139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[15:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér er vandi á höndum. Þegar ég lýsi skoðun minni er ég annaðhvort að hóta eða draga upp grýlur en þó er ég þráspurð um skoðun mína. Ég hef hvorki áhuga á að hóta né draga upp grýlur en það þarf hins vegar að líta á hlutina eins og þeir eru.

Hver er áhættan? Jú, eins og ég lýsti í máli mínu er áhætta fyrir okkur. Þess vegna eru þeir fyrirvarar sem settir eru inn í frumvarpið. Það eru ýmsir áhættuþættir og gengisáhættan er kannski mest og hversu hratt endurheimtur verða úr búinu.

Hv. þingmaður spyr: Hvað hefur komið fram af því? Ég minnist þess ekki að sú sem hér stendur hafi talað um Kúbu norðursins eða frostavetur, ég hafði hins vegar áhyggjur af því að það gerðist ekki neitt. (Gripið fram í.) Það er því miður raunin. Það hefur lítið gerst. Við þurfum nauðsynlega að koma hjólum atvinnulífsins í gang. Við þurfum nauðsynlega að sjá hér hagvöxt. Við þurfum nauðsynlega að sjá atvinnuleysistölur lækka. Við erum þjóð í vanda hvað þetta varðar. Einn liður í þeirri leið og einn stór þáttur er að mínu mati að leysa Icesave-deiluna með samningum. (Gripið fram í.) Þeir samningar sem eru á borðinu eru ásættanlegir.