæmdastjóri Knattspyrnudeildar Keflavíkur 2004. Verkefnastjóri Ljósanætur 2006. Verkefnastjóri í atvinnu- og menningarmálum hjá Reykjanesbæ 2008. Bæjarstjóri Sveitarfélagsins Garðs 2009–2012.

Í þjóðhátíðarnefndum Vestmannaeyja 1974–1996. Formaður Handknattleiksdeildar Þórs 1974–1978. Formaður Eyverja, félags ungra Sjálfstæðismanna, 1981–1984. Í stjórn SUS 1983–1987. Í flokksráði Sjálfstæðisflokksins og í stjórn fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Eyjum 1982–1986. Varabæjarfulltrúi í bæjarstjórn Vestmannaeyja 1982–1986. Í stjórn Herjólfs hf. 1982–1991. Í stjórn Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja 1982–1991. Formaður íþrótta- og tómstundaráðs Vestmannaeyja 1982–1986. Ritstjóri Fylkis, málgagns Sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum, 1986–1988. Formaður ÍBV 1994–1999. Formaður knattspyrnudeildar ÍBV 1999–2002. Stofnandi og formaður hollvinasamtaka Heilsustofnunar Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði, NLFÍ, 2005–2011. Í stjórn Félags myndlistarmanna í Reykjanesbæ 2007–2008. Stofnandi Lista- og menningarfélagsins í Garði 2009. Stjórnandi listaverkefnisins Ferskir vindar í Garði frá 2010. Formaður Sjálfstæðisfélagsins í Garði 2012–2013. Formaður Þroskahjálpar á Suðurnesjum frá 2014. Í samráðsnefnd um veiðigjöld síðan 2017.

Alþingismaður Suðurkjördæmis síðan 2013 (Sjálfstæðisflokkur).

4. varaforseti Alþingis 2023–.

Atvinnuveganefnd 2013–2016, 2017, 2017–2021 og 2023–, velferðarnefnd 2013–2016, 2017–2021 og 2021–, kjörbréfanefnd 2016, umhverfis- og samgöngunefnd 2017.

Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins 2017–2021, Íslandsdeild Norðurlandaráðs 2021–2023, Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins 2021–2023.

Æviágripi síðast breytt 20. september 2023.

Áskriftir