141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[17:50]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru mikilvæg atriði sem þingmaðurinn hreyfir hér við. Hvað varðar þann vanda sem ég drap á undir lok andsvars míns og hv. þingmaður tók upp og eru skólagjöldin þá eru þau ákveðið vandamál sem er kannski ekki alveg augljóst hvernig má yfirstíga. Ég velti því þó upp sem dæmi að ef um er að ræða nemanda í opinberum háskóla þar sem ekki eru innheimt skólagjöld en viðkomandi vill sækja sér einingar í skóla þar sem eru innheimt skólagjöld ætti til dæmis að vera hægt að bjóða þeim nemanda að hann greiði nákvæmlega fyrir þann kúrs sem er í boði eða nemandinn vill sækja og búið að ákveða hvað slíkt kostar. Þá er hægt að fara á milli og fá það síðan viðurkennt.

Ég trúi ekki öðru en hægt sé að finna lausnir á vandanum þannig að nemendum sé í sjálfsvald sett hvað þeir gera í þeim málum. Það sé enginn þvingaður eða skyldaður þannig að opinberu háskólarnir sem hafa þá stefnu að innheimta ekki skólagjöld geti haldið því áfram þegar pólitískur vilji er til að hafa fyrirkomulagið þannig en að um leið þrífist háskólastofnanir sem taka skólagjöld. Ég tel mjög mikilvægt að boðið sé upp á slíkt. Ég sá reynslu okkar af því þegar Háskólinn í Reykjavík var stofnaður. Þar með myndaðist ákveðin samkeppni við Háskóla Íslands, í það minnsta í ákveðnum fögum, sem gerði Háskóla Íslands mjög gott. Það var alveg nauðsynlegt að það gerðist til að koma í veg fyrir stöðnun þar innan dyra.

Þess vegna er einmitt þetta flæði bæði nemenda og kennara. Ég játa að ég hef ekki alveg hugleitt það sem hv. þingmaður nefndi varðandi mat á kennurum þegar þeir fara til dæmis úr einkareknum skóla og yfir í Háskóla Íslands, hvernig er haldið á málunum með matsnefndir og annað slíkt. Það er kannski flóknara því að um leið er það auðvitað svo að Háskóli Íslands, eða skóli eins og hann, verður að bera ábyrgð á gæðakerfi sínu. Það er kannski hægt að leysa það með því að hann taki fyrir fram einhverjar ákvarðanir eins og þingmaðurinn nefndi (Forseti hringir.) varðandi hvernig hann metur matsnefndir annarra skóla. Ég er þó (Forseti hringir.) staddur þar í því máli að ég tel mikilvægt að háskólinn hafi sitt forræði í því.