141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[17:15]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu lætur kannski ekki mikið yfir sér í opinberri umræðu en þrátt fyrir það er það mikilvægt mál. Fyrirkomulag hinna opinberu háskóla er sennilega þegar vel er að gáð eitt allra mikilvægasta málið sem við getum fjallað um hér þegar til framtíðar er horft. Ég held að eitt af því fáa sem heita má óumdeilt í þessum þingsal sé að hagvöxtur framtíðarinnar, og þá um leið lífsskilyrði þessarar þjóðar, byggir á því hversu vel okkur tekst að skipa háskólamálum okkar, vísindamálum og rannsóknum.

Það er staðreynd og umhugsunarvert að hjá ekki fjölmennari þjóð en okkur skuli vera starfandi jafnmargar háskólastofnanir og raun ber vitni. Fyrir því eru reyndar ákveðin rök að við ættum að reyna að einbeita okkur að því að hafa kannski eina eða tvær háskólastofnanir, jafnvel þótt við séum ekki fleiri, og byggja þær sérstaklega vel upp og veita öllum fjármunum okkar til þess að ná árangri þar. En á móti kemur, og það eru líka rök í málinu, að það getur verið mikilvægt að bjóða upp á nám á háskólastigi víðar, og þá meina ég í landfræðilegri merkingu, þ.e. að bjóða upp á það víðar en í Reykjavík. Eins er mikilvægt að tryggja framboð á námi á háskólastigi þannig að það sé nægilega breitt til þess að hægt sé að sinna þörfum nútímaatvinnulífs. Ég tel því að þær nálganir og sú hugmynd sem er í frumvarpinu um svokallað háskólanet og samstarf háskólanna og háskólaráðanna sé um margt góðra gjalda verð.

Ég man þó að við 1. umr. um málið ræddum við nákvæmlega útfærslu á því samráði, þ.e. hvernig menn sæju fyrir sér faglega ábyrgð og hvernig hægt væri að samræma slíkt á milli skóla o.s.frv. Ég er sammála því sem þá kom fram í umræðu af hálfu hæstv. menntamálaráðherra að það sé hlutur sem menn þurfa ekki að hafa svo miklar áhyggjur af á þessum tímapunkti. En aðalatriðið er að með þessu er leitast við að ná saman og samnýta hina opinberu háskóla þannig að við náum að nýta sem best það fjármagn sem til þessara menntastofnana er lagt.

Eitt af þeim stóru verkefnum sem bíða okkar á næstu árum eru fjárframlög til háskólastofnana og framlög til vísinda- og rannsóknarstarfs okkar Íslendinga. Reiknað hefur verið út og lagt fram á opinberum vettvangi, og því hefur ekki verið mótmælt, að framlög okkar Íslendinga til háskólamenntunar eru lægri miðað við það sem gengur og gerist í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Reyndar er það svo að þegar litið er til annarra skólastiga, til dæmis grunnskólastigsins, kemur í ljós að þar erum við hlutfallslega hærri. Við erum einhvers staðar á eðlilegu meðaltalsróli hvað varðar framhaldsskólastigið, en við erum undir meðaltalinu hvað varðar háskólana og það er mjög mikið umhugsunarefni.

Ég tel því að fram undan hljóti að vera mikil umræða um það hvernig við ætlum okkur að haga fjármögnun háskólastigsins, hvað við komumst langt með opinberar fjárveitingar annars vegar og hins vegar þar sem um er að ræða beina þátttöku nemenda í kostnaðinum við skólahaldið. Til dæmis má nefna Háskólann í Reykjavík þar sem eru skólagjöld og síðan Háskóla Íslands þar sem ekki eru skólagjöld. Það gerir málið nokkuð flóknara þegar um er að ræða heildarstefnumótun í háskólamálum almennt.

Ég er sammála því sem fram kemur í áliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar hvað varðar stöðu stúdenta á háskólafundum, að nauðsynlegt sé að horfa til þess hvernig kosið er hjá stúdentunum og að þær kosningar endurspeglist síðan á háskólafundum. Ég man að þegar ég átti sæti í háskólaráði Háskóla Íslands var kosið til tveggja ára. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að ekki hefði veitt af því að menn hefðu tíma til að koma sér inn í málin þegar menn taka sæti í slíku ráði. Það tekur töluverðan tíma bara að koma sér inn í þau mál sem þar eru, inn í þann hugsunargang og það verklag sem viðhaft er í háskólaráði áður en menn fara í raun og veru að geta gert gagn á þeim vettvangi. Það er nauðsynlegt að hlusta vel á hvað stúdentarnir segja varðandi þetta til þess að tryggt sé að þar sé góð sátt og það henti því fyrirkomulagi sem stúdentar hafa varðandi innri málefni sín.

Virðulegi forseti. Mig langar rétt aðeins áður en lengra er haldið að nefna að ég er svolítið hugsi yfir þeim athugasemdum sem hér hafa komið fram varðandi Landbúnaðarháskóla Íslands og stöðu hans. Fram kom gagnrýni varðandi landbúnaðarkennsluna sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason fór ágætlega yfir í ræðu sinni. Þeir sem vel þekkja til landbúnaðarmenntunar hafa greinilega nokkrar áhyggjur af hinu nýja fyrirkomulagi.

Ég gríp hér niður í nefndarálit meiri hlutans, með leyfi forseta:

„Fyrir nefndinni var gagnrýnt að ekki væri gert ráð fyrir formlegu utanumhaldi um búfræði- og garðyrkjunám hjá Landbúnaðarháskóla Íslands.“

Meiri hlutinn telur sig reyndar hafa nokkur svör við því en varðandi það vil ég segja að það er mjög nauðsynlegt að þar sem um er að ræða nám á háskólastigi sem hefur beina tengingu við ákveðna starfsgrein, til dæmis eins og í landbúnaði, er mjög mikilvægt að náin tengsl séu á milli greinarinnar sjálfrar og þess náms sem boðið er upp á og þeirrar rannsóknarvinnu sem unnin er innan þeirrar menntastofnunar.

Virðulegi forseti. Ég var í hópi þeirra sem var ekkert allt of hrifinn af þeirri hugmynd þegar ákveðið var að færa Landbúnaðarháskólann á Hólum frá landbúnaðarráðuneytinu í menntamálaráðuneytið. Annars vegar höfum við háskólastarfsemi, starfsemi sem er lík þeirri sem Háskóli Íslands býður upp á. Það er akademísk stofnun með breitt vísinda- og rannsóknasvið, með breitt úrval af námi. Hins vegar höfum við sérhæfða stofnun með sérhæft hlutverk sem beinir allri sinni athygli, kröftum og fjármagni að ákveðnum þætti, til dæmis landbúnaði. Ég er þeirrar skoðunar að menn verði að gæta mjög vel að því hvernig haldið er á málum gagnvart landbúnaðarháskólanum, að þess verði gætt að ekki verði farið að reyna að fella þá starfsemi inn í það form sem hentar fyrst og fremst skólum eins og Háskóla Íslands, sem er breið akademísk stofnun og er um margt gerólík minni háskólastofnunum eins og til dæmis Landbúnaðarháskólanum á Hólum.

Reyndar á það sama við varðandi Háskólann á Akureyri. Innan vébanda hans er mjög mikilvægt nám í sjávarútvegsfræðum sem hefur, rétt eins og landbúnaðarháskólarnir, ákveðinn fókus og miðar starf sitt við ákveðna atvinnugrein. Mér hefur alltaf fundist það svolítið sérstakt hvað varðar Háskóla Íslands hversu lengi hann lét undir höfuð leggjast að sinna grundvallaratvinnuvegi þjóðarinnar, sjávarútvegi. Mér hefur alltaf fundist það vera galli að Háskólinn á Akureyri hafi tekið forustu í þeim málum og boðið upp á alvöru háskólanám í sjávarútvegsfræðum. Háskóli Íslands hefði fyrir langa löngu átt að vera farinn að bjóða upp á slíkt nám. Það var þannig hér að þeir sem ætluðu sér í slíkt nám þurftu að fara úr landi, t.d. til Noregs, til þess að sækja sér þá menntun.

Af hverju nefni ég það hér? Jú, það er til ítrekunar á því hvað varðar það stjórnunarfyrirkomulag sem við höfum á háskólunum að þó að við séum að reyna að sameina þetta og ná fram heildaráferð og um leið betri nýtingu fjármuna hef ég hef vissar áhyggjur af slíkri sérmenntun og hinum minni sérskólum. Ég held að það endurspeglist nokkuð í því sem komið hefur fram hjá þeim gestum sem komu til allsherjar- og menntamálanefndar í tengslum við umræðu um landbúnaðarháskólana að nauðsynlegt sé að við gætum þess að það svigrúm sem slíkir skólar þurfa að hafa verði ekki skert og að þeir týnist ekki í einhverju stóru kerfi.

Ég held að hægt sé að halda því fram með ágætum rökum að stundum felist styrkurinn einmitt í hinu smáa og sérhæfða og að menn geti náð mjög langt, jafnvel á heimsvísu, í litlum en markvissum háskólastofnunum sem sinna einhverju ákveðnu, afmörkuðu sviði. Að því snúa vangaveltur mínar einmitt í þessu máli, hvort við höfum tryggt nægjanlega vel að við drögum ekki úr möguleikum slíkra stofnana til þess að þróast og bregðast við.

Það er jú það sem Háskóli Íslands hefur lagt upp með, að verða ein af 100 bestu menntastofnunum veraldarinnar. Sá metnaður sem kemur þar fram er svo mikilvægur fyrir okkur Íslendinga, metnaður til þess að ungt fólk á Íslandi geti sótt sér menntun sem stenst samanburð við það besta, ef svo má segja, eða er í það minnsta nægjanlega góð til þess að menn geti sagt að það sé fullkomlega réttlætanlegt að mennta sig á Íslandi. Að menn geti treyst því að þannig fái menn menntun sem er sambærileg við það sem gerist í þjóðunum í kringum okkur þar sem best er gert. Og með þeirri ákvörðun forsvarsmanna Háskóla Íslands að segja: Við stefnum að því að verða einn af 100 bestu háskólum heims, var tekin gríðarlega mikilvæg stefna. Ég held að fara mætti meira fyrir umræðu um þá ákvörðun opinberlega vegna þess að með því erum við að segja, og ég held að það hafi reyndar verið ástæða fyrir Alþingi fyrir löngu síðan til þess að taka alveg sérstaka umræðu um þá stefnumótun Háskóla Íslands: Kröfur okkar til menntunar, rannsókna og vísinda í landinu eru þær að við ætlum ekki að sætta okkur við að verða eftirbátar annarra þjóða hvað þetta varðar.

Þess vegna stöndum við enn og aftur frammi fyrir því að fjárframlög okkar til þessa málaflokks, til háskólastigsins almennt, eru augljóslega ekki nægjanleg. Fyrir utan það sem við erum að gera hér og það almenna skipulag sem hér er lagt upp með er alveg nauðsynlegt að við bregðumst við. Ég er þeirrar skoðunar að þjóð séu allir vegir færir og rúmlega það sem býr við miklar náttúruauðlindir og fjárfestir um leið ríkulega og myndarlega í menntun og vísindum og nær síðan að samþætta þetta tvennt; náttúruauðlindirnar og vísindin.

Það er rangt sem sumir hagfræðingar hafa haldið fram að það sé einhver sérstök bölvun fyrir þjóðir ef þær eiga of miklar auðlindir vegna þess að þá byggi þær ekki nægilega mikið á hugviti. Það er rangt. Það hangir nefnilega saman með allt öðrum hætti. Ríkulegar auðlindir og síðan menntun og vísindi tryggir þjóðum, ef vel er á haldið, möguleika á mjög góðum lífskjörum. Þetta frumvarp er þess vegna mjög mikilvægt mál þó að ekki sé hrópað um það á torgum.

Þó að það sé ekki efst á dagskránni í almennri umræðu er hér verið að leitast við að leysa að nokkru þann vanda sem felst í því að við erum fámenn þjóð, en við erum með margar háskólastofnanir. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að ekki sé undan því vikist að vera með fleiri en eina og fleiri en tvær. Ég tel til dæmis að hvað landbúnaðarháskólana varðar alveg eðlilegt að hafa sérstakar háskólastofnanir utan um einstaka atvinnuvegi eða þróun einstakra atvinnuvega og það sé ekkert rangt við það, það getur jafnvel verið lykillinn að verulegum framförum innan viðkomandi greinar.

Við sjáum það til dæmis að hér á landi er Jarðhitaháskóli Sameinuðu þjóðanna. Það var alveg gríðarlega mikilvægt fyrir okkur Íslendinga þegar tekin var ákvörðun um að byggja þá háskólastofnun upp á Íslandi, bæði vegna þess að þar með yrði það einhvers konar miðstöð rannsókna- og þróunar á þessu sviði og nemendur hvaðanæva að úr heiminum kæmu hingað til lands til þess að læra þessi fræði. Námið er sérstaklega byggt upp í kringum jarðhitann. Þeir einstaklingar fara síðan til heimalanda sinna aftur og starfa þar og hafa um leið mikil og náin tengsl við Ísland. Þar með eiga Íslendingar eða íslensk fyrirtæki ef til vill greiðari aðgang að verkefnum í þeim löndum þar sem þeir starfa sem verið hafa við nám við Jarðhitaháskóla Sameinuðu þjóðanna.

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki alveg á fyrirmælum forseta um tímamælingar hér.

(Forseti (ÁÞS): Nei, en forseti getur upplýst hv. þingmann um það að það er villa í klukkunni. Þingmaðurinn á um það bil tæplega 3 mínútur eftir af ræðutíma sínum.)

Virðulegi forseti. Ef það væri eina villan í þessu lífi væri ég ánægður, en látum það nú vera.

(Forseti (ÁÞS): Það er örugglega eina villan hjá þeim forseta sem hér er.)

Á það mun reyna hér síðar í dag. Ég vil þá bara segja að lokum, úr því að þetta er tíminn sem eftir er, að ég tel að hér hafi verið unnið um margt ágætt verk hvað varðar breytingar á lögum um opinbera háskóla og um samstarf þessara skóla. Það er ekki þar með sagt að því verki sé lokið. Ég minni á að við þurfum að finna jafnvægið á milli sérskólanna annars vegar og almennu skólanna hins vegar, hvernig það mun þróast og gæta þess að þróunin verði ekki sú að almennu, stóru skólarnir yfirskyggi starfið í sérskólunum. Ég held að ástæða sé til þess að fylgjast mjög vel með því að það gerist ekki, en það kom einmitt fram í umsögnum og athugasemdum þeirra sem hafa með landbúnaðinn að gera. Stundum geta menn nefnilega náð afburðaárangri í hinu smáa ef vel er haldið á málum.