17.11.1982
Neðri deild: 10. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í B-deild Alþingistíðinda. (429)

4. mál, lokunartími sölubúða

Flm. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir 4. máli á 105. löggjafarþingi, frv. til l. um lokunartíma sölubúða. Flm. eru auk mín hv. þm. Guðrún Helgadóttir, Magnús H. Magnússon, Jón Baldvin Hannibalsson, Árni Gunnarsson, Sighvatur Björgvinsson og Karvel Pálmason. Þetta frv. hefur efnislega shlj. verið flutt einu sinni áður, þ.e. á síðasta þingi. Þá féll það og þá voru flm. auk mín hv. þm. Guðrún Helgadóttir og Árni Gunnarsson.

Þetta frv., herra forseti, er ákaflega einfalt í sniðum. Þannig er, að í lögum sem standa frá 1936 og standa raunar allar götur síðan 1917 að efni og stofni eru ákvæði sem heimila sveitarstjórnum að setja boð og bönn um hvernig verslanir skuli vera opnar eða lokaðar. Í raun hefur þetta komið þannig út, að sveitarstjórnir, — ég nefni sveitarstjórnir í mínu kjördæmi Reykjavík, sem hefur verið með einni undantekningu, eitt kjörtímabit, um áratuga skeið skipuð meiri hl. eins stjórnmálaflokks, þ.e. Sjálfstfl., — hafa sett mjög skýr og hamlandi ákvæði um það, með hverjum hætti verslanir skuli vera lokaðar. Ég þarf ekki að segja það neytendum t.d. á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Við þurfum ekki annað en horfa á bílastrauminn frá Reykjavík og út á Seltjarnarnes, a.m.k. á hverjum laugardegi, þar sem fólk er að versla sem af einhverjum ástæðum hefur ekki komið því við fyrr, en er auðvitað í sínum fulla rétti með það og öðrum kemur það ekkert við.

Það er, herra forseti, staðreynd um það þjóðfélag sem við lifum í að á munstri þess hafa verið að eiga sér stað verulegar breytingar. Við einhver ákveðin aldursmörk, ég vil ekki segja hvar nákvæmlega, er það svo, m.a. vegna efnahagsástæðna, — það er auðvitað hver maður í sínum fulla rétti að dæma og meta hvað hann vill og hvers hann getur aflað sér og sínum, — að það þykja ekki mannsæmandi kjör nema bæði hjóna eða fólk í sambýli vinni utan heimilis, sé um slíkt að ræða. Þetta hefur auðvitað gerbreytt háttum í samfélaginu og þessi staðreynd, þó ekki kæmi annað til, æpir á nauðsyn þess að þessari heimild til þvingunarreglna settum af sveitarstjórnum sé aflétt. Fyrir þessu má hafa mörg fleiri rök.

Það hlýtur þó að vekja pólitíska athygli með hverjum hætti atkv. skiptust hér á 104. löggjafarþingi, þegar atkv. um þetta voru greidd. En í grófum dráttum, þó svo menn hafi hagsmuni verslunarfólks sífellt á orði í þessum efnum, greiða þeir atkv. með frv. af þessu tagi sem skilgreindir eru til vinstri vítt og breitt á sviðinu, og ég hef alla fyrirvara á því að öðru leyti. Þeir sem skilgreindir eru til hægri, og ég hef enn alla fyrirvara á þessari orðanotkun, sem auðvitað er að mörgu leyti mjög viljandi, greiða atkv. á móti. Þeir vilja þvinganir, þeir vilja boð og bönn. Frelsishetjurnar í héraði eru boða- og bannamenn á Alþingi. Og hverju skyldi það sæta?

Sem fskj. nr. 2 með þessu frv. er birt greinargerð sem Kaupmannasamtök Íslands sendu þeirri hv. nefnd sem um málið fjallaði á s.l. þingi, þ.e. allshn. Nd. Hún óskaði auðvitað eftir umsögnum hagsmunaaðila, svo sem henni er bæði rétt og skylt, og Kaupmannasamtökin sendu álit sitt. Nú er ekki frelsisviljanum fyrir að fara. Þeir segja m.a.:

„Eins og aðrar starfsstéttir á það fólk, sem vinnur verslunarstörf, fullan rétt á að skynsamleg löggjöf sé í gildi um atvinnu þess.“

Þetta er auðvitað rangt, út í hött. Vitaskuld mun öll almenn löggjöf eftir sem áður — og margt er í löggjöf; orlofsmál, eitt og annað, — eiga við um verslunarfólk eins og allar aðrar starfsstéttir. Það sem verið er að leggja til er að sérlög um verslunarfólk séu afnumin.

Það er einkennilegt, að þeir sem mótmæla þessu af mestri hörku eru Kaupmannasamtök Íslands með hagsmuni starfsfólksins á vör. En er það nú víst að þeir tali satt og rétt, að það séu raunverulega hagsmunir starfsfólksins sem þeir eru að tala um?

Þeir segja áfram, frelsishetjurnar í Kaupmannasamtökunum: „Í öllum nágrannalöndum okkar eru í gildi lög um afgreiðslutíma verslana sem koma í veg fyrir vinnuþrælkun“ — Ég bið herra forseta og þá hv. alþm. sem á mig hlýða að taka eftir hinni marxísku orðanotkun Kaupmannasamtaka Íslands. — „og mismunun á opnunartíma verslana eftir sveitarfélögum.“ En í fskj. nr. 1 er hins vegar samantekt sem gerð hefur verið af Kaupmannasamtökum Íslands um afgreiðslutíma verslana í nokkrum löndum. Kjarni málsins er sá, að þetta er rangt hjá þeim. Í fleiri löndum en ekki eru engin lög. Ég nefni Frakkland, ég nefni jafnaðarmenn í Svíþjóð, sem afnámu þessi haftalög, sem auðvitað kunna að hafa verið sjálfsögð, góð og gild á kreppuárunum, árið 1972. Ég nefni aðeins tvö lönd, en hv. þm. geta kynnt sér fskj. nr. 1. Aths. Kaupmannasamtaka Íslands er því alveg út í hött. Þetta er ekki svona. Og ég ítreka og undirstrika: Jafnaðarmenn í Svíþjóð afnámu lög af þessu tagi 1972 og er augljóst hvernig hin stjórnmálalega skipting er þar í landi og af ástæðum sem auðvitað blasa við hverju barni. Og þeir halda áfram að segja:

„Kaupmannasamtök Íslandsbeina því eindregið þeim tilmælum til hv. Alþingis, að sett verði nú þegar lög um afgreiðslutíma verslana, þar sem verslunarfólk verði tryggt gegn óhóflegum vinnutíma og verslun gegn stórauknum kostnaði, sem óhjákvæmilega kæmi fram í hærra vöruverði.“

M.ö.o. eru þeir að tala fyrir hagsmunum verslunarfólksins fyrst og fremst. Og síðan biðja þeir um löggjöf, ekki bara reglugerðarheimildir til sveitarstjórna, sem nú er ótæpilega beitt og nú eru í lögum, heldur um löggjöf, um miklu harðari reglur um hvernig verslunin skuli hegða sér.

Ég vil í framhaldi af þessu, herra forseti, segja nokkur orð um Sjálfstfl. og heimspeki hans.

Sjálfstfl. er auðvitað ekki frjálslyndur flokkur í neinum skilningi þess orðs, og veit ég að hv. 3. þm. Sjálfstfl. í Reykjavík mun koma hér í ræðustól á eftir og viðurkenna það karlmannlega. Sjálfstfl. er auðvitað ekki frjálslyndur flokkur. Sjálfstfl. er hagsmunabandalag hafta hvenær sem þau eiga við. Sjálfstfl. stóð auðvitað ekki að afnámi haftanna í upphafi viðreisnar. Halda menn að stórkaupmennirnir í Reykjavík, fjölskyldurnar sem höfðu hóftin og innflutningsleyfin, hafi viljað afnema þau? Vitaskuld er sú saga með allt öðrum hætti og miklu flóknari. Sama á við í málum eins og vaxtamálum og sama á við mál eins og opnunartíma sölubúða.

Þetta hagsmunabandalag gengur auðvitað blint erinda hinna stærri kaupmanna. Það er svo augljóst að það blasir við hverju barni að hér er verið að flytja mál sem er um hagsmuni kaupmannsins á horninu, sem kallað er, gegn hinum stærri kaupmönnum og mér er það mætavel ljóst og dreg á það enga dul. Vitaskuld stenst hinn smái kaupmaður ekki samkeppni í þjóðfélagi sem stöðugt verður hraðara og tæknivæddara. Hann býður annars konar þjónustu og sumpart er hún dýrari, það er alveg rétt, þessi litlu fjölskyldufyrirtæki t.d. Svarið er þá, að þeir geta veitt þjónustu á öðrum tímum, sem einnig hentar neytendum. — Ég endurtek og undirstrika: sem einnig hentar neytendum. Það er þetta sem er kjarni málsins. Og ég veit að hv. þm. Sjálfstfl. munu, sem venjulega þegar svona mál ber á góma, setja hausinn ofan í bringu og hendur upp í loft og greiða atkv. á móti og fella frv. Það eru þeirra ær og kýr og þeirra regla. (Gripið fram í.) Nei, og ég á eftir að koma að ykkur, hv. þm.

Kjarni málsins er sá í máli sem þessu, að þetta haftabandalag í hugarins málum og í stjórnmálum gengur vitaskuld erinda hinna stærri kaupmanna og vitaskuld er frelsi þeirra hvergi orðað nema heima í héraði og í forustugreinum í Morgunblaðinu. Þau fjögur ár sem ég hef starfað hér á Alþingi hef ég séð þessa sveit birtast sem óvini frelsis hins smáa í hverju málinu á fætur öðru. Þetta er táknrænt mál um það hvernig Sjálfstfl. er í raun og veru sem klassískur frjálslyndur flokkur, eins og hann var að hluta til um skeið, handónýtur, liðónýtur, vegna þess að hann er auðvitað hagsmunabandalag þeirra sem yfir miklu kapítali ráða. Það er svo einfalt. (Gripið fram í: Hvenær varð hann frjálslyndur?) Hvenær? Sumpart á tíð Jóns Þorlákssonar. (Gripið fram í.) Já, svoleiðis.

Það er þetta sem er kjarni málsins. Ef við hönnuðum betra fjölmiðlakerfi, ekki svona niðurnjörvað flokksblaðakerfi, endurtökum ekki þá hörmungarsögu sem gerðist með sameiningu síðdegisblaðanna og höfum ekki svona valdnjörvað ríkisfjölmiðlakerfi, sem auðvitað eltir valdið í hvaða mynd sem það birtist, mundi þjóðin vita meira um hvers konar flokkur Sjálfstfl. er, t.d. í smærri málum af því tagi sem hér er verið að reifa. En valdhlýðnin sem hér lekur um salina, sem lekur út yfir fjölmiðlakerfið allt, heldur blekkingunum uppi um að þetta sé frjálslyndur flokkur almennra leikreglna fyrst og fremst, sem auðvitað er ekki og hefur aldrei verið.

Þetta litla mál, sem auðvitað er litið samanborið við það að sérhvert barn í landinu skuldar 4 þús. Bandaríkjadali, það skal viðurkennt að það er lítið andspænis slíkum málum, segir mikla sögu. Það er það sem er kjarni málsins að það segir fyrst og síðast söguna af hinu ónýta hagsmunabandalagi kapítalmannanna í landinu, sem aldrei hefur beðið um almennar leikreglur nokkrum manni til handa, heldur berst um á hæl og hnakka í hagsmunaskyni fyrir örfáa aðila, einokun hér, einokun þar, kröfuna um að hlýtt sé örfáum stærri kaupmönnum og stórmörkuðum þegar minni maðurinn í þessum viðskiptum óskar eftir frelsi sér til handa.

Jónas Kristjánsson, leiðarahöfundur Dagblaðsins, skrifaði ágætan leiðara um svona mál eitthvert vorið, þegar þjóðfélagið var að fara á aðra röndina í deilum um hvernig í þessum efnum ætti að hegða sér, og hann sagði: Þetta eru deilur milli lata kaupmannsins og duglega kaupmannsins. — Ég vil taka undir það. Af hverju má sá sem nennir að hafa opið ekki hafa opið? Af hverju má sá sem nennir að versla til kl. 11 ekki versla kl. 11? Af hverju má sá sem er að vinna til miðnættis og vill versla það ekki? Leyfum fólkinu að velja sjálft, ef það vill. Ef kaupmaðurinn vill versla, þá versli hann. Ef ég vil versla við hann má ég versla við hann. Ég vil ekki að hv. 3. þm. Reykv., Albert Guðmundsson, eða hv. 1. þm. Reykv., Geir Hallgrímsson, eða hv. 7. þm. Reykv., Guðmundur J. Guðmundsson, segi mér hvenær ég á að versla. Það er þetta sem er kjarni málsins.

Annar kapítuli þessarar sorgarsögu, herra forseti, er framkoma þeirra sem stundum hafa réttilega verið kallaðir verkalýðsrekendur í þessu máli. Þannig er, herra forseti, að stjórn Verslunarmannafélags Reykjavíkur, sem er að minni hyggju amerískt reifaraverkalýðsfélag, hefur ályktað á móti þessu máli. Ég vil, herra forseti, að embætti forseta geti glöggvað sig á hvað er stjórn Verslunarmannafélags Reykjavíkur. Það er nefnilega þannig, að til þess að bjóða fram í stjórn Verslunarmannafélags Reykjavíkur þarf að leggja fram lista með 262 nöfnum. Félagið, segir mér hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, telur rúmlega 8 þúsund manns. Ég hélt að það væru 11, en látum það vera. Eins og sést eru þetta ekki beinlínis aðferðir sem stuðla að því að litli maðurinn geti haft áhrif, enda er það svo í stjórn Verslunarmannafélags Reykjavíkur að þar hefur verið sjálfkjörið í 30 ár og lái hver litla manninum sem vill.

Það hefur alltaf verið mikill vinskapur, hvernig sem á því stendur, milli stjórnar Verslunarmannafélags Reykjavíkur og Kaupmannasamtakanna. — Ég tel mig hafa rétt til að tala um þau því að þau hafa heldur betur svarað mér í blöðum og annars staðar. Þetta á að heita níð og rógur og við skulum láta það heita það. — En þetta demókrataískasta af öllum demókrataískum félögum er á móti þessu líka og segist vera að ganga erinda verslunarfólks. Af einhverjum ástæðum notar þetta félag lífeyrissjóði sína — það tekur 1% af launafólki á mánuði í félagsgjöld í samvinnu við Kaupmannasamtök Íslands til þess að byggja í Reykjavík einhverja glæsilegustu höll sem þar sést. Í Ameríku þætti þetta þó nokkuð vel af sér vikið og þekkja þeir þó sögurnar tvennar og þrennar.

Það er þetta sem átt er við. Ég leyfi mér því að segja við hv. alþm. að ég tek ekki hið minnsta mark á hvað stjórn Verslunarmannafélags Reykjavíkur hefur um þetta mál að álykta, þar eð ég sjálfur þekki fullt af fólki sem vinnur í verslunum.

Til undirstrikunar því hvílíkt grín þessi ályktun er minni ég á að fleiri eru í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur en fólk sem vinnur í verslunum. Hvað með svokallaðar sjoppur í Reykjavík? Þar er fólk að vinna til kl. hálftólf. Af hverju er þeim ekki lokað kl. 6 með lögum? Þetta held ég að séu hagsmunir einhverra annarra en verslunarfólksins. Hér er fólk að vinna á sínum í fyrirtækjum langt fram á nótt í stórum stíl. Af hverju er það ekki bannað? Af hverju heitir það ekki vinnuþrælkun? Fólk vinnur skrifstofustörf og hvað eina.

Nei. Leiðin er auðvitað ekki að setja lög eða reglugerðir sem banna fólki að vinna. Leiðin er sú, að sterkt gott og vandað verkalýðsfélag semji svo vel fyrir sitt fólk að ef það vinnur meira en 8 stunda vinnudag, sem það á auðvitað helst ekki að gera, þá fái það þeim mun betri laun. Þá hugsa báðir aðilar sig tvisvar um. Auðvitað á þetta að gerast í frjálsum samningum frjálsra manna á milli. En málið er sennilega það að ég held að hegðan verkalýðsforustunnar, og þegar ég segi þetta vísa ég í hina dæmalausu ræðu hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar, sem flutt verður hér á eftir, af því að ég hef heyrt hana margoft áður, að hegðan heiðarlegs verkalýðsforingja, eins og 7. þm. Reykv. vissulega er, stafi af því að hann veit hversu veikt félag Verslunarmannafélagið er og hann treystir því ekki til að semja fyrir sína umbjóðendur. Þess vegna kýs hann að vernda fólk með löggjöf, jafnvel þó að það sé beinlínis gegn hagsmunum þess, því að það hendir á öllum heimilum að stundum vantar fólk peninga og vil) gjarnan vinna yfirvinnu af því að það er að fjárfesta í einhverju fyrir sig, börn sín eða einhvern. Af hverju eigum við að banna slíkt? Menn eiga að vera frjálsir að því sem þeir segja og þeir eiga að vera frjálsir að því sem þeir gera. Og af hverju rýkur allt í einu verkalýðsforustan upp, drengilega studd af Kaupmannasamtökum Íslands, og heimtar sérstök lög fyrir það fólk eitt sem afgreiðir í ákveðnum tegundum verslana, hefur ákveðnar tegundir verslana? Svokallaðar sjoppur eru líka verslanir — eða af hverju kemur þá ekki hv. 7. þm. Reykv. og flytur um það frv. að sjoppum skuli lokað kl. 6 til að vernda fólkið? Það er þetta, herra forseti, sem mér finnast vera aðalatriði þessa máls.

Í röksemdum mínum hef ég annars vegar verið að svara hinum dæmigerðu röksemdafærslum hv. þm. Sjálfstfl. gegn svona máli og að hinu leytinu til hef ég verið að svara dæmigerðum röksemdafærslum sjálfskipaðra eigenda virðulegustu félagsmálahreyfingar í landinu. Ég fullyrði, herra forseti; að að þessu leytinu til eru þeir ekki að tala í nafni fólks. Röksemdafærslu svokallaðra verkalýðsforingja í þessu máli má rekja til þess, að félagskerfið í hreyfingunni er ægilega skakkt og það hefur valdið þessu samfélagi vonbrigðunum mörgum og óþægindunum mörgum, og þegar forustuíhaldið í verkalýðshreyfingunni stendur upp og flytur sömu ræðurnar ár eftir ár um þetta mál fullyrði ég að hér sé skakkt félagskerfi að þvælast fyrir framförum eina ferðina enn.

Ég nefni enn og aftur, herra forseti, að jafnaðarmenn í Svíþjóð ákváðu árið 1972 að verslunartími skyldi vera frjáls og margt hefur þeim verið brugðið um, en að þeir gangi gegn hagsmunum launafólks mun ég þó ekki hafa heyrt fyrr en nú.

Um þetta mál, herra forseti, mætti auðvitað hafa miklu lengra mál og ég segi enn og aftur að mér er það ljóst, að á þeim tímum sem við lifum á telst þetta mál ekki vera alvörumál af því tagi sem mörg önnur eru, en þetta er hins vegar gífurlegt prinsipmál af þeirri ástæðu einni að menn eiga að vera frjálsir. Samtök manna eiga líka að vera frjáls. Menn og samtök þeirra eiga síðan að semja sín á milli um leikreglur. Þeir eiga sjálfir að bera ábyrgð á því sem samið er um og þeir eiga sjálfir að bera ábyrgð á niðurstöðunum. Ef niðurstöðurnar teljast til mistaka fyrir annan hvorn aðilann semja þeir betur næst. Aðeins þannig myndum við frjálst og gott þjóðfélag. En frjálst og gott þjóðfélag myndum við ekki þannig að hv. þm. meira og minna úr tengslum við það sem þeir eru að gera setji reglur og fyrirskipi eitt og annað, hvernig menn skuli ekki hegða sér, hvernig þeir skuli hegða sér, hvað má og hvað má ekki, hvenær það má og hvenær það má ekki.

Veit ég að menn munu skjóta sér á bak við að þessi lög séu aðeins heimildarákvæði sem heimili sveitarstjórnum. Reynslan er sú, að sveitarstjórnir verða býsna djarfar. Vegna þess að um er að ræða hugmyndir eða löggjöf sem gangi í átt til rýmkunar eða frelsis er betra að sá aðilinn sem er fjær ákvarðanasviðinu taki slíkar ákvarðanir. Þegar menn eru komnir nær, þegar menn eru komnir í sveitarstjórnirnar sjálfar, er málum öðruvísi farið. Þá er auðvitað líklegra að menn láti undan nánum hagsmunum. Og hvað hefur gerst í borgarstjórn Reykjavíkur? Vitaskuld hefur borgarstjórnar-Sjálfstfl. látið undan umbjóðendum sínum, stærri kaupmönnum, og sett strangar reglur. Það er málið. Samtrygging verkalýðsforingjanna og Sjálfstfl. í þessu máli er svo dæmigerð.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, vegna þess að hér er rætt um einkaleyfi, um höft og pólitíska misbeitingu, segja hv. alþm. dæmisögu. Árið 1978 voru borgarstjórnarkosningar í Reykjavík, og guði sé lof að þá komst að vinstri meirihluti í Reykjavík. Vita menn að borgarstjórnarfrelsishetjurnar sem áður höfðu starfað neituðu nema einum manni um leyfi til að selja pylsur í miðbænum? Það var einokun á pylsusölu í miðbænum í Reykjavík og það þurfti vinstrimeirihl. til að verða við því sjálfsagða réttlætis- og frelsismáli að fleiri aðilar fengju að selja pylsur. Frjáls verslun í litlum einingum fór fyrst að blómstra í miðborg Reykjavíkur þegar vinstri menn komust til valda. Þetta segir sögu um einokun. Þetta segir sögu um valdbeitingu, þetta segir sögu um höft, þetta segir sögu um hugmyndir, sem eru andstæðar frelsi, en í þágu hagsmuna fárra aðila. Þannig flokkur, herra forseti, er Sjálfstfl. Þannig koma fram of margir forustumenn í verkalýðshreyfingunni, því er nú verr og miður, herra forseti.

Þetta frv. er tilraun til að gera uppreisn gegn slíkri valdbeitingu, til að undirstrika að fólkið, hvort sem það á litlar verslanir eða þarf að versla, fái að ráða því sjálft hvenær það fær að versla. Og það, herra forseti, er allt og sumt.