141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[17:26]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi í tvígang setið á forsetastóli þegar þessi umræða fór fram og gat því ekki tekið þátt í henni en hlustaði á hana. Þá fannst mér nauðsynlegt að koma þessu sjónarmiði á framfæri og ekki síst eftir þá umfjöllun sem varð í kjölfarið á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna um hina íslensku byggðastefnu sem hefur varað í 150 ár og hefur byggst á því að færa allar stofnanir ríkisins á höfuðborgarsvæðið og starfsemina líka, jafnvel þó að stór hluti hennar, þ.e. sá hluti sem ekki heyrir beint undir stjórnsýsluna, eigi í raun og veru miklu betur heima nær bæði fólkinu sem hún fjallar um og verkefnunum sem þarf að sinna.

Mér fannst skorta á það að þessi umræða færi fram í samhengi við þær samþættingar sem hér er verið að ræða en líka að menn veltu þá fyrir sér hver væri þeirra opinbera stefna í þessum málum. Kannski er ég þá kominn að því að spyrja hæstv. ráðherra og ríkisstjórn: Er þetta svona allsherjarhugmynd um að aðskilja stjórnsýsluna, þó að það hafi ekki tekist fullkomlega í þessu verki, og þá sé þar með kominn möguleiki á að færa verkefnin nær þeim svæðum þar sem þau eru unnin?

Ágætt nærtækt dæmi, sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson nefndi, er Náttúrufræðistofnun. Hafrannsóknastofnun væru auðvitað annað kjörið dæmi, starfsemi Fiskistofu, starfsmenn hennar við eftirlit, 90% af sjávarútveginum er á landsbyggðinni en ekki á höfuðborgarsvæðinu, og fleiri þætti mætti telja, t.d. innan Vegagerðarinnar. Þess vegna fannst mér það svo sláandi að í texta meiri hlutans sé sagt „að starfsemin úti á landi verði varin við fyrirhugaðar skipulagsbreytingar“. (Forseti hringir.) Af hverju þarf að verja hana? Af hverju er ekki krafturinn í uppbyggingunni þar af því að verkefnin eru þar? (Forseti hringir.) Af hverju þarf að leggja sérstaklega til að verja starfsemina þar? Þetta er þessi ranga hugsun við byggðastefnu sem við (Forseti hringir.) erum búin að vera með í 150 ár og er kominn tími til að breyta.