141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[18:20]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem orðið hafa í dag og fyrir áhuga og aðkomu einstakra þingmanna að þessu máli. Ég verð að segja alveg eins og er að ég hef aldrei haft neitt sérstaklega heitar tilfinningar eða afstöðu gagnvart þessu máli eða málum sem eru þessarar gerðar, þ.e. þeirra sem lúta fyrst og fremst að stofnanabreytingum og skipulagsbreytingum. Ég hef þó sannfærst í þessu máli um að það sem rætt var hér í dag geti raunverulega orðið til góðs, fyrst og fremst til að undirbyggja og styrkja nýja og framsækna hugsun og nálgun í þessum geira, þ.e. samþættingu þvert á samgöngugreinar. Alþingi hefur nú sýnt það í verki með afgreiðslu samgönguáætlunar sem byggir á víðari nálgun og samþættingu þvert á ólíkar greinar.

Ég hef fullan skilning á því að fólk geti haft mjög ólíkar skoðanir á því hvernig þetta eigi allt saman að vera og rétt eins og það er enn þann dag í dag er hægt að hafa mjög ólíkar og jafnvel framsæknari skoðanir á því hvernig Stjórnarráðið ætti að byggjast upp eða hefði átt að byggjast upp á þessu kjörtímabili o.s.frv. Þar eru ólík fordæmi í mismunandi löndum og margt hægt að segja um það allt saman í öllum svona málum.

Ég hef hins vegar heita afstöðu í þessu máli. Mér finnst gríðarlega mikilvægt og langmest um vert að fá niðurstöðu í málið og eyða þeirri óvissu sem starfsfólk býr við í þessum efnum. Mér finnst það skipta meira máli en að við förum enn eina ferðina í kringum þau ólíku sjónarmið sem mismunandi þingmenn kunna að hafa í þessum efnum. Þar liggur að mínu mati meginábyrgð okkar, við verðum að eyða óvissunni og segja af eða á. Ég veit til þess að starfsmenn hafi sagt að þeir treysti Alþingi hreinlega ekki til þess að afgreiða þetta mál og að það sé óbærilegt að búa við áframhaldandi hik og óvissu, alveg burt séð frá málalyktum. Þarna tel ég ábyrgð okkar vera fyrst og fremst.

Búið er að hindra það að málið komi til atkvæðagreiðslu. Nú má það ekki gerast, málið verður að fá að komast til atkvæðagreiðslu í þinginu og fá niðurstöðu, ekki okkar vegna heldur vegna þess starfsfólks sem um ræðir.

Ýmislegt hefur komið fram í máli hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar varðandi þetta efni, bæði í þessum umræðum og áður. Ég kann ég mjög að meta þennan fyrrum sessunaut minn í þinginu. Mér finnst hann oft vera mjög málefnalegur og með skarpar ábendingar. Ég tók undir athugasemdir hans á fyrri stigum málsins. Hann sagði réttilega að í gegnum tíðina hefði sameining stofnana ekki borið í sér eins mikið hagræði og væntingar hefðu staðið til, meðal annars vegna þess að markmið hefðu ekki verið nægilega skýr og undirbúningur ekki nægilegur.

Það er hins vegar rétt að halda því til haga að reynslan hefur kennt okkur að í stærri einingum er kostnaður við rekstur, þjónustu og yfirstjórn hlutfallslega lægri en í smærri einingum. Meginmálið í þessu atriði, sérstaklega þegar kemur að hagræðingunni, er ekki bara að niðurstaðan sé jákvæð í huga okkar sem mælum fyrir málinu, meginatriðið er hinn faglegi þáttur og styrkingin sem um ræðir.

Mig langar að vitna varðandi fjárhagshliðina í greinargerð með frumvarpinu til laga um Vegagerðina á bls. 9, með leyfi forseta:

„Ljóst er að lækkun fjárveitinga undanfarin ár eftir að frumvarpið var fyrst lagt fram hefur dregið úr tækifærum til hagræðingar. Stofnanirnar hafa þegar þurft að þola niðurskurð en án þess að njóta ávinnings af hagræðingu sem horft er til við sameiningu þeirra. Sameining stofnana getur varið þjónustuna, dregið úr neikvæðum afleiðingum minnkandi fjárveitinga og takmarkað útgjaldavöxt við hagstæðari fjárhagsleg skilyrði. Markmiðið með kerfisbreytingunni er að nýta betur fjármuni en jafnframt að verja stjórnsýslu- og þjónustuhlutverk þessara stofnana á niðurskurðartímum.“

Við getum án efa endalaust deilt um hversu mikil eða hversu lítil hagræðing fæst af þessu og forsendur hafa breyst eins og áður hefur komið fram. En meginefnið er þetta: Erum við sammála um að það sé í prinsippinu jákvæð þróun að samþætta þessar greinar með þeim hætti sem hér er lagt til? Þá finnst mér mjög mikilvægt að hafa í huga, og það er mjög ósanngjarnt ef fólk ætlar að halda öðru fram, ég held að það sé í raun ekki hægt, að málið hefur fengið alveg gríðarlega mikla yfirlegu í langan tíma, á undirbúningsstigum. Eins og réttilega kom fram í máli hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar hefur oft vantað hefur upp á undirbúning og skýra markmiðssetningu þegar gera hefur átt skipulagsbreytingar, og var sérstaklega talað um það hér.

Mig langar af því tilefni að vitna beint í nokkur af þeim atriðum sem komu fram við undirbúning málsins. Það segi ég vegna þess að sú umræða hefur komið upp aftur um hvort markmiðin séu nógu skýr og málið nógu vel undirbúið o.s.frv.

Með leyfi forseta:

„Skipaður var stýrihópur til að vinna nákvæma greiningu á kostum endurskipulagningarinnar og leggja fram tillögur um breytta stofnanaskipan samgöngumála. Hlutverk stýrihópsins var:

1. Stjórn verkefnisins, stefnumótun, áætlanir, tillögugerð til ráðherra og undirbúningur lagafrumvarps.

2. Tillögur til ráðherra um verkaskiptingu stofnana og mótun helstu hlutverka og viðfangsefna þeirra.

3. Mótun framtíðarsýnar, markmiða, áherslna og meginskipulags nýrra samgöngustofnana.

4. Skilgreining verkefna vinnuhópa, móttaka niðurstaðna og tillagna þeirra.

5. Athugun á mögulegu samstarfi við aðrar stofnanir og opinber hlutafélög, svo sem á sviði framkvæmda og viðhalds flugvalla og leiðsögukerfis hafsins.

6. Öflun frekari upplýsinga um skipan samgöngumála í öðrum löndum.

7. Samráð við hagsmunaaðila og samskiptaáætlun.“

Í starfi stýrihópsins hefur verið lögð áhersla á samstarf og samráð við stofnanir og á að halda vel á starfsmannaþætti breytinga. Settur var upp innri vefur þar sem upplýsingar um verkefnið voru aðgengilegar öllum starfsmönnum. Á vegum stýrihópsins hafa starfað sjö vinnuhópar skipaðir starfsmönnum stofnananna og ráðuneytisins sem vinna að greiningu og útfærslu einstakra þátta. Viðfangsefni hópanna voru, með leyfi forseta:

„1. Verkefni, verklag og verkferlar. Hópurinn setti fram tillögur um skiptingu verkefna núverandi stofnana milli nýrra stofnana. Þá vann hann greiningu á öllum helstu verkferlum núverandi stofnana og lagði mat á mögulega samþættingu þeirra miðað við nýja stofnanaskipan.

2. Starfsmannamál, þ.m.t. virkt upplýsingastreymi til starfsmanna. Hópurinn greindi meðal annars starfsmannahópinn og lagði mat á mögulega fækkun starfsmanna á næstu árum vegna starfsmannaveltu. Þá lagði hann fram greiningu og samanburð á mannauðs- og launastefnu.

3. Fjármál og fjármögnun. Hópurinn greindi fjármál núverandi stofnana og fjallaði um gjaldtöku. Hópurinn vann nákvæma greiningu á fjármálum, meðal annars með tilliti til skiptingar framlaga og tekna milli nýrra stofnana.

4. Upplýsingatækni. Hópurinn lagði fram lýsingu og mat á fyrirkomulagi upplýsingatæknimála og upplýsingakerfa og lagði fram tillögur í því efni.

5. Árangurs- og gæðastjórnun. Hópurinn lagði fram lýsingu og mat á fyrirkomulagi árangurs- og gæðastjórnunar og lagði fram tillögur í því efni.

6. Húsnæðismál. Hópurinn greindi núverandi húsnæði og undirbjó þarfagreiningu vegna nýrra stofnana.

7. Þróun, rannsóknir og tækifæri. Hópurinn kortlagði núverandi starfsemi og fjallaði um ýmsar hugmyndir að framtíðarfyrirkomulagi.“

Forseti. Mig langar líka að fara í gegnum markmiðin. Ég veit ekki hvort ég á að taka nokkrar mínútur í það, það væri kannski ágætt því að hér var talað um að markmiðin þyrftu að vera skýr.

Með leyfi forseta:

„Markmiðin með endurskipulagningu samgöngustofnana eru fyrst og fremst faglegur ávinningur og skýrari verkaskipting stofnana.

Meginþættir faglegs ávinnings eru:

1. Að skýra verkaskiptingu og bæta þjónustu og árangur. Aðgreining stjórnsýslu frá framkvæmdum og rekstri sem mætir innlendum og erlendum kröfum um gagnsæi og faglega og hlutlausa stjórnsýslu og tryggir að sambærilegar kröfur séu gerðar til framkvæmda og rekstrar mannvirkja og annarra þátta samgöngumála.

2. Aukin samþætting þvert á samgöngugreinar, sem endurspeglar áherslur samgönguáætlunar og leggur áherslu á hagkvæmni og virkni samgöngukerfisins fremur en þær leiðir sem bundnar eru einstökum samgöngugreinum.

3. Að auka faglegan styrk. Sérhæfing, sem gefur færi á að efla vinnubrögð, fagmennsku og árangur t.d. á sviði stjórnsýslu og framkvæmda.

4. Öflugri stofnanir sem stuðlar að meiri og breiðari sérfræðiþekkingu.

5. Sterkari yfirstjórn sem stuðlar að gæðum, hagkvæmni og markvissari þjónustu við notendur.

6. Tækifæri til frekari þróunar og endurskipulagningar starfseminnar.

7. Að auka hagkvæmni og bæta nýtingu þeirra fjármuna sem fara til samgöngumála.

8. Að samþætta betur þróun og rannsóknir á sviði samgöngumála.

9. Að tryggja markvissara samráð við hagsmunaaðila.“

Hvers vegna tel ég allt þetta upp? Til þess að minna fólk á hversu mikið og ítarlegt og langt undirbúningsferli þetta hefur verið. Að sjálfsögðu hafa svona breytingar alltaf sína kosti og galla, en meginmálið er: Það þarf ekki að endast svo langt inn í framtíðina, það útilokar ekki frekari breytingar. Okkur ber hins vegar skylda til að eyða óvissu starfsmanna núna. Þetta gengur ekki lengur, nú er mál að linni. Fólk hlýtur þó alla vega að sjá ýmsa kosti við það sem hér er gert jafnvel þótt það hafi efasemdir um hversu mikil hagræðing er að breytingunni, jafnvel þótt einhver hefði viljað sjá stofnun hafs og stranda o.s.frv., að meginábyrgð okkar liggur í því að vera fær um að komast að niðurstöðu. Ég held að það versta sem gæti gerst núna væri að málið væri látið sigla áfram í óvissunni.

Það var sérstaklega spurt um landsbyggðina áðan og réttilega bent á að í nefndaráliti meiri hlutans væri talað um að störf á landsbyggðinni yrðu varin. Umhverfis- og samgöngunefnd kallaði til sérstaks fundar á fyrra þingi einmitt um það atriði, hvort nokkur hætta væri á því að þetta kæmi illa við landsbyggðina. Við vorum fullvissuð um að þetta gæti einmitt boðið upp á ýmis tækifæri til frekari þróunar á landsbyggðinni. Ég ætla ekki að fara í neinar hártoganir um hvort orðið „varin“ sé rétt eða ekki en þetta var efnisinntakið og okkur fannst mjög mikilvægt að það kæmi fram.

Það er ótalmargt um málið að segja. Ég ítreka að ég hef aldrei og mun væntanlega aldrei hafa neitt sérstaklega heitar tilfinningar í þessu máli. Ég hef hins vegar lagt mig fram um að reyna að virða allt það ferli sem átt hefur sér stað, þ.e. allt það samráð sem haft hefur verið við ótalmarga aðila og það ferli sem verið hefur innan þessara stofnana og meðal starfsmanna o.s.frv., og séð þá kosti og þau tækifæri sem í þessu felast. Það að einhverjum finnist að niðurstaðan eigi að vera einhvern veginn öðruvísi á ekki að koma í veg fyrir að málið komi til atkvæðagreiðslu, það er ekki boðlegt. Það er meginmálið að það verði afgreitt.

Varðandi gildistökuna hefur komið fram að málið hefur frestast mikið og ítrekað. Við í meiri hluta nefndarinnar lögðum til að gildistökunni yrði frestað frá 1. júlí til 1. janúar 2013, en það var þegar við héldum að málið yrði afgreitt í vor. Mér finnst sjálfsagt að taka málið aftur til nefndar og fara sérstaklega yfir það, ef það getur orðið til að skapa meiri sátt að fresta gildistökunni, og skoða það af alvöru og með opnum huga, skulum við segja. Það má hins vegar ekki koma í veg fyrir að óvissu sé eytt sem svo lengi hefur verið um málið. Það verður að setja punkt fyrir aftan þegar málið kemur til atkvæðagreiðslu. Ef gildistökunni verður frestað þarf það alla vega að vera ljóst að skurðarpunkturinn sé þarna, þegar allt þetta tekur gildi. Ég er opin fyrir því að skoða það með opnum huga og við munum þá að sjálfsögðu gera það í nefndinni.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um málið en ítreka þó að ýmsir vilja alls ekki fresta afgreiðslu þess vegna þess að þeim finnst hreinlega svo sárt hvað það hefur frestast mikið. En allt sem er til þess fallið að auka meiri sátt um málið og koma því í þann farveg að það fái endanlega niðurstöðu sem sem flestir geta séð að verði til góðs, finnst mér þess virði þannig að ég mun skoða það vel.