Guðmundur Steingrímsson

Guðmundur Steingrímsson

Þingseta

Alþingismaður Norðvesturkjördæmis 2009–2013 (Framsóknarflokkur, utan flokka), alþingismaður Suðvesturkjördæmis 2013–2016 (Björt framtíð).

Varaþingmaður Suðvesturkjördæmis október 2007, september og október 2008 (Samfylkingin).

Æviágrip

Fæddur í Reykjavík 28. október 1972. Foreldrar: Steingrímur Hermannsson (fæddur 22. júní 1928, dáinn 1. febrúar 2010) verkfræðingur, alþingismaður og ráðherra, sonur Hermanns Jónassonar (fæddur 25. desember 1896, dáinn 22. janúar 1976) alþingismanns og ráðherra, og Guðlaug Edda Guðmundsdóttir (fædd 21. janúar 1937) húsmóðir, ritari og flugfreyja. Maki 1: Marta María Jónsdóttir (fædd 31. júlí 1974) myndlistarkona. Þau skildu. Foreldrar: Jón Gunnar Skúlason og Hildigunnur Ólafsdóttir. Maki 2: Alexía Björg Jóhannesdóttir (fædd 17. febrúar 1977) leikkona. Foreldrar: Jóhannes Björgvin Björgvinsson og Sigríður Hafdís Melsted. Sonur: Jóhannes Hermann (2009). Dóttir Guðmundar og Sigríðar Liv Ellingsen: Edda Liv (2004).

Stúdentspróf MR 1992. BA-próf í íslensku og heimspeki HÍ 1995. Framhaldsnám í heimspeki við kaþólska háskólann í Leuven, Belgíu, 1996–1997. Meistarapróf í heimspeki frá Uppsalaháskóla í Svíþjóð 1998. Meistarapróf í heimspeki frá Oxfordháskóla í Bretlandi 2001. Stundaði framhaldsnám í hagfræði við HÍ.

Blaðamaður meðfram námi á Tímanum og DV. Starfandi tónlistarmaður í hljómsveitinni Skárren ekkert, síðar Ske, frá 1992. Dagskrárgerðarmaður í hlutastarfi á Ríkisútvarpinu 1998–2005. Starfsmaður í almannatengslum á auglýsingastofunni ABX 2002. Blaðamaður á Fréttablaðinu 2003–2004, pistlahöfundur þar 2003–2009. Dagskrárgerðarmaður á Skjá 1 og sjónvarpsstöðinni Sirkus 2004–2006. Aðstoðarmaður borgarstjóra 2007–2008. Sjálfstæður atvinnurekandi á sviði textagerðar og hugmyndasmíði fyrir auglýsingar, almannatengsl og ráðgjöf af ýmsu tagi 2004–2009.

Formaður stúdentaráðs Háskóla Íslands 1995–1996, fulltrúi stúdenta í háskólaráði 1994–1996. Í stjórn Iceland Naturally, Norður-Ameríku 2007–2009. Í stjórn Landverndar 2008–2009, í nefnd um eflingu græna hagkerfisins 2010–2013, formaður verkefnis um notendastýrða persónulega þjónustu 2011–2013. Formaður Bjartrar framtíðar 2012–2015.

Alþingismaður Norðvesturkjördæmis 2009–2013 (Framsóknarflokkur, utan flokka), alþingismaður Suðvesturkjördæmis 2013–2016 (Björt framtíð).

Varaþingmaður Suðvesturkjördæmis október 2007, september og október 2008 (Samfylkingin).

Félags- og tryggingamálanefnd 2009–2011, samgöngunefnd 2009–2011, velferðarnefnd 2011–2013, efnahags- og viðskiptanefnd 2013–2016, allsherjar- og menntamálanefnd 2015–2016.

Íslandsdeild þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu 2013–2016.

Æviágripi síðast breytt 31. október 2016.

Áskriftir