141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[21:10]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir það sem síðasti ræðumaður, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, sagði. Ég hef tilhneigingu til að vera jákvæður gagnvart því frumvarpi sem um ræðir. Staðan er hins vegar sú að frumvarpið kemur afar seint inn í þingið og er til umræðu á degi sem miðað við starfsáætlun ætti að vera einhver af allra síðustu starfsdögum þingsins. Það gerir það auðvitað að verkum að eigi að ljúka meðferð þess fyrir þinglok verður að hafa mjög hraðar hendur og vissulega vekur það ákveðnar áhyggjur í ljósi þess að um töluvert viðkvæmt svið er að ræða.

Fjárfestingar lífeyrissjóðanna eru gríðarlega mikilvægar. Þær eru auðvitað gríðarlega mikilvægar í ljósi þess að lífeyrissjóðirnir þurfa að ávaxta fé sitt með skynsamlegum hætti til að vera í stakk búnir til að standa við skuldbindingar sínar gagnvart eigendum lífeyrisins eða rétthöfum. Á sama hátt skipta lífeyrissjóðirnir gríðarlega miklu máli sem fjárfestar í samfélaginu og sem öflugustu aðilarnir á þeim markaði, ef svo má segja.

Málið er því þess eðlis að það ætti undir eðlilegum kringumstæðum að fá mjög gaumgæfilega yfirferð á vettvangi þeirrar þingnefndar sem fær það til meðferðar, efnahags- og viðskiptanefndar. Ég vona að jafnvel þótt tíminn sé naumur skoði nefndin málið með í rauninni báðar hliðar í huga, þá möguleika sem felast í frumvarpinu en líka með hliðsjón af þeirri áhættu sem getur vissulega falist í því að rýmka heimildir að því marki sem er gerð tillaga um.

Eins og bent hefur verið á í umræðunni er enn er verið að auka eða rýmka heimildir til fjárfestinga í óskráðum bréfum þótt til takmarkaðs tíma sé. Þegar það er borið saman við þær viðmiðanir sem voru taldar eiga við á árum áður, 10%, er auðvitað um veruleg frávik að ræða. Það hlýtur að leiða huga manna að áhættu sem kann að felast í því vegna þess að almennt er litið svo á að fjárfestingar í óskráðum bréfum séu áhættusamari en fjárfesting í skráðum bréfum. Þótt fjárfesting í hlutabréfum eða skuldabréfum sem skráð eru á skipulögðum markaði sé ekki áhættulaus, eins og dæmin sanna, er fyrir hendi ákveðin upplýsingaskylda og krafa eða skilyrði sem þarf að uppfylla til að bréf fáist skráð á markað. Þegar slíkum skilyrðum er ekki til að dreifa má undir almennum kringumstæðum gera ráð fyrir því að áhættan geti verið meiri. Upplýsingakröfur eru ríkur þáttur í starfsemi skipulagðra markaða, bæði fyrir hlutabréf og skuldabréf, og regluverkið allt á að tryggja að upplýsingar til fjárfesta séu sem ríkastar og áhætta þar með takmörkuð. Því er auðvitað ekki til að dreifa hvað varðar óskráð bréf en engu að síður má ætla að stofnanafjárfestar eða atvinnufjárfestar á borð við lífeyrissjóði nálgist fjárfestingar í slíkum bréfum af varfærni og leggi sitt besta mat á þær fjárfestingar sem um er að ræða. Þrátt fyrir að hægt sé að ætlast til varfærni af þeim sem hafa með þær fjárfestingar að gera verður auðvitað ekki hjá því komist að benda á að fjárfestingar í óskráðum bréfum leiða almennt talað til meiri áhættu en fjárfestingar í skráðum bréfum.

Að þeim varnaðarorðum sögðum vil ég taka undir það sjónarmið sem kom fram í ræðu hæstv. fjármálaráðherra áðan að í rýmkuðum heimildum af því tagi felist líka miklir möguleikar. Eins og bent hefur verið á í umræðunni eru fjárfestingarmöguleikar í landinu takmarkaðir. Fjármagnshöft og almennt umhverfi gerir það að verkum að þeir möguleikar sem eru fyrir hendi fyrir lífeyrissjóðina til að fjárfesta í dag eru þrengri en oftast hefur verið á undanförnum árum. Hlutabréfamarkaðurinn hefur ekki náð sér almennilega á strik eftir hrun og möguleikar þar eru takmarkaðir. Það er ákveðin hætta á því að vegna takmarkaðs framboðs fjárfestingarkosta verði hugsanlega ákveðin eignabóla, óeðlileg hækkun á þeim eignum sem eru til staðar vegna þess að miklir fjármunir leita á sömu slóðir. Að því leyti virðist tillagan í frumvarpinu ekki óskynsamleg, að fjölga þeim möguleikum sem lífeyrissjóðirnir hafa í því sambandi. Það út af fyrir sig er að sjálfsögðu jákvætt.

Það er líka jákvætt, eins og bent hefur verið á í umræðunni, að með þessu eykst svigrúm lífeyrissjóða til að fjárfesta í smærri fyrirtækjum sem eru ekki komin á þann stað að fullnægja skilyrðum til að fara inn á skráða hlutabréfamarkaði eða skuldabréfamarkaði, fyrirtæki sem eru hugsanlega í nýsköpunarstarfsemi, tækniþróun eða á öðrum slíkum sviðum. Þannig áttar maður sig á þeim möguleikum sem fylgja í því sambandi, möguleikum til að fá inn fjármagn í nýsköpunarstarfsemi í meira mæli en ella. Það er auðvitað jákvætt og því ber að fagna.

Engu að síður er full ástæða til að nálgast efni frumvarpsins af varfærni og nauðsynlegt að fara vel yfir það. Þær tillögur sem er að finna í frumvarpinu eiga vissulega rætur að rekja til starfsnefndar sem hefur starfað að því marki á undanförnum mánuðum að fara yfir fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða. Það má ætla að innan tiltölulega skamms tíma liggi fyrir endanlegar tillögur frá þeirri nefnd. Það sem um ræðir eru auðvitað fyrst og fremst bráðabirgðaákvarðanir eða bráðabirgðaráðstafanir sem gilda í eitt ár eða til ársloka 2014. Framtíðarstefnan mun síðan ráðast af þeim ákvörðunum sem verða teknar á grundvelli ráðlegginga nefndarinnar þegar þær liggja fyrir. Ég verð að segja að það hefði að sönnu aukið svigrúm þingsins ef málið hefði komið fyrr inn, ef málið hefði ekki borið að með þeim hætti sem um ræðir. Hverju sem um er að kenna gerir það auðvitað að verkum að þingið er sett í nokkuð þrönga aðstöðu til að afgreiða málið. Undir venjulegum kringumstæðum væri eðlilegt að mál af slíku tagi færi til umsagna hjá þeim aðilum sem hafa bæði hagsmuni en líka sérþekkingu á því sviði en verði sú stefna tekin af hálfu hv. efnahags- og viðskiptanefndar að ljúka umfjöllun málsins fyrir þinglausnir í vor er ljóst að tíminn til þess verður allskammur og yfirferð málsins þar af leiðandi nokkuð snöggsoðin.

Hæstv. forseti. Þrátt fyrir þetta held ég að full ástæða sé fyrir okkur þingmenn til að taka málið til jákvæðrar skoðunar, reyna að vinna í því eins og hægt er á þeim tíma sem er til ráðstöfunar og reyna eftir föngum að afla þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru til að leggja mat á áhrif þeirra breytinga sem um ræðir, en það er ekki áhættulaust.

Það er ljóst að til að fjölga fjárfestingartækifærum í landinu þarf að verða veruleg breyting á umhverfi atvinnulífsins. Við höfum áður, og nú á síðustu dögum, rætt mikilvægi þess að losna við gjaldeyrishöftin sem vissulega skipta máli í þessu sambandi en það skiptir líka máli að skref verði tekin af hálfu Alþingis og stjórnvalda í þá átt að auka möguleikana í atvinnu, auka svigrúm atvinnulífsins, auka svigrúm fyrirtækja til að ráðast í ný verkefni, ráðast í fjárfestingar og búa til hagkvæmara og hagstæðara umhverfi fyrir innlenda aðila til að leggja fé sitt í atvinnurekstur. Gerist það ekki er vandséð að við komumst út úr þeirri þröngu stöðu sem er rótin af því vandamáli sem frumvarpinu er ætlað að leysa. Það má því segja að frumvarpið eins og það kemur fyrir sé enn ein afleiðingin af því kreppuástandi sem við búum við og enn ein afleiðingin af því að atvinnulífið hefur ekki náð sér á strik aftur eftir hrun. Atvinnulífið hefur ekki náð vopnum sínum, ef svo má segja, og umhverfið sem meiri hluti þings og stjórnvöld hafa boðið atvinnulífinu upp á er ekki til þess fallið að hvetja menn til að fara út í ný verkefni, nýjar fjárfestingar, nýjan atvinnurekstur. Frumvarpið er því ákveðinn plástur.

Það má færa ágæt rök fyrir þeim tillögum sem hér eru en auðvitað hlýtur okkur að vera efst í huga að reyna að komast út úr þeim kringumstæðum sem kalla á skyndi- eða bráðabirgðalausnir af því tagi sem hér er að finna. Það verður ekki gert að óbreyttri skattstefnu. Það verður ekki gert að óbreyttri atvinnustefnu. Vonandi birtir til með hækkandi sól í vor en meðan staðan er eins og hún er hvað varðar almenna fjárfestingarmöguleika í landinu, almenna möguleika atvinnulífsins til að vaxa og dafna, er hætt við að við þurfum að vera í því að setja plástur af þessu tagi á sárið sem að sjálfsögðu er ekki hægt að líta á sem varanleg úrræði eða varanlegar lausnir heldur eru það einhvers konar bráðabirgðaráðstafanir þangað til fer að birta.