141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[14:02]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Herra forseti. Við ræðum fjáraukalög fyrir árið 2012, það herrans ár, í pontu Alþingis og hefur umræðan um fjáraukann að mínu viti verið málefnaleg og uppbyggileg. Hægt væri að verja mörgum orðum um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2012 en ástæða er til að staldra við nokkra þætti í því máli. Krafan um eyðslu er mjög hávær um þessar mundir í samfélaginu enda hefur endurreisn samfélagsins gengið ágætlega þótt margir kvarti yfir að þeir hafi ekki enn þau efni sem þeir höfðu fyrir hrun. Það verður sennilega seint og kannski aldrei því að þau efni voru að mestu tekin að láni, jafnt af fyrirtækjum sem einstaklingum.

Engu að síður er krafan um eyðslu og þar með umframeyðslu mjög hávær og hv. þingmenn sem sitja í fjárlaganefnd verða mjög varir við þrýsting frá ýmiss konar hagsmunahópum, félagasamtökum og stofnunum sem vilja fá hækkun á framlögum, jafnt í fjáraukalagafrumvarpi sem í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár. Það er eðlilegt að hlusta á allar þær raddir en sá sem hér stendur ber meiri virðingu fyrir sumum þessara krafna en öðrum. Þá er spurningin hvar menn eiga að staldra við. Niðurskurðurinn á undanliðnum árum var nauðsynlegur. Ef ekki hefði verið farið út í hann af óþægilegum krafti sem bitnaði á mörgum viðkvæmum stofnunum hefði farið verr en raun bar vitni. Við urðum að grípa strax inn í ferlið eftir hrun og ganga hart til verks og auðvitað bitnaði það á mörgum stofnunum samfélagsins, félagasamtökum hringinn í kringum landið og á samfélaginu almennt.

Við lestur á fjáraukalagafrumvarpi og á fjárlagafrumvarpi næsta árs hef ég sagt að það séu einkum fimm atriði sem við verðum að taka tillit til. Þau eru að einhverju leyti komin fram í fjáraukalagafrumvarpinu sem nú er til umfjöllunar. Það eru í fyrsta lagi tækjamál spítalanna, það er gleðiefni að við bætum 50 millj. kr. til tækjamála á Sjúkrahúsinu á Akureyri og 150 millj. kr. til Landspítala – háskólasjúkrahúss. Það er mikilvægt vegna þess að hér er um að ræða tvær mikilvægustu sjúkrastofnanir landsmanna. Þær eru báðar eins konar endastöðvar, sjúkrahús sem eiga í öllum atvikum mjög erfitt með að senda sjúklinga áfram til annarra stofnana. Þar á ég sérstaklega við Landspítala – háskólasjúkrahús. Þess vegna er eðlilegt að svara því neyðarópi sem barst frá þessum tveimur sjúkrahúsum og er það gert í fjáraukalagafrumvarpinu. Til að halda samræmi er rétt að geta þess að búast má við því að enn frekar verði komið til móts við þessar eðlilegu kröfur, jafnvel má kalla þær lífsnauðsynlegar, af hálfu spítalanna. Það verður einnig gert í fjárlagafrumvarpi næsta árs sem verður til umfjöllunar síðar í nóvember.

Það er líka ástæða til að geta þess að hér er komið til móts við ófyrirséðar afleiðingar veðurhams á meginhluta Norðurlands í haustbyrjun eða síðsumars þegar íbúar þar fengu snjóflóð af himnum ofan. Það er myndarlega tekið á því máli og komið til móts við þá bændur sem urðu fyrir skakkaföllum af völdum óveðursins beggja vegna Tröllaskaga. Þeir töpuðu þar þúsundum fjár og mörgum kílómetrum af girðingum. Tel ég hér sé fyllilega komið til móts við bændur beggja vegna Tröllaskaga vegna þeirra erfiðu aðstæðna sem þeir lentu í.

Fjáraukinn á að taka á þáttum eins og þessum. Hann á annars vegar að taka á ófyrirséðum aðstæðum eins og upp komu á Norðurlandi í ofsaveðrinu í byrjun september og hins vegar á hann að taka á afleiðingum nýrrar lagasetningar eða þingsályktunartillagna sem krefjast fjárútláta og voru eðli málsins samkvæmt ekki í fjárlagafrumvarpi þess árs sem samþykktirnar voru fengnar á hinu háa Alþingi.

Það má alltaf deila um það í stjórn og stjórnarandstöðu hvort fjáraukalagafrumvarpið taki í raun á þessum tveimur þáttum öðrum fremur. Mér hefur sýnst nokkuð algengt að laumað sé inn fjárheimildum sem ekki eiga endilega heima í fjáraukalagafrumvarpi hvers árs. Það hefur verið árátta á undanliðnum árum og áratugum og þarf að taka á því. Mér sýnist hv. fjárlaganefnd vera svo að segja einhuga um að taka betur á því máli, að hún ætli að sýna fjáraukalagafrumvarpinu og eðli fjáraukans sjálfs meira aðhald. Það tel ég hafa verið gert núna og er það vel.

Hins vegar er eðlilegt að taka tillit til breytts ástands sem skapast í samfélaginu á hverjum tíma. Þar er til dæmis tekið tillit til þeirra neyðarópa sem komið hafa frá spítölunum á undanliðnum mánuðum vegna ónógs eða lélegs tækjabúnaðar. Ég gat þess áðan að miklar kröfur eru á lofti um eyðslu fjár úr ríkissjóði og er eðlilegt að hlusta á þær raddir, en sumar þeirra eru að mínu viti skynsamlegri en aðrar og þarf því að hlusta betur á þær.

Ég gat um tækjamálin á spítölunum sem koma verður til móts við og er það gert bæði í fjáraukanum og fjárlagafrumvarpi næsta árs. Ég nefni líka geðheilbrigðismál almennings, ekki síst ungmenna sem rík ástæða er til að koma til móts við með einum eða öðrum hætti svo sem fréttir undanliðinna vikna hafa borið vitni um. Ég tel einnig mikilvægt að koma til móts við framhaldsskólann, sérstaklega verknámið sem skorið hefur verið inn að beini á undanliðnum mánuðum og árum. Þar er nóg af aðhaldsaðgerðum.

Ég nefni jafnframt þjónustu lögreglunnar í víðfeðmustu umdæmunum þar sem löggæsla er svo að segja horfin, hún er komin niður fyrir eðlileg þjónustumörk. Þeir þættir; tækjamál sjúkrahúsanna, geðheilbrigðismálin, framhaldsskólinn og löggæslan, eru komnir niður að mörkum þeirrar þjónustu sem við krefjumst af (Gripið fram í.) þeim og er eðlilegt að koma til móts við þá jafnt í fjáraukanum sem fjárlagafrumvarpi næsta árs og breyta áherslum í takt við þann veruleika.

Almennt vil ég segja, herra forseti, að fjárlagafrumvarp fyrir yfirstandandi ár og þær viðbætur sem gerðar hafa verið við fjárlagafrumvarpið eru í samræmi við eðlilegt aðhald. Hér er engan veginn öllum óskum hleypt að, óskirnar voru vissulega miklu fleiri en fram kemur í frumvarpinu. Það verður og á að vera hlutverk hv. fjárlaganefndar að meta þessar óskir og var það gert í þessu tilviki en niðurstaðan var engu að síður sú að hleypa að allra brýnustu verkefnunum, þeim verkefnum sem urðu til vegna ófyrirséðra aðstæðna og þeirra verkefna sem þurfti lífsnauðsynlega að taka á.

Að svo mæltu legg ég til að umræðan verði áfram á málefnalegum nótum, að við getum skipst á skoðunum um eðli og umfang fjárlagafrumvarpsins, hvort þar hefðu átt að vera fleiri tillögur sem hefðu komið til móts við aðstæður á yfirstandandi ári. Ég tel að fjáraukalagafrumvarpið sé vel innan marka allrar aðhaldssemi og beri vitni um að betur er tekið á ríkisfjármálum en oft áður og er það vel.