140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

sjálfstæði Háskólans á Akureyri.

150. mál
[17:57]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum sem hér hafa talað og ítreka að ég get tekið undir með þeim um mikilvægt hlutverk Háskólans á Akureyri en líka þeirra stofnana almennt sem við eigum á sviði háskólamenntunar og rannsókna. Þær hafa skipt mjög miklu máli fyrir samfélagið og ég held að þaðan munum við fá sprota til uppbyggingar á næstu árum þegar við lítum aftur uppbyggingartíma í íslensku samfélagi. Ég held því að það skipti mjög miklu að við komum þessum skólum vel út úr kreppunni. Ég verð að segja að þar finnst mér háskólarnir hafa staðið sig ótrúlega vel á erfiðum tímum.

Ég ítreka líka varðandi samstarfsnetið sem ég nefndi áðan að við þurfum að sjá hvaða árangri það skilar og hverju það skiptir. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við tökum einhvern tíma umræðu um það í þessum sal og ræðum hvaða árangur við sjáum af aukinni samvinnu háskóla og hvort við séum sátt við þá leið sem við erum á í þeim efnum.

Ég þakka fyrir umræðuna og veit að við eigum eftir að ræða þessi málefni aftur síðar. (Gripið fram í.)