141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[18:09]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum í 1. umr. frumvarp til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Þar er um að ræða breytingar sérstaklega varðandi fjárfestingarheimildir lífeyrissjóðanna. Þetta er mál sem ég veit að kemur til vegna beiðni eða alla vega í samvinnu við fyrirtækin hér í landinu, lítil og meðalstór, sem kalla eftir aukinni fjárfestingu. Við þekkjum það og það er jákvætt að verið sé að leita leiða til þess að auka möguleika fyrirtækjanna í landinu til að sækja sér fjármagn til fjárfestingar. Við höfum talað um það hér í þessum stóli, talað okkur hás síðastliðin fjögur ár yfir því að ekki séu nægileg tækifæri til þess.

Að því leytinu til er það jákvætt en ég hlýt að spyrja, virðulegur forseti, af hverju hæstv. fjármálaráðherra leggur þetta mál svona seint fram? Núna er 11. mars, það er mánudagur og við eigum að ljúka þingstörfum á föstudaginn samkvæmt starfsáætlun. Þetta mál er í 1. umr. og nú er ekki hægt að kenna stjórnarandstöðunni um að hafa verið í málþófi um þetta mál þar sem við erum í 1. umr. Er virkilega ætlast til þess að málið verði klárað á fjórum þingdögum? Að það eigi að fara til nefndar, umsagna verði leitað, gestir verði kallaðir til og málið verði afgreitt á þeim örfáu, (Gripið fram í: Þremur.) þremur þingdögum sem hér eru til stefnu?

Þetta er kannski ekki stærsta málið og þó, það lætur lítið yfir sér, er ekki nema fjórar greinar, en þarna er um talsvert háar fjárhæðir að ræða. Við vitum að lífeyrissjóðirnir í landinu eiga fleiri þúsund milljarða til ráðstöfunar og aftan á umslagi er reikningur hv. þm. Péturs Blöndal hér í hliðarsal fyrir mig, ég treysti hv. þingmanni betur að reikna aftan á umslag heldur en sjálfri mér, sem segir mér að þetta gætu verið 120 milljarðar í ársráðstöfun sem bætist við hjá lífeyrissjóðunum þegar er hækkað úr 20% í 25%. Þarna er um umtalsverða fjármuni að ræða af því sem mætti kalla skyldusparnaði þjóðarinnar.

Nú er ég ekki að ætla að allir þessir 120 milljarðar tapist, þvert á móti, í þessum bransa er það sem betur fer þannig að sum viðskiptatækifæri eru heppilegri en önnur. En við hljótum að gera ráð fyrir því að eitthvað af þessum fjármunum tapist þannig að fara þarf ákaflega vel yfir þetta og ég vil nota tækifærið og hvetja lífeyrissjóðina til þess að sýna ákveðna varúð. Hægt er að setja þetta í samhengi við annað stórmál sem við ræðum hér nánast upp á hvern einasta dag og við höfum verið að gagnrýna hæstv. ríkisstjórn fyrir að taka ekki nægilega vel á og það er úrlausn í skuldavanda heimilanna.

Lífeyrissjóðirnir töpuðu miklum fjármunum í hruninu, ætli það hafi ekki verið í kringum 600 milljarðar sem töpuðust. Ég leyfi mér að fullyrða að ekki hafi mikill hluti þess fjár sem tapaðist verið vegna húsnæðislána eða lána til heimilanna í landinu. Þar eru lífeyrissjóðirnir nefnilega með belti og axlabönd og hafa ekki þurft að afskrifa. Þeir hafa í raun ekki tekið í mál að afskrifa á heimilin eða greiða úr þeim vanda sem heimilin urðu fyrir við hrunið eða eftir hrun. Ef maður setur málið í þetta samhengi, hér gæti verið um að ræða 120 milljarða króna sem eru ætlaðir til fjárfestinga í óskráðum fyrirtækjum sem menn vita ekki hvernig reiðir af. Það getur leitt til mikillar eftirspurnar eftir lánsfé og ég er ekki að ætla mönnum að það hafi í för með sér óvarkárni, en menn verða að gera ráð fyrir því. Þá er spurningin, væri hægt að nýta þessa fjármuni lífeyrissjóðanna, eða hliðra til reglum þeirra líka, til þess að koma með einhverjum hætti til móts við þann vanda sem þeir sem eru með lán hjá lífeyrissjóðunum og hafa lent í vanskilum búa við. Er hægt að nota tækifærið og finna einhverjar leiðir til þess að auka þær heimildir?

Það eru fyrirtæki í landinu sem kalla eftir fjárfestingu. Það eru tækifæri hér vítt og breitt og ég held að mjög mikilvægt sé að við förum vel yfir hvaða áhrif það getur haft þegar við opnum fyrir svona heimildir. Hvers konar árangri hafa lífeyrissjóðirnir náð í fjárfestingum sínum af þessum 20% sem þeim er heimilað núna? Ég kalla eftir því að í nefndinni liggi upplýsingar fyrir, eða kallað verði eftir þeim, um hvaða kröfur er ætlað að gera á móti, gegn þeirri heimild sem er hér.

Mig að spyrja varðandi annað atriði sem einnig er verið að breyta varðandi skuldbindingar launagreiðenda. Í kostnaðarumsögn fjárlagaskrifstofunnar segir, með leyfi forseta:

„Breytingar sem koma fram í þessu frumvarpi geta liðkað fyrir samningum lífeyrissjóða við launagreiðendur sem vilja standa við skuldbindingar gagnvart lífeyrissjóðum og því haft þær afleiðingar að slíkar skuldbindingar innheimtist betur en ella.“

Ég vil spyrja í framhaldi af þessu: Er mikið um vanskil af hálfu launagreiðenda til lífeyrissjóðanna? Er það almennur vandi sem verið er að girða fyrir með þessari breytingu? Er þetta eitthvað nýtt, er þetta eitthvað sem er til komið núna eftir hrunið eða er þetta eitthvað sem hefur verið almennur vandi? Mér þykir athyglisvert að verið sé að leggja til breytingar með þeim hætti að launagreiðandi geti greitt inn á skuldbindinguna með útgáfu skuldabréfa sem ekki eru skráð á skipulögðum markaði og að þeir aðilar sem tryggðu starfsmenn í sjóðum með bakábyrgð ríkis- eða sveitarfélaga ábyrgist í einhverjum mæli hver fyrir sinn hóp greiðslur úr þeim. Ég spyr hvort þetta sé viðvarandi vandamál og hvort þetta sé eitthvað sem er nýtilkomið.

Virðulegi forseti. Þó að málið láti ekki mikið yfir sér er það ekki eins lítið og það lítur út fyrir að vera. Því hlýt ég að ítreka spurningar mínar til hæstv. fjármálaráðherra um hvort ætlunin sé að klára málið á þessu þingi, af hverju í ósköpunum það er svona seint fram komið og hvort það sé lagt fram í samráði við lífeyrissjóðina, í samráði við fyrirtækin eða hvort það sé að undirlagi hæstv. fjármálaráðherra. Er þetta sambærilegt við það sem er að gerast annars staðar eða er þetta vandi sem við erum að glíma við á Íslandi vegna gjaldeyrishaftanna? Ef ég fæ ekki svör við þeim hér hjá hæstv. fjármálaráðherra þá óska ég eftir því að þeim verði svarað í nefndinni. Síðan vil ég ítreka spurningu sem ég var með, hæstv. fjármálaráðherra brá sér úr salnum, um hvort að mikil vanskil séu af hálfu launagreiðenda vegna iðgjalda starfsfólks síns til lífeyrissjóðanna, vegna þess að hér er verið að gera breytingar á lögunum í þeim tilgangi að auðvelda launagreiðendum að standa við skuldbindingar sínar.

Virðulegur forseti. Ég hef nefnt hér nokkur atriði sem vöktu athygli mína við fyrstu sýn í þessu máli og hvet hv. nefnd til þess að fara vel yfir það og trúi því varla að það eigi að klárast á þessu þingi, en hlakka til að heyra svör hæstv. fjármálaráðherra.