141. löggjafarþing — 36. fundur,  19. nóv. 2012.

Vegagerðin, framkvæmdastofnun samgöngumála.

138. mál
[16:13]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég er sannfærður um að við stígum hér gæfuspor. Við erum að hugsa samgöngumálin upp á nýtt, að hafa þau öll heildstætt undir, samgöngur á sjó, samgöngur á landi og samgöngur í lofti. Við erum að laga stofnanakerfið að þeirri nýhugsun.

Það er rangt sem hér hefur verið haldið fram að ekki hafi verið ástunduð vönduð vinnubrögð. Menn eiga ekki að einblína um of á það sem gerst hefur innan veggja þingsalarins. Það er í stofnunum og í stofnanakerfinu sem mikil vinna hefur farið fram, starfshópar hafa komið þar að verki, fjölmargir starfsmenn. Ég hef átt fundi með starfsmönnum Vegagerðarinnar, Siglingastofnunar og allra þeirra stofnana sem hlut eiga að máli. Ég staðhæfi að það hefur verið unnið að málunum á vandaðan hátt. Ég fagna því að við séum að stíga þetta gæfuskref.